Heimildarmyndin Lesblinda er hugmynd Sylvíu Erlu Melsted og í henni hittir hún meðal annars sérfræðinga sem fara yfir hvernig hægt er að koma auga á, greina og meðhöndla lesblindu.

Þá spjallar hún við fólk úr ýmsum áttum; tannlækni, ljósmyndara, arkitekt og fjöllistamann, sem hvert um sig hafa fundið sína leið til að yfirstíga lesblindu og ná markmiðum sínum.

„Sylvía kom með hugmyndina að heimildarmyndinni til Sagafilm fyrir að ég held sjö árum síðan,“ segir leikstjórinn Álfheiður Marta Kjartansdóttir, sem tók við verkefninu fyrir rúmu ári síðan og kláraði myndina.

„Heimildarmyndir eiga það til að vera lengi í ofninum þar sem þær eru svolítið eins og lifandi verur og það þurfa margir að leggja hendur á plóg,“ segir Álfheiður og bætir við að í upphafi hafi leikstjórinn Saga Sig komið að verkefninu með Sylvíu.

Fóru sínar eigin leiðir

„Þær tóku fyrstu viðtöl og gerðu kynningarstiklu til þess að fjármagna myndina og síðar kom Guðjón Ragnarsson að gerð hennar og tók fleiri viðtöl og myndefni.“

Álfheiður Marta segir alla viðmælendurna í myndinni eiga það sameiginlegt að hafa búið sér til ákveðnar aðferðir eða kerfi til þess að læra og hafi þannig fundið sínar ólíku sérleiðir í gegnum skólakerfið.

„Flestar snerust aðferðirnar um að gera námið myndrænt á einhvern hátt svo þau gætu séð hlutina fyrir sér og lagt þá þannig á minnið. Aðrir voru svo heppnir að finna köllun sína, ljósmyndun eða leiklist, til dæmis, og ræktuðu það og héldu því til streitu.“

Sköpunarkrafturinn

Álfheiður vinnur við leikstjórn og dagskrárgerð hjá Sagafilm þar sem Tinna Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri fékk hana til þess að ljúka við myndina. „Við Hermann Hermannsson settumst yfir allt efnið sem hafði safnast yfir árin og reyndum að átta okkur á því hvernig við vildum segja söguna og tókum í kjölfarið upp fleiri viðtöl við sérfræðinga og meira af fallegu myndefni með Sylvíu.“

Álfheiður Marta, Sylvía Erla og Tinna Jóhannsdóttir komu allar að gerð heimildarmyndarinnar Lesblinda.

Álfheiður Marta segir að úr þessu öllu hafi orðið til 35 mínútna löng mynd sem snertir á sögu Sylvíu og annarra með lesblindu. Sögur af áskorunum, aðferðum og litlum og stórum sigrum í bland við fræðilegar upplýsingar.

„Sylvía Erla er holdgervingur þess hversu kraftmiklir og skapandi lesblindir einstaklingar geta verið og er ein mesta jarðýta sem ég hef kynnst. Hún hélt okkur á tánum allan tímann og hætti aldrei að koma með nýjar og skapandi hugmyndir í ferlinu,“ segir Álfheiður Marta.

Margt óljóst

„Það kom mér mikið á óvart hversu fjölbreytt einkenni lesblindu geta verið og ólík á milli fólks. Við Hermann héldum til að byrja með að allar staðreyndirnar væru borðliggjandi og við þyrftum bara að finna sérfræðinga til að staðfesta þær í mynd. En það er í raun mikið óvitað um lesblindu og enn er verið að rannsaka orsakir og einkenni hennar.

„Sylvía Erla er holdgervingur þess hversu kraftmiklir og skapandi lesblindir einstaklingar geta verið og er ein mesta jarðýta sem ég hef kynnst,“ segir Álfheiður Marta, leikstjóri Lesblindu.
Mynd/Sagafilm

Þetta hefur því verið alveg gríðarlega áhugavert og fræðandi verkefni að vinna að. Maður er alltaf mjög þakklátur fyrir að fá að vinna að verkefnum sem skipta máli og þar sem maður lærir eitthvað nýtt.“

„Ég myndi segja að myndin hverfist mikið til um það hvað við sem samfélag getum gert betur til þess að mæta þeim sem geta ekki farið þessa hefðbundnu leið og hvernig við getum forðast að steypa alla í sama mótið og fagna fjölbreytni og ólíkum hæfileikum einstaklinga. Það er gríðarlega mikill styrkur sem felst í því að fara sínar eigin leiðir og mikil verðmæti í því að kunna að hugsa út fyrir boxið,“ segir leikstjóri Lesblindu, sem er á dagskrá RÚV klukkan 20 í kvöld.