Wil­helm Beck­mann flúði undan nas­istum árið 1935 vegna stuðnings við þýska jafnaðar­manna­flokkinn og settist að á Ís­landi. Hann lagði fram drjúgan skerf til ís­lenskrar kirkju­listar og verk hans prýða á annan tug kirkna víðs vegar um land. Auk þess vann hann mikinn fjölda vegg­spjalda fyrir Al­þýðu­flokkinn og skar út ýmsa hag­nýta muni.

Spurður um til­drög þess að hann réðst í að gera mynd um Wil­helm segir Arthúr Björg­vin: „Stofnun Wil­helms Beck­mann var sett á lag­girnar árið 2013 í Kópa­vogi, að undir­lagi barna hans, Hrefnu og Einars. Hjá stofnuninni var á­hugi á að kynna Wil­helm í heima­landi hans, Þýska­landi, og því var haft sam­band við mig. Ég ræddi málið við fé­laga minn Mick Locher, sem hefur gert nokkrar myndir um Ís­land fyrir þýska sjón­varpið. Hann stakk upp á því að við gerðum heimildar­mynd um Beck­mann. Máls­varar Beck­mann­stofnunarinnar tóku þeirri hug­mynd fagnandi og hafa stutt fram­kvæmdina með ráðum og dáð.

Myndin verður tekin upp í Þýska­landi, Dan­mörku og á Ís­landi. Við Mick sömdum hand­ritið saman. Við gerum í raun tvær myndir með dá­lítið ó­líkum á­herslum, lengri gerð fyrir RÚV og styttri mynd fyrir þýska sjón­varpið.“

Þessi altaris­tafla Wil­helms Beck­mann átti að vera í Kópa­vogs­kirkju en arki­tekinn taldi hana ekki henta og hún prýðir nú safnaðar­heimilið.
Fréttablaðið/Ernir

Merk arf­leifð

Lífs­hlaup Beck­manns er á­huga­vert. „Hann er fæddur 1909 og deyr 1965. Sem ungur maður flýr hann undan nas­istum. Honum var ekki lengur vært í Þýska­landi, því hann var virkur í jafnaðar­manna­flokknum (SPD), sem nas­istar bönnuðu. Beck­mann flúði fyrst til ættingja sinna í Dan­mörku, en hélt ári síðar alls­laus til Ís­lands, þekkti ekki nokkra sálu og svaf fyrstu nóttina undir styttu Ingólfs á Arnar­hóli. Hann var með skil­ríki frá þýska jafnaðar­manna­flokknum og gekk daginn eftir á fund Stefáns Jóhanns Stefáns­sonar, eins helsta leið­toga ís­lenskra jafnaðar­manna á þessum árum, sem tók hann upp á sína arma og að­stoðaði hann við að koma undir sig fótunum hér á landi,“ segir Arthúr Björg­vin.

Wil­helm kvæntist bónda­dóttur frá Breiðu­vík á Snæ­fells­nesi. Hann hafði lært tré­skurð í Þýska­landi og þegar getið sér gott orð þar fyrir list­rænt hand­bragð. Í Reykja­vík vann hann um tíma við leik­fanga­smíði og fékk síðan starf hjá Ríkarði Jóns­syni mynd­höggvara. Arthúr Björg­vin segir trú­legt að Ríkarður hafi látið Wil­helm leggja loka­hönd á ein­hver verka sinna. Wil­helm vann í all­mörg ár hjá Ríkarði og síðan í nokkur ár við hús­gagna­hönnun hjá Guð­mundi blinda í tré­smiðjunni Víði. Merkasta arf­leifð Wil­helms er þó kirkju­verkin hans, en í dag eru verk eftir hann í ellefu ís­lenskum kirkjum. Hann vann einnig mikinn fjölda vegg­spjalda fyrir Al­þýðu­flokkinn, sem bera list­fengi hans fagurt vitni.

Hann var sér­stæð blanda af rót­tækum jafnaðar­manni og ein­lægum á­huga­manni um kristna trú.

„Wil­helm Beck­mann er eitt af best geymdu leyndar­málum ís­lenskrar kirkju­listar­sögu. Hann var sér­stæð blanda af rót­tækum jafnaðar­manni og ein­lægum á­huga­manni um kristna trú,“ segir Arthúr Björg­vin.

Fögur birtingar­mynd Mick Locher er spurður hvað honum þyki á­huga­verðast við Wil­helm. „Mér finnst á­hrifa­mikið hversu fagra birtingar­mynd kristnin og trúin fá í verkum hans. Varðandi hans per­sónu þá vekur á­huga minn hvað hann var dug­legur við að koma sér á­fram. Hann var flótta­maður með tvær hendur tómar en spjaraði sig vel á Ís­landi og lærði tungu­málið sem er ekki auð­velt. For­eldrar hans vildu að hann sneri aftur til Þýska­lands en hann vildi það ekki. Ég skil hann vel, náttúran hér er stór­brotin,“ segir Mick og bætir við: „Wil­helm er alveg ó­þekktur í Þýska­landi og þess vegna er mjög á­nægju­legt fyrir mig að fá að kynna hann þar.“

Í myndinni sem Arthúr Björg­vin og Mick vinna að, koma ýmsir við­mælendur við sögu. „Sem dæmi má nefna, að Aðal­steinn Ingólfs­son fjallar um list­rænar rætur Wil­helms og doktor Gunnar Kristjáns­son bregður ljósi á þann trúar­skilning sem birtist í verkum hans. Þá mun Goddur leiða okkur í allan sann­leik um vegg­spjöld meistarans, auk þess sem við kynnumst dramatískri ör­laga­sögu þessa fjöl­hæfa þýsk­ís­lenska lista­manns,“ segir Arthúr Björg­vin.

Til stendur að ljúka við myndina í mars-apríl á næsta ári.

Fréttablaðið/Ernir