Bjórböðin eru staðsett á afar fallegum stað þar sem útsýnið er einstakt og sjá má Hrísey, Kaldbak, Þorvaldsdal og Múlann. Stundum má sjá glitta í hvali í Eyjafirðinum og fjallasýnin er öll hin fegursta.

Leyndardómur Bjórbaðanna er einstaklega góð spa-meðferð fyrir líkama og sál. Þeir sem hafa notið bjórheilsulindarinnar segjast koma endurnærðir eftir heimsóknina og húðin verði silkimjúk. Það er þessi dásamlega blanda sem er í bjórböðunum sem nærir húðina og gefur henni fallega áferð.

Í bjórbaði baðar fólk sig í ungum bjór, lifandi bjórgeri, humlum, vatni, bjór, olíu og bjórsalti. Bjórinn er ungur í gerjun og er á þeim stað í ferlinu að hann hefur lágt pH-gildi og hefur þar af leiðandi stinnandi og mýkjandi áhrif á húð og hár. Bjórgerið sem notað er í böðin er einstaklega ríkt af nánast öllum B-vítamín skalanum, sem er endurnærandi fyrir húð og hár. Sömuleiðis er gerið ríkt af próteini, kalíum, járni, sinki og magnesíum. Það má því segja að þetta sé sannkölluð heilsulind.

Boðið er upp á heita potta utanhúss í fallegu umhverfi og sauna. Einnig er veitingastaður og hægt er að fara í bjórsmakk hjá Kalda. MYND/AÐSEND

Endurnærandi bjórbað

Humlarnir sem eru notaðir í böðin hafa góð áhrif á líkamann þar sem þeir eru ríkir af andoxunarefnum og alfa-sýrum. Olíurnar og örefnin úr plöntunni hafa bólgueyðandi áhrif og eru einnig notuð til að minnka roða í húð og hafa góð áhrif á æðakerfið. Það er sannað að humlar hafa slakandi áhrif á vöðva og líkama. Til að fá sem mest út úr böðunum er mælt með því að fara ekki í sturtu í þrjár til fimm klukkustundir eftir baðið til að árangurinn sé sem bestur. Þessi meðferð er hreinsandi fyrir húðina og hefur jákvæð áhrif á heilsuna.

Fyrir þá sem það ekki vita virkar bjórbað þannig að fólk liggur í 25 mínútur í baði sem er fyllt af bjór, vatni, humlum og geri. Eftir það er farið slökun í 25 mínútur. Á staðnum eru sjö ker í sérklefum og í boði er að pör geti farið saman í baðið. Hitastig baðkaranna er u.þ.b. 37 til 39°C og fyllt upp með nýrri blöndu fyrir hvern kúnna. Ekkert aldurstakmark er í bjórbað þar sem bjórvatnið er ódrykkjarhæft en bjórdæla er við hvert bað fyrir þá sem vilja fá sér bjór og hafa aldur til.

Það er fjölmargt annað í boði í Bjórböðunum og má þar nefna heita potta utandyra þar sem hægt er að njóta útsýnisins eða að fara í sánu. Heitu pottarnir eru tveir en þeir innihalda aðeins vatn. Þeir eru handsmíðaðir úr sedrusviði og koma frá Kanada. Margir velja að fara í pottana áður en farið er í böðin sjálf og má með sanni segja að þetta sé sannkölluð náttúruupplifun. Á staðnum er líka veitingastaður þar sem hægt er að fara í bjórsmakk og prófa allar tegundirnar frá bruggverksmiðju Kalda og njóta góðra kræsinga. Hér eru leyndardómar bjórsins krufnir til mergjar og það besta úr bjórnum nýtt til að endurnæra líkama og sál.