Margir eru á faraldsfæti þessa dagana og virðist borg ástarinnar, París, njóta mikilla vinsælda hjá Íslendingum. París er einstaklega falleg borg og það má með sanni segja að þar blómstri matarástin. Frönsk matargerð er ein sú besta í heimi, enda er Frakkland dýrðleg matarkista. Mikið úrval góðra veitingastaða er að finna í París og svo eru það földu gullmolarnir, staðir sem eiga sér leyndarmál, rétti sem hafa verið eins í áranna rás sem njóta alltaf sömu hylli.

Þegar ég er spurð, hvert ég myndi fara í hádegisverð í París, þá svara ég hiklaust á Relais de l’Entrecote. Margir spyrja af hverju, en því er auðsvarað, það er vegna þeirrar einstöku matarupplifunar sem fæst við að borða á staðnum. Fyrir hvern þann sem er að heimsækja Parísarborg þá er þetta jafn ómissandi viðkomustaður eins og að skoða Notre Dame-dómkirkjuna, Eiffel-turninn eða Louvre-safnið. Það er auðvitað líka hægt að njóta þess að fara að kvöldi til.

Hin klassíska franska steik með grænni sósu og frönskum gleður marga.

Þegar á staðinn er komið, ekki láta þá biðröðina trufla þig; hún er algjörlega þess virði. Láttu æðruleysið ráða för og bíddu eftir að ein af þaulreyndu og glaðlyndu þjónustustúlkunum, sem eru snarar í snúningum, vísi þér til borðs en þær eru allar klæddar í huggulegan einkennisfatnað eins og franskar þjónustustúlkur voru klæddar hér á árum áður.

Þrír staðir í París

Enginn matseðill er á Relais de l’Entrecote og fyrir vikið gengur biðröðin hraðar en þú heldur. Það eina sem þú þarft að gera er að tilgreina hvernig þú vilt að steikin þín sé elduð þegar þjónustudaman kemur til að taka pöntunina. Sjálfri finnst mér steikin best „medium rare“ en nautakjötið er svo meyrt að það bráðnar eiginlega þegar upp í munninn er komið.

Staðirnir eru þrír í París og staðurinn þar sem flóra viðskiptavinanna þykir einstaklega litrík er í Rue Marboeuf, 8. hverfi borgarinnar. Áttunda hverfi þykir með glæsilegri hverfum Parísar og hefur að geyma hinn fræga Sigurboga. Má þar finna allt frá vel efnuðum stúlkum frá Mið-Austurlöndum sem biðja bílstjórana um að bíða meðan borðað er, til franskra millistéttarmanna sem hafa komið hingað frá því þeir muna fyrst eftir sér.

Þjónustustúlkurnar eru þaulreyndar og glaðlyndar og kvikar í snúningum.

Aðeins einn aðalréttur er í boði, steik, franskar kartöflur og dökkgræn sósa. Á stöðunum er ekki hægt að panta borð og þeir eru þéttsetnir eða fullir öll hádegi og kvöld, en það virðist ekki hafa áhrif á vinsældir staðanna þó að viðskiptavinir þurfi að bíða drykklanga stund. Vinsældir staðanna eru óborganlegar og skýrast fyrst og fremst af kvikri þjónustu af bestu gerð og því að bragðgóð og safarík steikin endurspeglar fyrsta flokks franska matarmenningu. Óhætt er að segja að steikin sé matur og munúð, enda bráðnar steikin í munni og þunnu heimatilbúnu og tvísteiktu girnilegu frönsku kartöflurnar ásamt einni af leyndardómsfyllstu sósum á þessari plánetu er eitthvað sem þú vilt ekki missa af.

Leyndardómsfulla sósan

Þessi einfaldi og lystugi réttur hefur verið framreiddur óbreyttur í 59 ár og er þekktur um allt Frakkland og um víða veröld en margir kalla veitingastaðinn öðrum nöfnum en hann heitir, eins og til dæmis „Grænu sósuna“. Uppskriftin að dökkgrænu og leyndardómsfullu sósunni, sem er ómótstæðilega ljúffeng, er eitt best varðveitta leyndarmál Parísarborgar en hún hefur aldrei verið gefin upp og er ráðgáta. Margir hafa reynt að leika hana eftir og velt vöngum yfir innihaldinu og hlutföllum.

Á stöðunum er ekki hægt að panta borð og þeir eru alltaf þéttsetnir.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur verið einkaleyfi á henni í nokkur ár og virðist hún hafa valdið miklum fjölskyldudeilum í fortíðinni. Þannig eru það tvær systur sem halda úti hvor sínum „l'Entrecote“-staðnum í París með nákvæmlega sömu sósuuppskriftinni en þær hafa ekki talast við í áratugi. Ekki er vitað hvort sósan er valdur ósættisins en þar sem hér er ekki verið að ræða um neina miðlungssósu er vissulega hægt að ímynda sér að hún eigi þátt í stórkostlegri fjölskylduharmsögu sem nær aftur í aldir.

Það er þó ekki bara sósan, meyrt nautakjötið og frönsku kartöflurnar sem margir elska, heldur líka gómsætir og spennandi eftirréttir sem þú þarft að hafa pláss fyrir og eru sannarlega ekki af verri endanum.