Leikhús
Ásta
Þjóðleikhúsið- Kassinn
Handrit og leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson
Leikarar: Birgitta Birgisdóttir, Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Oddur Júlíusson, Hákon Jóhannesson og Steinunn Arinbjarnardóttir
Hljómsveit: Guðmundur Óskar Guðmundsson, Matthildur Hafliðadóttir, Rögnvaldur Borgþórsson og Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir
Tónlist: Guðmundur Óskar Guðmundsson og Matthildur Hafliðadóttir
Leikmynd: Sigríður Sunna Reynisdóttir
Búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir og Sigurbjörg Stefánsdóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Myndbandshönnun: Steinar Júlíusson
„Stigaopið gein við mér kolsvart, tilbúið að gleypa mig lifandi. Ég fann, að það hafði botn einhvers staðar langt niðri.“ – Svo skrifaði Ásta Sigurðardóttir í Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns, sem kom út í tímaritinu Líf og list árið 1951. Ásta, frumsýnd í Þjóðleikhúsinu síðastliðinn föstudag, er sýning byggð á lífshlaupi þessarar merkilegu listakonu sem lauk alltof snemma, stigaopið beið hennar og gleypti.
Skissur úr lífi
Ólafur Egill Egilsson leikstýrir og skrifar leikgerðina. Handritið skortir litbrigði og raunverulega dýpt, hér er of mikil áhersla lögð á framvindu, frekar en túlkun á atburðum. Aðstæður eru útskýrðar en ekki sviðsettar. Myndræn framsetning á Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns er eftirminnilegasta sena sýningarinnar og lýsandi dæmi um þá túlkunarmöguleika sem líf og list Ástu hefur að geyma. Einnig koma fram áhugaverðar hugmyndir um hvað er satt og hvað ekki; er eðli bæjarslúðursins öðruvísi heldur en afneitun einstaklingsins á eigin gjörðum? Ólafur er fær leikstjóri, en honum tekst ekki að brjótast frá eigin höfundarverki.
Titilhlutverkið, Ásta Sigurðardóttir, er leikið af Birgittu Birgisdóttur, en hún hefur verið á góðri siglingu síðustu misseri og bregst ekki bogalistin hérna. Í hennar túlkun er Ásta drifin áfram af sköpunarkrafti og ástríðu, fyrir listinni og ástinni. Ögrandi nærvera hennar dregur til sín aðdáendur en flestir þeirra stoppa stutt við. Birgitta skilur að undir niðri kraumar rísandi örvænting og stjórnleysi, en nær ekki að koma lokaaugnablikunum nægilega vel til skila.
Of margar aukapersónur ferðast um sviðið, manneskjur sem áhorfendur fá sjaldan að kynnast af einhverri dýpt, heldur fremur í gegnum einstaka frasa. Persónur tala að auki í yfirlýsingum og útskýringum, sem gerir leikurunum ekki auðvelt fyrir. Aðalbjörg Árnadóttir sýnir öruggan leik í hlutverkum sínum, þá sérstaklega sem Þóranna, móðir Ástu, og Stefán Hörður Grímsson. Oddur Júlíusson er eftirminnilegur sem atómskáldið Jónas Svafár, en fær ekki úr miklu að moða þess utan.
Hákon Jóhannesson gerir sér mat úr Elíasi Mar og næmur leikur hans gerir Geir Kristjánsson að fullskapaðri persónu, fullum af hroka en líka sársauka. Gunnar Smári Jóhannesson japlar á hlutverki Steingríms Sigurðssonar, kannski af of miklum móð og Þorsteini frá Hamri kynnast áhorfendur sáralítið. Steinunn Arinbjarnardóttir stígur hér sín fyrstu skref í Þjóðleikhúsinu og stendur sig með prýði, þá sérstaklega í hlutverki Oddnýjar, systur Ástu.
Óreiða á striga
Leikmynda- og búningahönnun er í höndum Sigríðar Sunnu Reynisdóttur, en búningana vinnur hún með Sigurbjörgu Stefánsdóttur. Leikmyndin er eins og samansafn af hugarbrotum Ástu og nýtur sín vel í Kassanum, en verður stundum of þunglamaleg þegar leikararnir þurfa að færa hana til. Búningarnir eru áferðarfagrir, þá sérstaklega búningar Ástu sem eru hver öðrum glæsilegri, kannski of glæsilegir miðað við samfélagsstöðu hennar. Tónlistin er hljómþýð en textarnir eru teknir upp úr skáldskap Ástu. Hugmyndin er prýðisgóð en er samt ekki fundinn nægilega góður staður í sýningunni. Matthildur Hafliðadóttir syngur laglega en hljómsveitin stimplar sig ekki nægilega vel inn og túlkun á ljóðunum þyrfti að vera meira ögrandi, eins og konan sjálf.
Lífshlaup Ástu Sigurðardóttir var átakanlegt, en þessa sýningu skortir tilfinnanlega átök. Nálgunin einskorðast við að segja frá frekar en að túlka og fátt nýtt kemur upp á yfirborðið, í handriti sem þyrfti að stytta. Áhorfendur kynnast aukapersónum verksins lítið og leikarar sitja uppi með sýnishorn af persónum frekar en heildstæðar manneskjur. Sýningin er upp á sitt besta þegar hún endurspeglar skáldskap Ástu, frekar en að mata áhorfendur með fróðleiksmolum um líf hennar.
Niðurstaða: Birgitta ber af í hlutverki Ástu, en sýninguna skortir dýpt.