Krummi gefur út nýtt lag í dag af væntanlegri sólóplötu sinni, Stories to Tell, sem kemur út í haust.

„Þetta er svona 60s-70s kántrí „psychedelia“ en sækir mikið í rætur „outlaw“ kántrí, sem kom frá hópi af kántrítónlistarmönnum sem gáfu Nashville puttann og fóru til Texas og bjuggu til sína eigin senu. Þetta voru menn eins og Willie Nelson, Waylon Jennings, George Jones, Guy Clark, Blaze Foley, Johnny Paycheck og Johnny Cash. Ég hef hlustað á þessa gæja nærri því allt mitt líf og þetta er svona músíkin sem ég hef alltaf sótt reglulega í,“ segir Krummi við Fréttablaðið um komandi plötu sem kemur út hjá Öldu Music í haust.

Gamall draumur að rætast

Krummi hefur hingað til ekki gefið út sólóefni líkt og Stories To Tell, þó það hafi lengi verið draumur.
„Ég ætlaði að gefa út sólóplötu fyrir þó nokkuð mörgum árum, en mér fannst ég bara ekki vera tilbúinn. Mér fannst lögin ekki nógu góð og ég ákvað að ná mér í meiri reynslu. Nú er bara að koma að þessu,“ segir Krummi.

Krummi steig fyrst fram á sjónarsviðið með hljómsveitinni Mínus. Hann gaf út kántrí-plötu árið 2008 með tónlistarmanninum Daníel Ágúst Haraldssyni undir nafninu Esja og síðar tvær plötur með hljósmveitinni LEGEND. Einnig hefur Krummi gefið út tónlist ásamt kærustu sinni Linneu Hellström og Frosta Gringo undir nafninu Döpur og sungið með kántrí hljómsveitinni Moody Company. Hann snýr sér núna alfarið að sínu sólóefni og er ljóst af laginu Stories to Tell að það lofar góðu.

Syngur um að trúa á eigin getu

“Lagið fjallar um að trúa á eigin getu og skoða vandlega það viðhorf sem maður hefur til sjálfs sín og þess sem maður gerir og hvernig það hefur áhrif líðan og hegðun. Opna sig fyrir öllu þessu góða í lífinu og upplifa innri ró . Leyfa frjálsu flæði lífsins vera við stjórnvölinn og skrifa sínar eigin lífsins sögur. Þiggja og hafna án eftirsjár. Vatn er líf og lífið er lyf. Hvort það sé gott eða slæmt lyf er undir okkur komið.“

Hlusta má á lagið á streymisveitunni Spotify.