Alexandra á það sameiginlegt með mörgum teiknurum að hafa verið að teikna síðan hún var krakki. „Fyrir um þremur til fjórum árum síðan ákvað ég að taka af skarið og koma út úr skápnum sem listamaður. Ég hafði verið að teikna sjálf og eftir pöntunum eins og blóm, gæludýr, myndir af börnum og fleira persónulegt, en svo ákvað ég að þetta væri ekki hobbí fyrir mér lengur.

Sömuleiðis hafði mig lengi langað í myndlist en var pínu hrædd við að taka skrefið. Ég er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og þegar faraldurinn hófst þá var ekkert að gerast í þeim bransa. Því ákvað ég að láta reyna á gamlan draum og skráði mig í tveggja ára diplómanám í teikningu í Myndlistaskólanum. Núna á ég eitt ár eftir í MíR,“ segir Alexandra.

Alexandra hefur gaman af því að vinna með hugmyndina um fegurð og teygja hana og toga.
Fréttablaðið/Valli

Vildi ekki vera skúffuskáld

Alexandra umturnaði Instagramreikningnum sínum, sem var mestmegnis persónulegt efni, og hóf að deila öllu sem hún teiknaði, hvort sem hún var 100% ánægð með það eða ekki. „Ekki vildi ég vera eins og skúffuskáldin sem gera ekkert opinbert. Ég ákvað að samþykkja að þetta væri nú atvinna mín og bjó til heimasíðu þar sem ég tek við flestum verkefnum. Hugmyndir mínar um líf listamannsins voru áður mjög rómantískar, að hann væri einn heima í kjallaranum að mála og svo kæmi bara verkið fram fullskapað. En þetta er alls ekki jafn rómantískt og maður skyldi halda. Í dag þurfa myndlistarmenn líka að vera sínir eigin umboðsmenn. Þetta er mikil vinna og bras, sérstaklega ef þú sérð um bókhaldið líka. Síðan ég tók þessa ákvörðun hef ég tekið eftir ýmsum breytingum og eftir því sem ég eyði meiri tíma í að auglýsa mig og koma fram sem teiknari, því meira uppsker ég af verkefnum.“

Þór er glæsilegur í brúðarklæðum þrátt fyrir vandræðaháttinn og er Þrymur dolfallinn yfir fegurðinni.

Innblástur er ekta

Alexandra er síteiknandi þó svo hún taki sér pásur inn á milli. „Þetta er vöðvi sem þarf að þjálfa eins og annað og ég þarf að passa upp á að setjast niður. Ef ég er mikið að vinna annars staðar og gef mér lítinn tíma í listina verð ég fljótt ryðguð og eirðarlaus og finn hvernig þörfin byggist upp. Sem unglingur las ég ljóð Bukowskis og einhvers staðar kom þar fram að ef listin flæddi ekki út úr manni þá gæti maður bara allt eins sleppt þessu. Það slökkti smá í mér en núna veit ég að þetta er alls ekki satt. Picasso sagði aftur á móti að innblástur væri ekta, en hann yrði að koma til þín við vinnu, og það er alveg satt. Maður verður að vakna klukkan átta á morgnana, setjast niður og byrja að teikna. Mín bestu verk hef ég gert eftir að hafa gert tíu ömurleg verk.

Ásamt því að teikna og taka að sér verkefni starfar Alexandra í verslun og sem sushikokkur í hlutastarfi með skóla. „Teikningin er aukagrein eins og er hjá mér en ég vonast til þess að vinna við hana sem aðalstarf í framtíðinni,“ segir Alexandra.

Það er eitthvað virkilega óþægilegt við þessar rauðu hendur í sturtunni.
Mynd/Aðsend

Hvað er fallegt?

Alexandra segist mest vera í blautum miðlum eins og í vatnslitum, guache og bleki. „Undanfarið hef ég verið að nota stafræna miðla meira. Þá nota ég Procreate í Ipadinum sem er mjög notendavænt og þægilegt að grípa í á ferðinni. Persónulega finnst mér erfitt að lýsa eigin stíl, en það má kannski segja að hann sé flúraður og með mikið af smáatriðum. Þá legg ég mikið upp úr sterkum litapallettum.

