Breska leikkonan Emilia Clarke, sem þekkt fyrir að túlka hlutverk Daenerys Targaryen, segir að leikstjórar Game of Thrones hafi reynt að beita ýmsum brögðum til að reyna að fá hana til að koma fram nakin í þáttunum.

Emilia ræddi opinskátt í nýju viðtali í hlaðvarpsþættinum Armchair Expert með Dax Shepard. Þar greindi hún frá því að leikstjórarnir hafi reynt að láta hana fá samviskubit fyrir að vilja hylja sig í senum.

„Ég hef lent í rifrildum þar sem ég hef sagt: Nei, lakið fer ekki niður, og þeir hafa svarað mér: „Þú vilt ekki að Krúnuleika-aðdáendur þínir verði fyrir vonbrigðum.“ og ég bara, farðu til andskotans!“ sagði Emilia í spjalli við Dax.

Emilia hefur áður tjáð sig um tökurnar á fyrstu seríunni og sagt að það hafi verið yfirþyrmandi mikið af nektarsenum. Hún var þá nýútskrifuð úr leiklistarskóla og var gríðarlega stressuð. Hún hafi oft þurft að reiða sig á áfengi til að komast í gegnum tökurnar.

Emilia Clarke ásamt Peter Dinklage.
Fréttablaðið/Getty images