Guðrún Þórey Gunnarsdóttir hefur verið búsett í Kaupmannahöfn í rúm tvö ár. Hana hafði lengi langað til að opna sitt eigið kaffihús og lét verða að því þegar hún opnaði Gudrun's Goodies þann 16. september síðastliðinn.

„Það er svona ár síðan ég fór alvarlega að líta í kringum mig hér í Kaupmannahöfn. Ég sá þetta húsnæði auglýst í lok febrúar en svo kom kórónuveirufaraldurinn þannig ég sló þessu á frest," segir Guðrún.

Guðrún lét faraldurinn þó ekki stoppa sig og í ágúst stóð hún frammi fyrir því að snúa aftur heim til Íslands eða láta verða að því að opna sitt eigið kaffihús í miðjum heimsfaraldri.

„Ég var að vonast til þess að faraldurinn væri búinn í bili og opnaði kaffihúsið þann 16. september. Ég lét það samt ekki stoppa mig og er bjartsýn á framhaldið."

Guðrún hefur reynslu af sambærilegum rekstri en hún átti og rak kaffihúsið Gamla/Old Iceland ásamt frænku sinni á Laugarvegi 2013 til 2014.

Íslendingar 95 prósent gestanna

Guðrún segir að það séu aðallega Íslendingar sem að heimsæki kaffihúsið en að markhópurinn sé í raun allir.

„Matseðillinn er svollítið miðaður inn á Íslendinga, ég býð upp á íslenskar pönnukökur, kleinur, flatkökur, rúgbrauð og hjónabandssælu. Íslendingar sem búa hér í Kaupamannahöfn eru glaðir að geta fengið þessi góðgæti sem fást ekki í Danmörku. Ég tók nýverið upp á því að baka flatkökur og kleinur og því hefur verið mjög vel tekið af Íslendingum og greinilegt að fólk saknar þess."

Guðrún segir að Íslendingar séu mjög glaðir að fá flatkökur. Eins og sjá má á myndinni er einnig hægt að fá ekta íslenskt malt og appelsín.
Fréttablaðið/aðsend

Kaffihúsið er nú búið að vera opið í rúman mánuð og að sögn Guðrúnar gengur það ágætlega. Hún ákvað að auglýsa ekki en notar Facebook og samfélagsmiðla til að koma sér á framfæri.

„Þetta er búið að ganga, við skulum segja það, og mér finnst þetta vera á uppleið. Það eru alltaf fleiri og fleiri sem vita af mér."

Kaffihúsið er á Sankt Peders Stræde sem er tveimur götum frá Strikinu og því mjög miðsvæðis. Staðurinn Cafe Salonen er í sömu götu en hann er einnig rekinn af Íslendingum.

Boðið er upp á dögurð með ekta íslenskum pönnukökum.
Fréttablaðið/aðsend

Gaman að vera í eigin rekstri

Sem fyrr segir þá sérhæfir staðurinn sig í íslensku bakkelsi en Guðrún vildi bjóða upp á eitthvað öðruvísi og skapa sér sérstöðu.

„Þetta er búið að vera rosalega gaman hingað til. Þó að það sé ekkert alltaf brjálað að gera hjá mér þá finnst mér ótrúlega notalegt að vera hér."

Guðrún starfar ein á kaffihúsinu og er með opið frá klukkan átta til átta á virkum dögum, laugardaga frá tíu til sex og frá tíu til fjögur á sunnudögum.

„Ég vinn bara ein hér, ég er alveg staðráðin í að láta þetta ganga. Sonur minn sem býr á Íslandi er minn aðal fjárfestir, við tókum ákvörðun í sameiningu um að ég myndi gera þetta og láta þetta ganga og ég er bjartsýn á framtíðina," segir Guðrún að lokum.

Kaffihúsið er staðsett í notalegum kjallara á Sankt Peders Stræde.
Fréttablaðið/aðsend