Arkitektinn Anna María Bogadóttir segir sögu niðurrifs Iðnaðarbankahússins við Lækjargötu í bókinni Jarðsetningu sem kom út í haust hjá Angústúru útgáfu og samnefndri kvikmynd sem var frumsýnd á RIFF. Í bókinni blandar Anna María saman arkitektúr, hugmyndasögu og endurminningum og segir sögu þessa horfna stórhýsis.
„Það má segja að bókin leiki sér á mörkum forma og það er líka það sem ég er búin að vera að gera í minni praxís. Að tengja saman ólíka fag- og fræðaheima og ólíkar listgreinar,“ segir Anna María.
Hvaðan spratt áhuginn á að fjalla um þessa byggingu?
„Húsið kallaði sterkt á mig og í bókinni er ég sjálf að komast að því af hverju ég varð svona upptekin af því og örlögum þess. Þetta er bygging sem var náttúrlega áberandi í hjarta miðborgarinnar. Ég hef velt því fyrir mér hvort það var af því ég sat í MR og horfði á hana út um gluggann og síðar úr risinu í Iðnó þar sem ég vann eða sem viðskiptavinur sem kom reglulega í bankann.“

Breytingar í loftinu
Að sögn Önnu Maríu leiddi vitneskjan um að Iðnaðarbankahúsið ætti að hverfa af sjónarsviðinu til þess að hún fór að hugsa um þær hugsjónir og þá drauma sem fólust í byggingunni.
„Þegar ákvörðun var tekin um niðurrifið þá voru ekki liðin nema um fimmtíu ár síðan hún var reist þannig að ég var líka að hugsa um líftíma hins byggða. Það var svo margt táknrænt við þessa byggingu sem framtíðardraum eftirstríðsáranna og hún kjarnar endalok ákveðins tímabils. Svo var ég líka upptekin af henni sjálf sem manneskja,“ segir hún.
Iðnaðarbankahúsið var rifið árið 2017 og hefur nú verið reist nýtísku hótel á sama stað. Að sögn Önnu Maríu var ákvörðunin um að byggingin skyldi víkja þó tekin áratug áður og gefin var heimild fyrir niðurrifi í deiliskipulagi 2008.
„Svo líður langur tími, það verður bankahrun og uppgjör og alls konar hlutir sem breytast. Það er svona í kringum 2014-15 að ég verð þess áskynja, tiltölulega nýkomin heim til Íslands eftir rúman áratug erlendis, hvað er að gerast á Íslandi og hvað er að kveðja okkur,“ segir Anna María.
Það var svo margt táknrænt við þessa byggingu sem framtíðardraum eftirstríðsáranna og hún kjarnar endalok ákveðins tímabils.
Jarðsungu bygginguna
Anna María fékk leyfi hjá eigendum Iðnaðarbankahússins til að jarðsyngja bygginguna 2017. Hún lýsir gjörningnum sem eins konar mótvægi við þær athafnir sem haldnar eru í tilefni nýbygginga svo sem skóflustungur og reisugilli.
Hvernig fór jarðsöngurinn fram?
„Við vorum nokkrir listamenn sem komum inn í bygginguna og Berglind María Tómasdóttir tónskáld leiddi hljóðverk sem var hluti af athöfninni, innblásin af bandarísku tónlistarkonunni Pauline Oliveros. Við hlustuðum á og spiluðum með byggingunni. Það var hugmynd mín að leyfa húsinu að hljóma og óma í hinsta sinn. Þegar fór að rökkva þá var byggingin upplýst og varð eins og ljósviti í borgarumhverfinu.“

Lykilspurning arkitektúrs
Anna María fékk kvikmyndatökumanninn Loga Hilmarsson til að taka upp jarðsönginn og í kjölfar þess hélt hún áfram að skrásetja ferli niðurrifsins sem varð svo að kvikmyndinni Jarðsetningu.
„Það var líka mjög áhugavert fyrir mig sem arkitekt að fylgjast með niðurrifi byggingar. Það má segja að það hvernig við vinnum með hið þegar byggða sé orðið lykilspurning arkitektúrs í dag. Lengi hefur arkitektúr fyrst og fremst snúist um nýja uppbyggingu en það er mikill viðsnúningur í arkitektúr almennt varðandi varðveislu og að nýta byggingararfinn sem við eigum. Ekki bara út frá sögulegu og menningarlegu sjónarmiði heldur líka umhverfislegu,“ segir hún.
Anna María segir að leggja þurfi meiri áherslu á að byggja við byggingar og aðlaga þær breyttum þörfum í stað þess að rífa og byggja nýtt frá grunni.
„Þessi hugmynd um að bygging sé einhvern tímann kláruð er bara nútímahugmynd. Í gegnum aldirnar var alltaf verið að bæta við húsin. Þau voru aldrei kláruð, og voru lifandi vefur sem hver kynslóð var alltaf að bæta við. Það er líka nútímahugmynd að rífa byggingar,“ segir hún.

Niðurrif húss og manns
Jarðsetning er þó ekki bara sagnfræðileg heimild um tímabil í byggingarsögu Reykjavíkur heldur er um að ræða persónulega bók með víðtækar skírskotanir.
„Ég leik mér með ákveðna hliðstæðu í mínu lífi og flétta mína eigin sögu við sögu byggingarinnar. Ég er barn 8. áratugarins og nýt ávaxta uppbyggingar eftirstríðsáranna. Þess vegna valdi ég að vera leiðsögumaður lesandans í gegnum söguna,“ segir hún.
„Líf okkar endurspeglar hugmyndafræðina sem birtist í byggingum. Það er líka þetta með kjölfestu byggingarinnar og hversu mikið við höfum verið að ganga á byggingarauðinn. Við göngum á hann og erum jafnframt að ganga á okkur sjálf.“