Kvikmyndin Leynilögga, sem leikstýrt er af fótboltakappanum Hannesi Þór Halldórssyni, hefur enn ekki verið sýnd í íslenskum bíóhúsum en ef eitthvað er að marka nýbirta stiklu úr myndinni er hún þegar byrjuð að vekja lukku erlendis. Í stiklunni, sem klippt var saman af leikstjóra myndarinnar, rignir lofi kvikmyndagagnrýnenda yfir Leynilöggu (eða Cop Secret eins og hún heitir á ensku).

Leynilögga var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Locarno í ágúst og einn gagnrýnandinn, Marta Balaga hjá kvikmyndavefnum Cineuropa, lét þau orð falla að myndin „láti Reykjavík líta út eins og rétta staðinn fyrir Vin Diesel til að keyra á annan skýjakljúf.“ Annar gagnrýnandi, Neil Young hjá On: Yorkshire Magazine, sagði myndina minna á löggugrínmyndina Hot Fuzz eftir Edgar Wright og tók fram að hún kynni að verða fastur liður á hinsegin kvikmyndahátíðum.

Kvikmyndin kemur í íslensk bíó á miðvikudaginn en hér má sjá stikluna: