Helena Margrét Jónsdóttir heldur fyrstu einkasýningu sína í Hverfisgalleríi. Sýningin ber titilinn Draugur upp úr öðrum draug og þar sýnir Helena tíu olíu- og akrýlmálverk á striga. Sýningin stendur til 13. mars.

„Það er hálf súrrealísk tilfinning að halda fyrstu einkasýningu sína í miðjum heimsfaraldri og í janúar,“ segir Helena Margrét. Hún lærði myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík, Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi og útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist úr LHÍ árið 2019. Á síðasta ári tók hún þátt í samsýningunni Allt sem sýnist – Raunveruleiki á striga á Kjarvalsstöðum og í desember sýndi hún ásamt öðrum listamönnum verk á netsýningu í Miami.

Um titil sýningarinnar segir listakonan: „Þegar maður er draugur upp úr öðrum draug þá er maður hálftuskulegur. Í verkunum er ég að vinna með það að vera eins og skugginn af sjálfum sér, ekki alveg á staðnum. Þannig sýna til dæmis mörg verkanna á sýningunni manneskju sem er hálf glær og farin að líkjast draug. Hún reynir að gera vel við sig, fá sér vínglas eða nammi. Draugurinn sem hún líkist er líka að reyna að gera vel við sig og er viðfangsefni sumra verkanna. Vínið rennur í gegnum hann og manneskjan reynir að grípa það. Þannig að það er samspil þeirra á milli.“

Verkið sem má glitta í fyrir aftan Helenu fékk nafnið Gegnblaut.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skapar flæði

Köngulær eru áberandi á myndunum. „Þær eru einhvers konar andstæða við það ástand sem ég var að lýsa. Hlutir festast auðveldlega við vefinn þeirra en það rennur allt í gegnum manneskjuna.“ Tvær myndir af köngulóm eru jafnstórar og í sama lit. Önnur sýnir alvöru könguló, hin er sælgætiskönguló. „Þarna er ég að velta fyrir mér muninum á því girnilega og ógirnilega. Getur hvað sem er orðið girnilegt ef það verður að nammi? Myndirnar heita Frekar gott og Frekar vont. Ég vann þær á sama tíma og á sýningunni mynda þær tengingu sín á milli.“ Fleiri tengingar má finna á sýningunni. Í einu verki má til dæmis sjá skó án reima og könguló en í öðru verki er skóreim föst í köngulóarvef.

Helena Margrét segist hafa viljað hafa léttleika og húmor í myndunum. „Ég vann myndirnar út frá húmor og vildi að það væri ákveðinn aulaskapur í þeim öllum. Ég vildi líka skapa ákveðið f læði og þarna eru myndir af útlimum sem beygjast og sveigjast líkt og lakkrísinn og vínið. Ég lengdi lakkrísinn til að gefa þá tilfinningu að það væri endalaust af honum líkt og víninu, það flæðir sífellt áfram en manneskjan getur ekki fengið sér af því.“

Sýning á Capri

Í júní á þessu ári stendur til að Helena Margrét haldi einkasýningu á Capri. „Sýningin hér í Hverfisgalleríi er beint framhald af pælingum sem ég var að vinna með á Kjarvalsstöðum sem var það að þvælast fyrir sjálfum sér. Á þessari sýningu er manneskjan að renna í gegnum viðfangsefnin. Myndirnar á Capri verða í einhverju framhaldi af þessu. Ætli næsta skref verði ekki að manneskjan leysist upp!“ segir hún