Ragnhildur segist lengi hafa haft gaman af því að klæða sig upp og þarf ekki tilefni til þess.

„Til dæmis núna, á þriðjudagsmorgni í vinnunni, þá er ég í sama kjól og þeim sem ég klæddist í afmælisveislu um daginn. Ég er yfirleitt aðeins fínni en ég þarf að vera, og ef einhver býður mér í kokteil eftir vinnu, þá ég reiðubúin. Ég myndi eiginlega lýsa mínum fatastíl þannig, ef ég má sletta smá, að ég sé „always a little overdressed“,“ segir Ragnhildur. „En vegna þess, þá setur fólk oft athugasemd við klæðnað minn, og ég fæ mikið af: „Þú ert alltaf svo fín!“ Mér finnst það bara skemmtilegt.

Ég veit alveg að ég er fínni en ég þarf að vera, en ég er bara þannig, það er partur af því sem ég er. Litlar stelpur líta líka oft upp til mín, það finnst mér gaman. Hver ákveður líka hversu fín ég má vera á hverjum degi fyrir sig? Það gengur vinsæll póstur um Instagram núna þar sem fólk talar um að fötin sem það deyi í muni verða eilífðar draugabúningur þess. Þú verður bókstaflega í þessum fötum það sem eftir er. Af hverju ekki að vera fínn?“ segir Ragnhildur og hlær.

Skapandi að klæða sig

Ragnhildi þykir það pínu fyndið að blaðamaður Fréttablaðsins sé að taka viðtal við sig um tísku.

„Ég fylgi ekki tískunni, heldur fer mína eigin leið, þannig séð. Þess vegna þykir mér þetta svolítið fyndið. Fyrir mér er það skapandi verknaður að klæða sig. Ég hugsa mikið í litum og þykir gaman að tefla saman ólíkum litum í klæðnaðinum. Það þarf að vera samspil á milli naglalakks, varalitar og mynsturs í kjól. Ég slepp með að klæðast nánast hvaða lit sem er, nema lillafjólubláum. Mér finnst hann mjög fallegur, en hann gengur ekki fyrir mig. Það er einhver bleikur tónn í húð minni sem passar ekki við lillafjólubláan. Annars sæki ég mikið í sterka liti og er minna í pastellitum.

Ég var með eldrautt litað hár í um ellefu ár, og það er þannig sem margir muna eftir mér. En ég var orðin þreytt á að lita það. Núna er ég með ljóst hár sem er næst mínum náttúrulega háralit. Áður en ég fór í ljósa litinn litaði ég hárið svart á tímabili. Það var skemmtilegt um sinn. Þegar ég var með rauða hárið fann ég að ég gat ekki farið í ákveðna tóna af bleikum. Það bara passaði ekki, en núna þegar ég er með ljósa hárið þá gengur það mun betur upp. Núna er ég að bíða eftir að hárið verði almennilega hvítt eða grátt. Það er fullkominn strigi sem gefur mér tækifæri til að leika mér með hvaða liti sem er í fatnaði.“

Ragnhildur Jóhanns myndlistarkona er kjóladrottningin í Hjarta Reykjavíkur.
Sigtryggur Ari

Tvískiptur fataskápur á hreyfingu

Ragnhildur laðast að kjólum og pilsum frá ólíkum tímabilum.

„Ég versla mest í búðum með notuð föt og er 80% af fataskápnum mínum „vintage“ eða „second hand“ fatnaður. Ég á kjóla sem eru frá sjöunda áratugnum, en líka þeim áttunda, níunda og svo tíunda. „Eightees“ tískan höfðar kannski minnst til mín af þessum áratugum, en sixtís og seventís kjólana kann ég vel að meta. Núna er ég mjög hrifin af kjólum frá tíunda áratugnum, það er 1990 og upp úr, sérstaklega þegar þeir vitna í sixtís kjólana, með útvíðum pilsum og belti eða bandi í mittið.

