„Það mætti halda það,“ segir rokkarinn Baldur Ragnarsson hlæjandi, spurður að því hvort markmiðið sé að hafa spjall þeirra Flosa Þorgeirssonar í upphafi hvers þáttar af Draugum fortíðar nógu langt fyrir bílferðina til Húsavíkur.

Glöggir aðdáendur þessa vinsælasta hlaðvarps landsins hafa ekki farið varhluta af því að spjall þeirra um allt sem á daga þeirra drífur í upphafi hvers þáttar, verður sífellt lengra.

Þættina er trekk í trekk einhvers staðar að finna á toppi vinsældalista. Þar spjalla þeir Baldur og Flosi um ýmsa viðburði úr fortíð mannkyns, það er að segja þegar löngu og einlægu spjalli þeirra félaga er lokið.

„Við komumst næst því að hafa þetta í Húsavíkurlengd núna um daginn, andskotinn, hann var alveg þrír og hálfur tími sá þáttur, held ég,“ segir Baldur. Hann segist venjulega miða við að hver þáttur sé svona klukkutími og þrjú korter.

„Það er kjörinn tími, en þegar við erum með einn sveimhuga og einn sem er misdjúpt sokkinn í fenið, þá hefur dagsformið áhrif. Svo klippi ég þetta bara eins og ég sé þörf á hverju sinni.

Galdurinn við hlaðvarp er að tímamörk eru ekki vandamál, svo við leyfum okkur hitt og þetta. En nei, við höfum nú ekki miðað þetta við Húsavík, en hver veit nema við hendum ekki einn daginn í einn Húsavík special,“ segir Baldur.