Þó svo teiknistíllinn hafi ekki breyst mikið í eðli sínu á síðustu þremur árum myndi ég segja að hann sé orðinn bæði sterkari og breiðari. Áður var ég bara í vatnslitum og þegar ég var að teikna kött til dæmis, var ég upptekin af því að gera hann eins líkan eftirmyndinni og mögulegt væri. Í dag finnst mér það ekki spennandi. Ég hef meira gaman af því að leika mér með hugmyndina um fegurð til dæmis og þá sérstaklega í tengslum við listaheiminn og samfélagsmiðla og hvað er talið vera fallegt. Þá geri ég sjálfsmyndir þar sem ég toga í munninn, afskræmi mig og geri mig ljóta. Einn af mínum uppáhaldsmyndlistarmönnum er Jenny Saville, en hún hefur gert risavaxin málverk af frekar þungu fólki klessa sér upp við gler, sem mér finnst geggjaðar. Mér finnst gaman að leika mér með það sem er súperkvenlegt en að hafa eitthvað óþægilegt með í myndinni. Ég hef alltaf gert þetta en núna hef ég tekið þetta skrefinu lengra.“

Fegurð, samfélagsmiðlar og sjónarhorn karlsins má allt finna hér í einni mynd. Hér er stúlkan með perlueyrnalokkinn stödd í húsasundi að gera sig tilbúna fyrir tik tok.
Mynd/Aðsend

Vill fá fólk til að hugsa

„Mér finnst mjög gaman að vinna í eigin efni en uppáhaldsverkefnin mín eru að gera það sem kallast editorial illustration, sem er að fá verk til þess að teikna upp eða upplýsa. Eins og teikningarnar í The New Yorker eða The Economist. Ég fylgi mikið listamönnunum sem teikna í þau blöð á samfélagsmiðlum og finnst mjög gaman að gera teikningar fyrir blaðagreinar, en ég hef meðal annars gert myndir fyrir veftímaritið Flóru.

Þegar ég var í menntaskóla fylgdist ég mikið með myndlist á vefsíðum þar sem fólk fékk athygli fyrir að teikna og mála myndir af fallegum stelpum, en svo fékk ég bara leiða á því. Myndlistarmenn hafa einstakt tækifæri til að endurspegla samfélagið sem við búum í og tækifæri til þess að segja eitthvað um það. Ég er ekki að segja að myndlist þurfi alltaf að vera ógeðslega djúp en mér finnst mikilvægt að fólk hugsi um hvaða áhrif það vill hafa á áhorfandann eða samfélagið. Þess vegna er ég til dæmis að teikna fyrir Flóru veftímarit því ég hef meiri áhuga á að gera list sem fær fólk til að hugsa.“

Alexandra er hrifin af menningar- og þjóðsagnaarfi Íslendinga og hefur gaman af því að vinna upp úr honum. „Ég var mjög hrifin af vampýrum og öllu sem er yfirnáttúrulegt sem krakki og elskaði að skoða efni um rússnesku nornina Baba Yaga. Ég hef enn þá gaman af því og líka að lesa mér til um drauga og nornir og norræna arfinn, og tengja það inn á feminískar hugmyndir. Eins og í vatnslitamyndinni minni úr Þrymskviðu þar sem goðin klæða Þór upp sem Freyju. Þór finnst þetta fáránleg hugmynd, en það sem er enn asnalegra við þetta allt er hvað hann gerir mikið mál úr þessu. Ég vildi gera hann eins fallegan og kvenlegan og hægt væri því annars myndi Þrymur aldrei kaupa Þór sem konu. Þarna vildi ég blikka til dragdrottninganna því það er bara alls ekkert asnalegt að Þór sé í kjól.“

Alexandra hefur teiknað fyrir veftímaritið Flóru og þessi teikning birtist með vefgrein Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, Skúra, skrúbba og strita.
Mynd/Aðsend

Hjólaskautadrottning

Alexandra er einnig áberandi í Rollerderby-menningunni hér á landi og tekur meðal annars að sér að þjálfa. Rollerderby er jaðarsport á hjólaskautum sem var upprunalega fyrir konur. „Núna er þetta sport fyrir alla en konur og kynsegin fólk eru potturinn og pannan í þessu. Markmiðið er að búa til pláss fyrir þau í íþróttum og höfum við tekið þátt í Pride og fleiru. Við tókum okkur frí frá æfingum í faraldrinum enda telst þetta til snertiíþróttar, en á meðan fengum við hús frá Reykjavíkurborg og gerðum upp, sem er gamall draumur. Við erum byrjuð að æfa núna aftur og það er allt að gerast. Við verðum mjög líklega með viðburði á Menningarnótt og Pride og svo munum við að venju halda byrjendanámskeið í haust.“ Áhugasömum er bent á að fylgjast með Roller Derby Iceland á Facebook. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með Alexöndru þá heitir hún alexsteinthorsdottir á Instagram og er með vefsíðuna alexsteinthorsdottir.com.

Hér er önnur vatnslitamynd úr Þrymiskviðu.
Mynd/Aðsend
Hér myndskreytir Alexandra draugasöguna um Djáknann á Myrká á viðeigandi drungalegan máta.