Ég sæki mjög mikið í litríka og mynstraða kjóla og er alltaf í annaðhvort pilsi eða kjól. Hins vegar geng ég ekki í buxum. Mér finnst þær fínar á öðrum konum, en mér finnst þær bara ekki þægilegur fatnaður. Þær fara oft óþægilega inn í mittið, eru þröngar og oft úr óþægilegum efnum. Fyrir um tuttugu árum síðan gekk ég alveg í buxum, en í dag líður mér einfaldlega best í kjól. Og ég á sko sumarkjóla og vetrarkjóla. Já, vina mín, það eru til vetrarkjólar sem henta fyrir kaldara veður. Þetta er alveg tvískiptur fataskápur.“

En hefurðu einhverja tölu á því hversu marga kjóla þú átt?

„Mig grunaði að þú myndir spyrja að þessu. Fataskápurinn minn er mjög lifandi og það er mikil hreyfing á honum. Eins og er á ég örugglega um 50 kjóla sem ég nota. En svo á ég fleiri kjóla líka. Ég leigi reglulega bás í Verzlanahöllinni og sel flíkurnar sem ég er hætt að nota, og stuttu síðar er ég búin að kaupa nýjar í staðinn fyrir þá sem ég seldi.

Það sem ég hef tekið eftir með aldrinum er að ég er orðin mun viðkvæmari fyrir gerviefnum en ég var. Margir af gömu „vintage“ kjólunum, þó svo þeir séu í fallegum litum og mynstrum sem ég sogast að, eru úr gerviefnum. Því þarf ég að velja betur þegar kemur að efnum.“

Að hennar mati er það skapandi verk að klæða sig á morgnana. Tefla saman áferð og litum, mynstruðum kjólum, naglalakki og varalit. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Gott mótvægi við túristatískunni

Ragnhildur Jóhanns situr vaktina í versluninni Hjarta Reykjavíkur á Laugavegi, sem hún rekur ásamt manninum sínum, Jóhanni Ludwig Torfasyni.

„Núna þegar túrisminn er kominn aftur í gang er aftur mjög mikið um ferðamenn og alltaf nóg að gera hjá okkur. Ég er alltaf fín í tauinu í búðinni, eins og mér einni er lagið og fæ mikið af hrósi, sérstaklega frá ferðamönnunum. Það er náttúrulega frekar fyndið að bera saman minn klæðnað og þeirra, þar sem ferðamenn á Íslandi klæðast langflestir hátækni útivistarfatnaði og fjallgönguskóm, jafnvel í miðbæ Reykjavíkur, eins og þeir séu ávallt reiðubúnir að klífa fjall. Það kvarta sumir yfir því að ferðamenn klæði sig ekki upp, til dæmis þegar þeir fara fínt út að borða, en mér finnst þetta bara aðallega fyndið. Margir eru líka með risabakpoka, bara að labba Laugaveginn, jafnvel pör hvort með sinn bakpokann. Ég hugsa oft með mér hvað sé í þessum bakpokum og hvernig sá búnaður nýtist á verslunargötu í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Ragnhildur.

Lífið og listin

Ragnhildur Jóhanns er þekktur myndlistarmaður og má segja að einn rauður þráður í verkum hennar sé kvenleiki og kynjahlutverk. Föngulegir sokkabuxnaklæddir leggir eru áberandi myndmál í klippiverkum hennar sem finna má á Instagram-síðu hennar: Ragnhildur Jóhanns. Bækurnar úr Rauðu seríunni má einnig sjá í mörgum verka hennar sem og draumaráðningar og efni úr gömlum bókum sem kenna konum að leika kynhlutverk sitt.

„Það er alveg klárlega tenging þarna á milli,“ segir Ragnhildur um listina og svo kjólana. „Lífið og listin samtvinnast þarna hjá mér.

Vissulega eru kjólar kvenlegir, en það geta allir klæðst kjólum. Karlar geta klæðst kjólum og pilsum þó svo að samfélagið flokki þessar flíkur enn þá sem kvenlega tísku, ásamt nælonsokkum. Upp úr 1960 brutust konur gegn ríkjandi hefðum með því að klæðast buxum, en í dag finnst mér það líka femínismi að geta sem kona, leyft mér að taka hið kvenlega í mér opnum örmum og fagna því. Ég þarf ekki að vera í buxum í dag til þess að vera femínisti.“