„Ég er Pilates-þjálfari með óbilandi áhuga á heilsu og held úti hópþjálfun á netinu undir nafninu Be Fit Pilates auk þess sem ég kenni hóptíma hjá Hreyfingu,“ segir Gullý.

Fyrstu kynni Gullýjar af Pilates voru fyrir rúmum áratug þegar hún skráði sig á námskeið ásamt vinkonu sinni.

„Við höfðum í raun ekki hugmynd um hvað við vorum að skrá okkur í nema það að Pilates var vinsælt meðal stjarnanna í Hollywood. Námskeiðið kom skemmtilega á óvart og ég fann fljótt fyrir líkamlegum framförum. Ég skráði mig strax aftur á fleiri námskeið og það var eiginlega ekki aftur snúið.“

Nýtt hlutverk á nýjum stað

Gullý segir nálgun sína að heilsurækt hafa breyst með móðurhlutverkinu.

„Ég hef æft dans frá unga aldri og hreyfing hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu. Áhugi minn á heilsurækt breyttist hins vegar eftir að ég átti dóttur mína en þá fór ég að hugsa meira um andlega heilsu og tengingu hennar við hreyfingu. Ég var á Pilates-námskeiði þegar ég var ólétt, þangað til ég var komin 20 vikur á leið. Þá fór ég í meðgöngujóga og í göngutúra en svo þegar leið á meðgönguna var meðgöngujógað eiginlega eina hreyfingin sem ég gat stundað.“

Dóttir Gullýjar fæddist í september 2018 og í desember sama ár ákvað fjölskyldan að leggja land undir fót.

„Það hafði blundað í mér í einhvern tíma að fara út í Pilates-kennaranám en það gafst fullkomið tækifæri til þess þegar við fjölskyldan fluttum til London. Þegar við vorum komin út fór ég að leita að mömmuhópum og prófaði að fara með stelpuna mína í mömmujóga. Ég þurfti að labba lengi til að fara í tímana, hún sofnaði á leiðinni, vaknaði svo og var svöng og það hentaði bara alls ekki,“ segir hún.

Ákvað að drífa sig í nám

„Síðan fann ég æðislegt stúdíó rétt hjá okkur sem heitir KXU og reyndi að fara þangað á sunnudögum þegar maðurinn minn var heima og ég gat skotist frá. Ég endaði svo á að fara alla sunnudaga í einn tíma og það hjálpaði mér ótrúlega mikið. Þá byrjaði ég að æfa á fullu og fór að fara reglulega í Pilates og Barre-tíma en Barre er í rauninni blanda af ballett, Pilates og styrktaræfingum. Ég dýrkaði þessa tíma og ákvað að drífa mig í kennaranámið því mig hafði lengi langað til þess og það er ekki kennt á Íslandi. Ég fann leikskóla fyrir dóttur mína þar sem hún var í tvo og hálfan dag á viku og þá nýtti ég tímann til að læra.“

Gullý heldur úti hópþjálfun á netinu og er með sérstakan hóp fyrir nýbakaðar mæður. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Fæðingarþunglyndi lúmskt

Gullý segist strax hafa fundið mikinn mun eftir að hún byrjaði aftur að hreyfa sig reglulega en það var þó ekki fyrr en aðeins seinna sem hún áttaði sig á hversu mikla þýðingu það hafði.

„Ég fann hvað Pilates gerði mikið fyrir andlega líðan en ég gekk í gegnum slæmt fæðingarþunglyndi eftir að ég eignaðist stelpuna mína. Fæðingarþunglyndi kemur einhvern veginn í bakið á manni, það er svo lúmskt. Þú ert kannski ekki alveg ómöguleg og það er erfitt að tala um þetta. Ég sagði aldrei orð við neinn og það vissi enginn í raun hvað ég var að upplifa. Það var ekki fyrr en ég var komin út úr því sem ég gat talað um þetta. Það eru margar konur sem ganga í gegnum þetta og upplifa einmanaleika og einangrun, bæði á meðgöngu og eftir fæðingu. Þessu getur fylgt svo mikið tilfinningalegt álag.“

Vildi hjálpa öðrum konum

„Hreyfingin hjálpaði mér svo mikið, að taka þennan tíma fyrir sjálfa mig, fá endorfínframleiðsluna af stað og styrkinn til baka. Þá er eins og andlega hliðin fylgi á eftir, en þegar ég styrkti mig líkamlega þá styrktist ég andlega. Mig langaði því að hjálpa öðrum í sömu stöðu og ég var í svo að ég ákvað að sérhæfa mig sérstaklega í óléttum og nýbökuðum mæðrum þannig að ég tók einnig diplómu til að geta kennt konum á meðgöngu og eftir fæðingu (e. pre-and-post natal exercises).“

Að náminu loknu var Gullý ráðin til eins virtasta Barre-stúdíós í London og kenndi þar til COVID skall á.

„Við ákváðum að skreppa heim í maí á síðasta ári en þá var búið að vera útgöngubann í London í átta vikur. Það er fátt betra en íslenska sumarið og eftir nokkrar vikur heima fundum við að þetta var kannski bara rétti tíminn til að flytja aftur heim enda engan veginn ljóst hvenær London myndi komast aftur í sitt fyrra horf eftir faraldurinn.“

Sterkari að innan sem utan

Í dag býr Gullý í miðbæ Reykjavíkur ásamt manni sínum og dóttur sinni sem nú er orðin tveggja ára gömul. Hún kennir hóptíma í Hreyfingu og er auk þess með hópþjálfun á netinu sem ber heitið Be Fit Pilates þar sem áhersla er lögð á heildræna styrkingu. Þá er hún einnig með sérstakan mömmuhóp undir nafninu Be Baby Fit.

„Tímarnir eru stuttir og hnitmiðaðir svo fólk fái sem mest út úr hverjum tíma en hver æfing er einungis um 30 mínútur. Á tímum fjarvinnu ættu því allir að geta bókað einn fund fyrir sjálfan sig til að klára æfingu dagsins en æfingarnar eru blanda af Pilates, Barre og styrktaræfingum,“ segir Gullý.

„Markmiðið með Be Fit er að hjálpa fólki að finna ánægju í því að hreyfa sig og styrkja sig á heilbrigðan máta án nokkurra öfga. Pilates styrkir þig innan frá og út, andlega og líkamlega. Með reglulegri hreyfingu er auðveldara að vera bjartari og betri útgáfa af sjálfum sér sem hreyfing á fyrst og fremst að snúast um.“

Hægt er að fylgjast með Gullýju á Instagram undir: befit pilates og á heimasíðunni: befitpilates.co.uk