Norðurírski leikarinn Liam Neeson sagði í viðtali í gær að hann væri búinn að fá nóg af því að leika í hasarmyndum og ætli að kalla þetta gott á þessu ári en tvær hasarmyndir sem skarta leikaranum eru væntanlegar á árinu.

„Ég held að þetta sé komið gott, ég er 68 og hálfs árs, 69 ára í júní," sagði Neeson í viðtali við ET.

„Það stendur til að taka upp tvær kvikmyndir á þessu ári ef að Covid leyfir, en eftir það þá held ég að ég sé hættur að leika í hasarmyndum," bætir hann við.

Hann viðurkenndi þó að hann eigi eftir að sakna þess að slást við menn sem eru helmingi yngri en hann sjálfur.

„Ég elska þegar ég fæ að vinna miklu yngri leikara í slagsmálaatriðum. Ég lauk nýverið við tökur á myndinni The Marksman í Ástralíu. Þar lék ég í slagsmálaatriði á móti leikara sem var 25 ára gamall, jafn gamall og elsti sonur minn," sagði Neeson og hló.

Hann er þekktur fyrir að hafa leikið í fjölda hasarmynda síðustu árin og ber þar hæst að nefna Taken myndirnar sem nutu gríðarlegra vinsælda. Neeson fer með hlutverk Bryans í myndunum, fyrrverandi leyniþjónustumanns í Bandaríkjunum, sem þarf að nota alla þekkingu sína og reynslu til að bjarga unglingsdóttur sinni úr klóm misyndismanna í París.

Þá hefur hann meðal annars leikið í Star Wars kvikmyndum, Batman Begins og Wrath of the Titans. Hann fór einnig með hlutverk í sívinsælu jólamyndinni Love Actutually sem mun þó seint flokkast sem hasarmynd.