Lilja Sigurðardóttir hefur fyrir löngu skipað sér á bekk með Arnaldi og Yrsu sem einstaklega góður glæpasagnahöfundur. Hún er þó ólík þeim að því leyti að bækur hennar hafa léttara yfirbragð og sverja sig ekki svo glatt inn í norrænu dimmuna sem á ensku kallast Nordic noir. Bækur hennar ganga frekar út á skemmtilegar fléttur, spennu og áhugaverðar persónur en samfélagslegar krufningar og minna þannig frekar á Agöthu Christie en sænska rithöfundaparið Sjöwahl og Wahlöö sem má telja foreldra fyrrnefndrar dimmu.
Rígheldur allt til enda
Í þessari fjórðu bók um fjármagnsspæjarann og líkamsræktarjaxlinn Áróru og prúða lögreglumanninn Daníel er hvergi slegið af lifandi og léttri frásagnargleði, skemmtilegum fléttum og plottsnúningum. Áróru kynntumst við fyrst í bókinni Helköld sól þegar hún kemur til Íslands eftir margra ára dvöl á Englandi til að leita systur sinnar sem er horfin. Þessi leit er eins konar leiðarstef gegnum bækurnar fjórar og því dregur til tíðinda í þessari bók þegar þriggja ára stúlka segist vera systirin endurfædd og virðist búa yfir upplýsingum sem koma skriði á málið.
Á meðan á Daníel í sálarstríði því leigjandi hans og vinur, hin geðþekka dragdrottning Lafði Gúgúlú, segir allt í einu upp leigunni og hverfur eins og dögg fyrir sólu. Í kjölfarið koma ógnvekjandi aðilar og krefjast upplýsinga um lafðina með dólgslegum hætti. Þessir þræðir flækjast síðan sundur og saman um víðan völl áður en greiðist úr þeim í lokin í spennandi og grípandi sögu sem rígheldur allt til enda.

Daðrar við James Bond
Stundum trompar frásagnargleðin raunveruleikatenginguna eins og þegar maður á flótta undan ógnvænlegum óvinum eygir þann kost vænstan að fara Þrengslin á hestbaki til að komast á Selfoss, tiltölulega óvanur útreiðum og lítt kunnur hestinum, eða hversu auðvelt Áróra á með að tengja sig inn á tölvur hjá jafnvel vernduðustu kerfum, en það er bara svo skemmtilega sagt frá og sagan í svo léttum dúr að það skiptir engu máli, ljær frásögninni í mesta lagi örlítinn James Bond blæ sem er ekki leitt að líkjast. Þá er endurholdgunarhluti sögunnar einnig nokkuð fjarstæðukenndur en líka áhugaverður og fer söguheiminum vel.
Skemmtilegasti snúningurinn í sögunni er kynningin á baksögu dragdrottningarinnar djörfu Lafði Gúgúlú sem sannarlega kemur á óvart á mörgum plönum og daðrar við vísindaskáldskap á tímabili. Hinsegin persónur hafa alltaf leikið stórt hlutverk í bókum Lilju og margfalt líf lafði Gúgúlú sem fram að þessu hefur verið grínaktug aukapersóna í bókaflokknum er mjög skemmtilega útfært.
Eins og áður sagði eru komnar út fjórar bækur um Áróru og leit hennar að systur sinni. Þó mörg kurl komi til grafar í þessari bók er ekki alveg loku fyrir það skotið að ein bók í viðbót leynist í frjóu og leikglöðu hugskoti Lilju Sigurðardóttur, aðdáendum þeirra beggja til ómældrar gleði.
Niðurstaða: Skemmtileg og leikandi glæpasaga sem daðrar bæði við vísindaskáldskap og James Bond.