Bandaríski tónlistarmaðurinn Jake Flint er látinn, 37 ára að aldri. Flint var afkastamikill kántrísöngvari en hann gekk í hjónaband á laugardag, nokkrum klukkustundum áður en hann lést.
New York Post greinir frá þessu og vísar í yfirlýsingu frá umboðsmanni hans, Brendu Cline, sem birtist á samfélagsmiðlum á sunnudagskvöld. Óvíst er hvað varð Flint að aldurtila en flest bendir til þess að hann hafi orðið bráðkvaddur í svefni.
Eiginkona Flints, Brenda, birti myndband á samfélagsmiðlum eftir andlát hans þar sem sjá mátti Jake í góðum gír í brúðkaupinu þar sem þau dönsuðu og kysstust.
Í færslu sem hún birti í gær sagðist hún, eðli málsins samkvæmt, vera miður sín og að veröldin væri hreint ekki alltaf sanngjörn. „Núna ættum við að vera að skoða brúðkaupsmyndirnar en þess í stað er ég að velja föt á hann fyrir útförina hans,“ sagði hún.
Flint var á leið í tónleikaferðalag í byrjun desember og átti það að standa fram á næsta vor. „Ég elskaði hann eins og eigin son. Hann er fyndnasti og duglegasti listamaður sem ég hef unnið með á mínum ferli,“ sagði umboðsmaðurinn, Brenda Cline.
Hér að neðan má sjá fallegan flutning Jake á laginu Cold In This House: