Flestar stelpur fara í hárgreiðslu á fermingardaginn og strákarnir fara yfirleitt í klippingu fyrir ferminguna til að vera sem flottastir á stóra deginum. Sunna Jóhannsdóttir, hárgreiðslukona á hárgreiðslustofunni Skuggafall í Hafnarfirði, segir að tískan í fermingargreiðslum í ár sé náttúruleg og falleg.

„Það er mikið um létta liði, lausar fléttur og hárið hálftekið upp frá andlitinu. Mér finnst flestar sækja í það núna og jafnvel að vera með styttur í hárinu. Svona krúttlegt og seventíslegt,“ segir Sunna.

„Það er mikið búið að vera um spennur og fallegar stórar spangir með demöntum í allan vetur svo ég sé fyrir mér að það verði mikið um það hjá fermingarstelpunum í ár. Jafnvel að það komi inn í staðinn fyrir blóm og þannig skraut.“

Í gegnum árin hefur það nánast alltaf verið þannig að fermingarstelpur vilja vera með sítt hár að sögn Sunnu, henni finnst þó vera minna um það að stelpur í dag séu með hár niður á rass. „Það er meira um millisídd eða hár sem nær rétt niður fyrir herðablöðin,“ segir hún.

„En það er mjög algengt að stelpur komi í fermingargreiðslu og komi svo stuttu seinna og vilji breyta hárinu. Það er mikið sport.“

Sunna segir að tískan hjá fermingarstrákunum sé alltaf svolítið svipuð. „Það er búið að vera svolítið mikið í tísku undanfarið að vera mjög snögghærður. Margir ungir strákar í dag eru að biðja um þessa svokölluðu Flóna klippingu, að hafa toppinn svolítið fram. Þeir eru orðnir opnari fyrir því að leyfa til dæmis náttúrulegum liðum að vera í hárinu en þeir vilja langflestir vera vel snöggir í hliðum.“

Nú þegar eru komnar einhverjar bókanir í fermingargreiðslur og klippingar hjá Sunnu. „Flestar stelpurnar koma fyrst í prufugreiðslu. Það er svolítið skemmtilegt að út af bæði Instagram og Pinterest og þess háttar þá koma þær margar inn með mjög ákveðnar hugmyndir um hvað þær vilja gera. Það er mjög fínt, þegar ég var krakki sem dæmi þá hafði maður ekkert viðmið og þurfti bara að treysta hárgreiðslukonunni. Krakkar í dag eru með svo ákveðnar skoðanir á persónulegum stíl sínum. Þau eru orðin svo sjálfstæð.“

Fléttur og stórar spennur eru vinsælar hjá fermingarstelpum.
Hárið er gjarnan tekið lauslega saman að aftan.
Fermingarstelpurnar vilja margar hafa létta liði í hárinu.
Stórar spangir eru í tísku og fara þær vel við fallega fléttu.