Tinna er stödd í Landmannalaugum þessa dagana þar sem hún verður skálavörður í tvær vikur. Hún segist alltaf reyna að finna tíma á hverju ári til að fara þangað.

„Ég var einmitt að koma áðan og ég finn bara hvernig hægist á hjartslættinum og ég jarðtengist. Ég finn bara létti þegar ég kem hingað, það losnar eitthvað þegar ég kem í náttúruna og kyrrðina hér,“ segir hún.

„Það er ennþá svolítill snjór hér, skýjað og vindur, en við skálaverðirnir erum í algjörum lúxus hér í okkar eigin skála. Hér er hægt að hlaða batteríin þó maður sé að vinna. Listafólk gerir svolítið af því að koma hingað og vera skálaverðir. Það eru margir sjálfstætt starfandi listamenn hér. Þetta eru svona uppgrip og innblástur um leið.

Nýlega frumsýndi Tinna leikverkið Them með leikhópnum sínum Spindrift Theatre. Sýningin var sýnd fyrir fullu húsi en Tinna segir að húsið hafi snarfyllst á fyrstu sýningunni. Í verkinu kafa fjórar leikkonur ofan í heim karla en verkið byggir á raunverulegum samtölum við karla á Norðurlöndunum.

„Sýningin gekk rosalega vel. Við vorum ánægðar með aðsóknina og andrúmsloftið sem skapaðist. Það spunnust mjög áhugaverðar umræður út frá sýningunni. Fólk sagði við okkur: Ég bara hló og grét og sá pabba minn og bróður minn þarna á sviðinu. Við heyrðum af því eftir á að verkið hefði spunnið út frá sér áhugaverðar umræður meðal gesta, ekki kappræður þar sem einhver fer í vörn og heldur með einhverri skoðun, heldur umræður. Það er einmitt það sem okkur langaði að gerðist,“ segir Tinna.

Hún segir að næst á dagskrá sé að fara með sýninguna til Gautaborgar í haust. Svo er stefnan að ferðast meira með hana og sýna hana aftur hér á Íslandi, en það er þó ekki komin dagsetning á það.

Tinna starfar næstu vikurnar sem skálavörður í Landmannalaugum þar sem hún hleður batteríin og fær innblástur. MYND/VÍKINGUR ÓLI MAGNÚSSON

Kviknaði við eldhúsborðið

Þessa dagana er Tinna að vinna að óperu sem byggð er á ljóðabókinni, Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett, eftir Elísabetu Jökulsdóttur. En Anna Halldórsdóttir hefur samið tónlist við ljóðin í bókinni.

Hugmyndin að óperunni kviknaði fyrir sjö árum við eldhúsborðið heima hjá Elísabetu. Tinna, sem þekkti Elísabetu ekki neitt á þeim tíma, var stödd þar til að kaupa bókina af henni.

„Þetta er hugmyndin hennar Elísabetar, en ég er ekki viss um að hún muni eftir því,“ segir Tinna og hlær. „Eða jú, hún man líklega eftir því núna því ég minnti hana á það,“ bætir hún við.

Tinnu langaði að gefa vinkonu sinni þessa bók í afmælisgjöf og hugsaði að skáldkonan fengi líklega mest fyrir bókina ef hún keypti hana beint af henni en ekki úr bókabúð.

„Ég hafði þess vegna samband við hana. Ég þekkti hana ekki neitt en ég hringdi í hana. Hún bauð mér að koma heim til sín á ákveðnum tíma til að kaupa bókina, sem ég gerði og hún bauð mér inn í te,“ útskýrir Tinna.

Þar sem þær voru að spjalla saman yfir tebolla kom til tals að Tinna var að læra söng. Elísabet sagði þá: „Frábært!“ Opnaði bókina á einhverri síðu og bætti við: „Værirðu ekki til í að syngja laglínu við eitthvað af þessum ljóðum?“

„Ég sagði bara já, já. Svona eins og maður gerir yfir tebolla í eldhúsinu heima hjá einhverjum sem maður þekkir ekki neitt. Svo söng ég einhverja laglínu við eitt ljóðið. Mig minnir að það hafi verið Carmen laglínan,“ segir Tinna hlæjandi.

