Sjöfn Þórðar heim­sækir Hákon Hildi­brand frum­kvöðull og menningar­frömuð og eigin­mann hans Haf­steinn Haf­steins­son lista­mann og rit­höfund í Sig­fúsar­hús, sem þeir kalla Homma­höllina í þættinum Matur og Heimili á Hring­braut. Horfa má á þáttinn í heild sinni neðst í fréttinni.

Sögu­fræga stór­hýsið í Nes­kaup­stað, Sig­fúsar­hús, sem er næst elsta húsið í Norð­firði hefur fengið nýtt hlut­verk og búið er að gera það upp með stór­glæsi­legri út­komu. Hákon Hildi­brand frum­kvöðull, menningar­frömuður og drag­drottning og eigin­maðurinn hans Haf­steinn Haf­steins­son lista­maður og rit­höfundur áttu sér lengi þann draum að stofna hin­segin lista­manna­að­setur og sam­eina þar með sín störf og á­huga­svið á­samt því að skapa sér heils­árs at­vinnu í Nes­kaup­stað. Draumurinn hafði blundað í þeim lengi og varð að loks að veru­leika þegar að Sig­fúsar­hús losnaði. Sjöfn Þórðar heim­sækir þá Hákon og Haf­stein heim og fær inn­sýn í þeirra glæsi­lega hí­býli og Hákon sviptir hulunni af leyndar­dómum her­bergjana sem öll eiga sér á­kveðin karakter.

Byggt 1895

Í dag eiga og reka þeir Hákon og Haf­steinn þessa rúm­lega 400 fer­metra höll, Sig­fúsar­húsið sem þeir kalla Homma­höllina. Þar segist Hákon ráða ríkjum á­samt eigin­manninum. „Við keypt­um drauma­húsið síðasta haust, en Sig­fús­ar­hús var byggt árið 1895 og þurfti al­­gjöra end­ur­nýj­un til fyrri glæsi­­leika. Við höf­um með hjálp vina og fjöl­­skyldu notað síðast­liðinn vet­ur­ til að taka húsið í gegn og fært það nær upp­h­af­­legu horfi,“ seg­ir Há­­kon og er virki­lega á­nægður með út­komuna. Húsið er heimili þeirra hjóna en einnig er þar að­setur fyrir lista­menn. Þangað sækja hin­segin lista­menn og aðrir sem vinna með kyn eða hin­segin­leikann í sínum verk­efnum, en þurfa ekki að vera hin­segin sjálfir.

Í húsinu er eitt trylltasta eld­hús landsins, stórt og rúm­­gott, heil­ir 18 fer­­metr­ar sem áður skipt­ust niður í eld­hús og búr hafa verið sam­einað í eitt rými. „Okk­ur hef­ur lengi dreymt um drauma­eld­húsið, grand og stórt með miklu vinnu­plássi og karakt­er. Þegar við keypt­um húsið var eld­húsið illa nýtt og lög­un­in á því skrýt­in þar sem gamla búrið var byggt inn í rýmið. Ég elska göm­ul búr og hélt að ég myndi aldrei geta rifið slíkt út en í þessu til­­­felli var það ekki spurn­ing,“ seg­ir Há­­kon.

Líf og gleði alla daga í Beitu­skúrnum

Einnig reka þeir veitinga­staðinn og barinn Beitu­skúrinn, sem flokkast undir homma­bar og er þekktur fyrir að þar ríki á­vallt gleði, glaumur og gaman. Mat­seðillinn í Beitu­skúrnum er sí­breyti­legur og matar­menning er meðal annars „street food“ eða götu­bita­matur, frá öllum heims­álfum sem fær að njóta sín í fjöl­breyti­leikanum. Hákon býður Sjöfn einni Beitu­skúrinn þar sem hún fær að njóta þess sem þar er í boði og heyra söguna bak við Beitu­skúrinn sem er á ein­stak­lega fal­legum út­sýnis­stað á Nes­kaups­stað í labb­færi frá Homma­höllinni.

Matur og Heimili er á dagskrá Hringbrautar öll þriðjudagskvöld kl. 19:00 og 21:00.