Þeir sem kjafta frá, leka upplýsingum í lögguna eða aðra glæpahópa eru stundum kenndir við gras eða rottur og meðal annars kallaðir „skvílerar“ í bíómyndunum. Einn slíkur tók sig til undir lok síðustu viku og sendi feitan gagnapakka úr fórum héraðssaksóknara á fjölmiðla, auk þess sem hann taldi rétt að leka gögnunum inn á sölusíðuna Bland.is, af öllum stöðum.

Rannsóknargögnin hverfast um meinta spillingu innan lögreglunnar, rannsókn á fíkniefnalöggunni Steindóri Inga Erlingssyni og grun um að Anton Kristinn Þórarinsson hafi lengi notið friðhelgi gegn því að halda Steindóri upplýstum um hreyfingar og viðskipti í fíkniefnaheiminum.

Rétt er að halda því til haga að Steindór var ekki ákærður fyrir meint brot, því rannsakandi héraðssaksóknara gat hvorki sannað neitt um meint ólöglegt samband hans og Antons, né að Anton sé sá mikli lekaliði sem sá sem lak á Bland.is virðist vilja meina og koma á framfæri.

Lítill vafi er hins vegar á því að ýmislegt í lekanum þoli varla dagsljósið þar sem það varpar niðurdrepandi skugga plebbalegs hversdagsleikans á undirheimalífið, þar sem mikilvægar vörður í atburðarásinni sem var til rannsóknar eru á súlustað, Jólatónleikum Björgvins Halldórssonar, Þjóðhátíð í Eyjum, auk þess sem málinu er í rannsóknargögnunum fundin hliðstæða í laginu Kaupmaðurinn á horninu eftir Bubba Morthens og Rúnar Júlíusson, um þennan sem hafði aldrei setið inni, vann höndum og læðinn slægði net „í lausamennsku var hjá Fíknó og átti Íslandsmet.“

Þótt margt í gögnunum sé með slíkum ólíkindum að einhver gæti talið að það væri ekki hægt að skálda þetta þá er það nú einmitt tilfellið og allt hefur þetta verið gert áður.

Spillta löggan Colin lekur varnaðarorðum í glæpaforingjann Costello. Engin gögn um þá hafa ratað á Bland.is.

Spilltar löggur

Laganna verðir sem leika tveimur skjöldum, ekki síst gagnvart hverjum öðrum, selja sál sína og upplýsingar fyrir fé og fíkniefni, hafa skotið upp kollinum allar götur síðan lágmarksskipulagi var komið á glæpi og ekki er nokkur leið að koma tölu á slíka í glæpamyndum og sjónvarpsþáttum.

Matt Damon lék einn slíkan í The Departed eftir krimmamyndakónginn Martin Scorsese 2006. Jack Nicholson lék þar glæpaforingjann Costello, sem meðvitaður um gildi þess að eiga löggu í vasanum, byrjaði að móta hinn unga Colin sem uppljóstrara áður en hann útskrifaðist úr lögregluskólanum.

Gary Oldman var minna í því að byggja land með lögum í hlutverki hins snaróða Stansfield.

Gary Oldman er ein eftirminnilegasta spillingarlögga seinni ára, en hann fór hamförum sem útúrspíttaði lögregluforinginn Norman Stansfield í leigumorðingjadramanu Léon 1994.

Nakin spilling

Yfirheyrslur eru nokkuð áberandi í lekanum og í einni slíkri yfir Antoni má finna setningu sem gæti verið upphaf á hádramatískri glæpasögu: „Þetta byrjaði þannig að ég var staddur á Goldfinger…“

Nektarstaðir eru svo algengir í glæpaskáldskap að það er í raun klisja að láta menn með misjafnt í huga funda á slíkum með naktar konur í bakgrunni. Gögnin greina frá fundi Antons og Steindórs á Goldfinger í Kópavogi, en samkvæmt yfirheyrslum ræddu þeir „bílamál.“

Tony Soprano og gengi hans átti sitt varnarþing á súlustaðnum BadaBing! í The Sopranos og þar réði Silvio Dante ríkjum.
Fréttablaðið/Samsett

Súlustaðurinn BadaBing! er líklega þekktasta strípibúllan í poppkúltúrnum, en þar var Tony Soprano með skrifstofu í þáttunum The Sopranos og fundaði þar reglulega með sínum mönnum og átti meðal annars einnig samtöl við löggu sem hann hafði á sínum snærum í reykmettuðu hálfrökkrinu.

Svon´eru jólin…

Krúttlegur hversdagsleikinn nær frostrósóttum hápunkti í gagnapakkanum þegar fært er til bókar að Anton hafi hitt lögmann sinn á Jólagestum Björgvins í desember 2015, þar sem honum var tjáð að rannsókn væri í gangi gagnvart honum og Steindóri.

Mjúkraddaðir söngvarar leggja oftar en ekki til tilfinningaríka bakgrunnstóna í mafíumyndum og þar ber vitaskuld hæst söngvarann Johnny Fontane sem skuldaði Guðföðurnum feitan greiða í The Godfather frá 1972.

Fontane söng til dæmis fyrir Marlon Brando í hlutverki Don Corleone í upphafsatriði myndarinnar, brúðkaupi dóttur guðföðurins. Eitt verst geymda leyndarmál Hollywood er svo að sjálfsögðu að persóna Fontane er byggð á sjálfum Frank Sinatra og sá á vitaskuld aðeins einn raunverulegan jafnoka á Íslandi, Bó.

Al Martino syngur sem Johnny Fontane fyrir brúðurina Constanziu Corleone, sem Talia Shire lék í The Godfather. Johnny er sagður byggja á Frank Sinatra en við þeirri sönggoðsögn á Ísland aðeins eitt svar.
Fréttablaðið/Samsett

Mjólkurköld viðskipti

Enginn skortur er á fundarstöðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu þegar hafa þarf verðsamráð eða ræða önnur mál sem þola illa dagsljósið. Öskjuhlíðin, til dæmis, en auðvitað er líka alveg óvitlaust að hittast bara úti í búð.

Í gögnunum segir frá því að Anton hafi „síðan farið að Samkaupum í Kópavogi“ og „hitti Steindór við mjólkurkælinn,“ sá sem þarna bar vitni sagðist ekki hafa séð „hvort Anton hefði rétt Steindóri peninga inni í versluninni“ en þegar út var komið hafi hann verið einhverju vísari.

Barbara Stanwyck og Fred MacMurry pukrast úti í búð þegar elskendurnir Phylliis Dietrichson og Walter Neff funda í sígildri senu sem lýsir laumuspili fólks sem rynir að komast upp með morð.

Þá er margsannað, ekki síst í glæpamyndum, að oft er snjallt að fela sig fyrir allra augum og hvað er eðlilegra og sjálfsagðara en að rekast á sér kunnuga við til dæmis mjólkurkælinn í Nettó uppi í Salahverfi?

Þann leik léku Barbara Stanwyck og Fred MacMurry í hlutverkum elskendanna Phyllis Dietrichson og Walter Neff í rökkurmyndinni Double Indemnity 1944. Þau þorðu ekki að láta sjá sig saman eftir að hafa fargað eiginmanni hennar og brugðu því á það ráð að hittast úti í búð.