Breski ökuþórinn Lewis Hamilton olli fylgjendum sínum talsverðum áhyggjum eftir að hann deildi torræðum skilaboðum á samfélagmiðlum sínum þar sem hann segist við það að „gefast upp" á heiminum.

Ekki er ljóst hvað Hamilton, sem er mjög nálægt því að hampa sínum sjötta heimsmeistaratitli í Formúlu 1, á við með skilaboðunum. Hann hefur þó undanfarið lýst áhyggjum sínum af því að mannfólkið sé að skemma plánetuna. Hamilton gerðist grænkeri á dögunum í viðleitni sinni til að snúa þróuninni við.

„Mig langar að gefast upp á öllu saman," segir í færslunni.

„Af hverju ætti maður að nenna nokkru þegar heimurinn er í svona ástandi og fólki virðist vera alveg sama."

Hann lýkur færslunni á því að þakka þeim sem „stendur ekki á sama um heiminn.“

Færsla Hamiltons birtist í „story" á samfélagsmiðlinum Instagram.