Einkasýning Hönnu Dísar Whitehead, Snúningur, verður opnuð í dag, fimmtudaginn 5. maí, í Gerðarsafni klukkan 16.
Á sýningunni verða gerðar tilraunir til að búa til húsgögn úr því sem áður var ílát, blanda saman nýjum aðferðum á fyrri hugmyndir og fá sömu sjónrænu efnistilfinningu út úr ólíkum efnivið.
Klukkan 18.15 verða Bergur Ebbi rithöfundur, Páll Haukur og Fritz Hendrik IV myndlistarmenn með leiðsögn og listamannaspjall í tengslum við verk þeirra á sýningunni Stöðufundur í Gerðarsafni.
Laugardaginn 7. maí býður Hanna Dís Whitehead upp á skemmtilega listsmiðju fyrir börn þar sem unnið verður að munsturgerð. Smiðjan er frá 13–15 og hentar öllum börnum frá 5 ára aldri og fjölskyldum þeirra.
Hanna Dís verður síðan á sunnudag klukkan 14 með leiðsögn um sýninguna Snúningur og fjallar um vinnuferli sitt og tildrög sýningarinnar. Leiðsögninni lýkur með listsmiðju fyrir fullorðna þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að grípa í alls konar efnivið!