Iceland Documentary Film Festival verður haldin núna um helgina í annað sinn á Akranesi. Á hátíðinni er boðið upp á fjölda heims­klassa heimildamynda, ásamt veglegri barnadagskrá, tónlistardagskrá, pub quiz og mörgu fleiru. Gestir geta svo valið um að gista á Akranesi og vera alla hátíðina, eða komið á einstaka viðburði. Það er frítt á alla opna viðburði og í bíóið. Síðan er hægt að kaupa passa sem veitir frekari aðgang að lokuðum viðburðum og dagskránni á netinu.

IceDocs verður haldin í Bíóhöllinni, sem er eitt elsta og fallegasta bíóhús á landinu. Auk þess verður viðburðum dreift víðs vegar um bæinn, meðal annars við fjöruna á Breiðinni og í Akranesvita.

Meðal tónlistaratriða eru íslensku tónlistarkonurnar Matthildur, Between Mountains og Sólveig Matthildur. Sérstakur gestur með tónleika í vitanum er tónlistarmaðurinn Will Carruthers úr sveitinni Spacemen 3. Q&A og bíóspjall, grillveislur, partí, jóga, fjallganga, einstaklega fjölbreytt fjölskyldudagskrá og uppistand með Sölku Gullbrá, er meðal þeirra viðburða sem eru á dagskrá.

Björgunarafrekið við Látrabjarg eftir Óskar Gíslason

Í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands fagnar IceDocs starfi brautryðjandans Óskars Gíslasonar, með sýningu á nýrri og endurbættri útgáfu af mynd hans, sem Kvikmyndasafnið hefur gert upp, sérstaklega við þetta tilefni.

Marshawn Lynch: A History eftir David Sheilds

Heimildamynd um NFL-stjörnuna Marshawn Lynch. Myndin reynir að útskýra hvers vegna NFL-stjarnan Marshawn Lynch kaus að þegja í mótmælaskyni, og sýnir sögu hans i formi 700 myndbandsskeiða sem eru klippt saman á listrænan hátt.

Lessons of love eftir Malgorzata Goliszewska og Katarzyna Mateja

Myndin fjallar um sex barna móð­ur sem er gift ofbeldisfullum manni. Í fjölda ára setti hún á sig farða og lét sem allt væri í himnalagi. Einn daginn verður mælirinn fullur og hún tekur örlögin í eigin hendur. Hún byrjar að láta drauma sína rætast, semur ljóð og syngur um ástina sem hana hefur alltaf dreymt um en ekki upplifað. Það er, þar til hún hittir Wojtek.

Buddha in Africa eftir Nicole Shafer

Mynd um kínverskt munaðarleysingjaheimili í Malawí í Afríku þar sem börnin alast upp milli tveggja heima. Öll samskipti eru á kínversku og þau alin upp eftir kínverskum hefðum.

Aswang eftir Aswang

Þegar Rodrigo Duterte var kosinn forseti Filippseyja hófst banvæn herferð gegn grunuðum eiturlyfjakaupendum, fíklum og smáglæpamönnum. Í Aswang kynnumst við fólkinu í Manila sem hefur upplifað þetta sívaxandi ofbeldi á eigin skinni.

Acasa, my home eftir Radu Ciorniciuc

Enache fjölskyldan hefur búið í tvo áratugi í votlendi utan við Búkarest í góðu samlífi við náttúruna, og líf hennar stjórnast af árstíðunum. En þegar svæðinu er breytt í almenningsgarð neyðast þau til þess að flytja inn í borgina, leggja frá sér veiðistöngina og taka upp snjallsímann.