Bæði dómnefnd og almenningur völdu matarvagn Silla kokks. Dómnefndina skipuðu veitingamennirnir Ólafur Örn, Eyþór Mar, Fanney Dóra og Dóri DNA, ásamt fjölmiðlafólkinu Berglindi Festival og Binna Löve. Götubitahátíðin er einn stærsti matarviðburður á Íslandi en gestir streymdu í Hljómskálagarðinn og gæddu sér á kræsingum frá yfir tuttugu matarvögnum. Silli kokkur mun keppa fyrir hönd Íslands á stærstu götubitahátíð heims, European Street Food Awards, sem haldin verður í München í Þýskalandi í október.

Gull fyrir gæsalifrarkæfuna

Sigvaldi Jóhannesson, eða Silli, er lærður matreiðslumaður. Hann hefur komið víða við, rekið mötuneyti, framleitt villibráð og meðlæti, rekið veislusali, opnað veitingastað og margt fleira.

Götubiti ársins – Sælkera villibráðarborgarinn, gæsaborgarinn sem gerður er frá grunni.

Samfellt er Silli búinn að reka veisluþjónustu í um 20 ár. Hann er kvæntur Elsu Blöndal Sigfúsdóttur og eiga þau tvö börn. „Börnin okkar eru Grétar Jóhannes, sem er fæddur 2006 og Petrós María, fædd 2008, en þau eru í þessu með okkur ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum og vinum,“ segir Silli. Veiðimennskan er ástríða hjá Silla og kemur sér vel fyrir matreiðslumanninn. „Ég er mikill veiðimaður og fjölskyldan er einnig öll í því sporti með okkur hjónunum. Ég hef mikinn metnað fyrir því að nota bráðina alla og gera eitthvað úr henni, eins og til að mynda gæsalifrarkæfuna sem hefur meðal annars unnið gullverðlaun á matarhandverkshátíðinni á Hvanneyri, Askinum.“

Tekið á móti verðlaunum, Binni Love og Berglind Festival sáum um að afhenta Silla kokk og eiginkonu hans Elsu verðlaunin.

Tilurð matarvagnsins

Matarvagn Silla hefur notið mikilla vinsælda. „Við keyptum fyrsta matarvagninn árið 2020 þegar Covid herjaði á okkur en þá var fátt um veislur svo það var bara spurning um að fara að gera eitthvað sniðugt. Ég hef framleitt hamborgara úr gæsa- og hreindýrakjöti fyrir jólin og við ákváðum fyrst að henda í grillpakka og selja út úr vinnslueldhúsinu okkar en það vatt fljótt upp á sig. Mig langaði til að fólk fengi borgarana eldaða og samsetta eins en það var upphafið að því að elda borgarana og selja beint út úr eldhúsinu í take-away. Það var ansi fljótt farið að spyrjast út og þess vegna ákváðum við að kaupa vagninn. Þá hófst ævintýrið. Fyrsta árið fórum við töluvert út á land og tókum síðan þátt í Besta götubita Íslands og unnum 2020, 2021 og núna þriðja árið í röð 2022.“

Silli segir að stemningin í kringum matarvagninn sé ávallt góð og fátt sé skemmtilegra en að ferðast um landið. „Það er svakalega skemmtilegt bæði að ferðast og að hitta fólk sem er jafnvel að smakka borgarana í fyrsta skiptið. Okkur er vel tekið alls staðar og þótt þetta sé brjáluð vinna þá er hún gefandi og skemmtileg.“

Aðspurður segir Silli aðal leyndarmálið bak við götubita ársins að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera og prófa nýja hluti, ekki festast í einhverju heldur ávallt að reyna betur og setja saman nýtt. „Vinna allt frá grunni sjálfur er mikilvægast og ég var það heppinn að fá Deig bakarí, sem er að mínu mati eitt besta bakarí landsins, með mér í lið. Þeir bjuggu þessi brauð til fyrir okkur og þegar ég prófaði það með hráefninu frá mér vissi ég að það yrði ekki aftur snúið.“

Silli sviptir hulunni af innihaldi götubitans með ánægju fyrir lesendur Fréttablaðsins. „Gæsaborgarinn er í brauðinu frá Deig, ég framleiði hamborgarana sjálfur, sem eru 120 gramma buff, og í því er rifinn ostur, eina kryddið er flögusalt frá Saltverki, klettasalat og sultaður rauðlaukur með trönuberjum og reykt gráðostasósa en við kaldreykjum gráðostinn sem við notum í sósuna. Uppskriftin að þessu öllu verður í matreiðslubókinni minni sem kemur út í september,“ segir Silli brosandi.

Sköpunargleði og ástríða

Helstu áherslurnar hjá Silla eru á villibráð. „Villibráð, þó að við tökum að okkur allar tegundir af veislum þá finnst mér skemmtilegast að útbúa eðalmat úr íslenskri villibráð.“ Þegar Silli er spurður út í innblásturinn í matargerðinni er því fljótsvarað. „Ég er svo einstaklega heppinn að ég næ að sameina tvo hluti sem mér finnst skemmtilegast að gera og það er veiði og eldamennska. Þar sem sköpunargleði og ástríðan tekur völd, kann ég illa að fara eftir uppskriftum svo yfirleitt er þetta dass og dass. Ég var alinn upp í eldhúsinu hjá föður mínum, Jóa kokki (Grétar Jóhannes Sigvaldason) sem kenndi matreiðslunemum í mörg ár.“

Gaman er að geta þess að matarvagn Silla kokks verður á ferðinni um verslunarmannahelgina. „Frá því að við keyptum vagninn höfum við verið á Akureyri um verslunarmannahelgina og við ætlum ekkert að breyta út af þeirri venju núna. Næst á dagskrá er að halda áfram með vagninn og síðan er stefnan tekin á München 7.- 9. október en þar munum við taka þátt fyrir Íslands hönd í European street food awards keppninni. Þar munu 15 bestu matarvagnar Evrópu keppa um titilinn Besti götubiti Evrópu.“