Heilsuræktarpepparinn Lena Karen Andreasdóttir hjá Origo býður annað árið í röð upp á heilsuræktarjóladagatal á vefnum. Dagatal Lenu sló í gegn í fyrra en nú líkt og þá býður Lena upp á mjúka og harða pakkann, miserfiðar æfingar.

„Þú opnar hvern glugga hvern dag og þá eru þetta tveir valmöguleikar, svo þetta er bæði fyrir lengra komna og byrjendur,“ útskýrir Lena en um er að ræða vefsíðu þar sem hægt er að sjá og leika eftir frábærar æfingar.

Í dagatalinu sýnir Lena æfingarnar á þægilegan hátt.

„Þetta byrjaði í Covid í fyrra þegar allt var lokað,“ segir Lena en upprunalega var um að ræða armbeygjukeppni á meðal starfsfólks Origo. Framlag Lenu vakti mikla athygli og fékk hún meðal annars sérstakt hrós frá Jón Björnssyni, forstjóra Origo.

„Við tókum þetta á aðeins hærra level í ár. Þetta verður meiri æfing á meðan þetta var meira hugsað sem hreyfing úti í þrjátíu mínútur í fyrra,“ segir Lena.

Hún minnir á að hreyfing sé það mikilvægasta sem hægt er að gera fyrir sjálfan sig. „Það er mikilvægt að gefa sér smá tíma fyrir sjálfan sig í jólastressinu. Fólk miklar þetta oft fyrir sér en þetta eru ekki nema þrjátíu mínútur af deginum. Og jólastressið minnkar bara ef þú tekur þér smá hlé og gerir eitthvað fyrir sjálfan þig.“

Jóladagatal Lenu má nálgast hér.

Lena segir það mikilvægasta sem hægt sé að gera hvað varðar líkamsrækt sé að koma sér af stað.