Verðlaunadúfan Armando hefur selst á metfé, eða 1,25 milljónir evra sem nema 166 milljónum íslenskra króna en dúfan hefur reglulega fengið heitið „Lewis Hamilton dúfan,“ eftir breska formúlukappanum en þetta kemur fram á vef BBC.

Á vef miðilsins kemur fram að uppboðshúsið Pipa sem sá um sölu Armando segir að dúfan sé „besta belgíska dúfa allra tíma í langflugi“ en Armando seldist innan sólarhrings eftir að dúfan var sett á sölu. 

Armando verður fimm ára á þessu ári og nýtur nú eftirlaunaáranna og hefur nú þegar eignast nokkra unga. „Þetta var algjörlega óraunverulegt,“ segir Nikolaas Gyselbrecht, forstjóri Pipa, sem stendur fyrir „Dúfuparadís“ (e. Pigeon Paradise). „Við vonuðumst eftir hálfri milljón en í okkar villtustu draumum bjuggumst við ekki við svo hárri upphæð.“

Samkvæmt Gyselbrecht voru það tveir kaupendur frá Kína sem að enduðu í einskonar tilboðsstríði sem hófst með tilboði upp á hálfa milljón efra en endaði í umræddri upphæð á einungis klukkustund. Gyselbrecht segir að flestar keppnisdúfur seljist á í kringum 2500 pund en það er ljóst að Armando er engin venjuleg dúfa og sigraði meðal annars sínar síðustu þrjár keppnir á ferlinum.