Elísabet Drottningarmóðir elskaði skosku þættina um lögreglumanninn Taggart. Þetta er meðal þess sem fram kom í fyrsta þætti af Crownvarpinu, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um The Crown.
„Ég hefði viljað fá smá senu, því ég er sjálfur svo mikill Taggart aðdáandi og drottningarmóðirin dýrkaði Taggart þannig sko að það þurfti stundum að keyra með VHS spólur með nýjasta þættinum frá Skotlandi,“ segir Þórarinn Þórarinsson, annar umsjónarmanna Crownvarpsins.
Guðný Ósk Laxdal, sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni var gestur í fyrsta þætti og segist ekki hafa verið nægilega ánægð með leikaravalið þegar kemur að drottningarmóðurinni í fimmtu seríunni.
„Sú sem ég var alltaf að velta því fyrir mér hver væri, það var drottningarmóðirin. Það er þessi kona þarna í bakgrunni, sem lítur engan veginn út eins og drottningarmóðirin, og ég var alltaf bara: „Bíddu hver er þetta?!“
Þórarinn segir að sér þyki of lítið hafa verið gert úr drottningarmóðurinni í þessari nýjustu seríu. „Vegna þess að hún var alveg ofboðslega plássfrek og áberandi.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.