Elísabet bað Tinnu þá að prófa að spinna einhverja laglínu við ljóðið sem hún gerði.

„Og þá segir Elísabet: Heyrðu! Þetta er bara ópera. Ég segi: Já! Klárlega! En svo varð ekkert meira úr þessu.“

Ég sagði bara já, já. Svona eins og maður gerir yfir tebolla í eldhúsinu heima hjá einhverjum sem maður þekkir ekki neitt.

Hefur aldrei samið óperu fyrr

Einhverjum árum seinna tók Tinna bókina úr hillunni, en hún keypti líka eintak handa sjálfri sér. Hún las hana aftur og hugsaði með sér að textinn væri mjög leikrænn. Þá vaknaði hugmyndin um óperuna aftur. Tinna segir að handritið sé næstum tilbúið og hún hefur fengið gott fólk til liðs við sig til að láta óperuna verða að veruleika.

„Anna Halldórsdóttir, sem semur tónlistina, hefur samið fullt af tónlist áður og unnið til verðlauna. En hún hefur aldrei samið óperu. Ég hef heldur aldrei gert neitt þessu líkt svo við höfum bara verið að þreifa okkur áfram og þetta hefur vaxið hægt og örugglega,“ segir Tinna.

„Við byrjuðum að finna línuna í gegnum söguna. Finna hver sagan er og velja úr ljóð. Það var mjög erfitt því þau eru öll svo flott. Við gátum ekki haft öll ljóðin með því þá hefði þetta endað sem tveggja tíma verk. Það er allt of langt þegar það er bara ein söngkona. En ég held við höfum endað á að nota svona helminginn af ljóðunum í bókinni.“

Óperan er að sögn Tinnu kammerópera fyrr eina rödd, selló og raftónlist. Júlía Mogensen spilar á selló og Berglind Júlía Jóhannsdóttir ætlar að leikstýra.

„Eins og við sjáum þetta fyrir okkur núna, þá verða einhver ljóð sungin, einhver spiluð á selló og einhver flutt töluð. Ljóðabókin er saga sem segir frá ofbeldisfullu ástarsambandi frá byrjun til enda, saga konunnar í bókinni speglast í þessu ástarsambandi,“ segir Tinna.

Forréttindi að hafa nóg að gera

Tinna segir að verkið sé á mörkum óperuflutnings og tónleika.

„Það er spurning hvenær eitthvað kallast tónleikar, leiksýning eða ópera. En við köllum þetta óperu af því við ákváðum það bara,“ segir hún.

Vinnutitillinn á óperunni hefur verið styttur niður í Ástin, en endanlegt nafn á sýninguna er ekki komið. Tinna segir að stefnt verði á frumsýningu fljótlega eftir áramót.

„Frumsýningin átti að vera í haust en þá kom upp úr dúrnum að ég er að fara að frumsýna annað verk.“

Verkið sem Tinna sýnir í haust er hluti af seríu sem Elísabet Gunnarsdóttir leikstjóri og dansari hefur verið með.

„Serían heitir: Ég býð mig fram. Þetta er fjórða serían og undirtitillinn er Nýr heimur. Þetta verða dúettar sem hún semur með ýmsum listamönnum og sýnir með þeim. Ég verð þar á meðal. Þetta verða leikdúettar, dans og tónlist,“ segir Tinna, sem hefur augljóslega nóg fyrir stafni.

„Svo í ágúst verð ég með myndlistarsýningu á hátíðinni Act Alone á Suðureyri. Það verður svona einleikur uppi á vegg.“

Tinna segir það forréttindi að hafa nóg að gera þó það sé „ótrúlega næs“ að sitja stundum auðum höndum.

„Það er best þegar það er jafnvægi. Maður nær því stundum í smástund. En lífið er alltaf á hreyfingu. Lífið er eilíf leit að jafnvægi.“