Óskar Hallgrímsson og Mariika Lobyntseva opna sýninguna Comfortable Universe – Ljómandi þægilegt í Gallery Porti í dag. Um er að ræða handsaumuð teppalistaverk úr ull og akríl sem eru unnin í Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa, nánar tiltekið á vinnustofu þeirra hjóna í miðborg Kænugarðs.

Óskar: „Við bjuggum Comfort­able Universe-verkefnið til í fyrra sem svar við Covid. Covid var svona pínu eins og stríð hjá okkur af því við vorum bara í samkomubanni eftir samkomubann eftir samkomu­bann. Við vildum búa til heim sem væri laus við allar takmarkanir og maður mátti koma við. Allar myndirnar eru svona knúsumyndir, það er allt ofsalega hlýlegt og þægilegt, allar áhyggjur horfnar. Það á líka við þegar þú ert í stríði og þú vilt geta komist burt úr þínum raunheimi.“

Leituðu skjóls inni á baðherbergi

Hjónin eru bæði myndlistarmenn og starfa í ýmsum miðlum, Óskar sem ljósmyndari og Mariika sem tattúlistamaður. Mariika segir að fyrstu mánuði stríðsins hafi henni reynst erfitt að skapa list.

Mariika: „Fyrstu mánuðina teiknaði ég eiginlega ekkert. Ég var bara í einhvers konar transi. Þegar það voru miklar loftárásir þá faldi ég mig á baðherberginu okkar og spilaði heimskulega leiki á iPadinn minn. Þannig tókst ég á við ástandið.“

Íbúð Óskars og Mariiku er á 8. hæð í blokk í miðbæ Kænugarðs. Þegar loftvarnarflauturnar glumdu í höfuðborginni leituðu þau skjóls inni á baðherberginu í stað þess að hlaupa alla leið niður í sprengjuskýli.

Óskar: „Við eyddum svo miklum tíma inni á þessu baðherbergi. Okkur leið virkilega öruggum þar, það var hljóðlátt og þægilegt. Mar­iika fór stundum þangað inn þrátt fyrir að það væri ekkert í gangi. Þegar henni leið illa þá fór hún bara þangað og spilaði tölvuleikinn sinn á milljón, þótt það væru engar sprengjur. Þetta var bara þannig umhverfi að okkur leið vel og sýningin endurspeglar það.“

Óskar segir að þau Mariika hafi viljað búa til heim sem væri laus við allar takmarkanir, þar sem allt væri hlýlegt og þægilegt.
Mynd/ValgarðurGíslason

Leyniskyttur hjá vinnustofunni

Þegar stríðið hafði staðið yfir í einhverjar vikur átti Mariika listræna uppgötvun og teiknaði úkraínska skjaldarmerkið og birti á Insta­gram-síðu sinni.

Mariika: „Ég ákvað að stílfæra það í mínum eigin stíl, teiknaði það með blómum og fólk brást mjög vel við því. Ég geri líka tattú og fólk skrifaði ítrekað til mín og vildi fá það sem tattú. Ég held að þessi viðbrögð hafi hvatt mig til að teikna meira.“

Hjónin eru með vinnustofu í um tíu mínútna göngufjarlægð frá heimili sínu sem var lokuð fyrstu vikur stríðsins. Beint fyrir framan vinnustofuna var nefnilega stór eftirlitsstöð úkraínska hersins og vegatálmar sem hindruðu aðgang að miðbæ Kænugarðs þar sem ýmsar mikilvægar byggingar á borð við forsetahöllina eru staðsettar.

Mariika: „Að lokum gátum við fengið að koma inn á ákveðnum tímum, ekki allan daginn, og við vorum mjög glöð með það. Við mættum á vinnustofuna á hverjum degi og hermennirnir fóru að muna eftir okkur. Eitt sinn þegar við vorum að bíða eftir að vinnustofan yrði opnuð spurði einn hermaðurinn okkur hvort við værum að vinna þarna. Við sögðum já, hann spurði okkur á hvaða hæð og við sögðum að vinnustofan væri á 2. hæð. Hann sagði þá: Gott, gott. En ekki fara neitt ofar því við erum með leyniskyttur þar, en ekki segja neinum.“

Sýningin er staðsett í Gallery Port á Laugavegi 32.
Mynd/ValgarðurGíslason

List á hörmungatímum

Óskar og Mariika eru sammála um að það hafi verið gott að byrja aftur að vinna og skapa list til að fá smá pásu frá stríðinu. Spurð um hvort það sé pláss fyrir list á svona hörmungatímum segir Óskar:

„Sýningin endurspeglar í raun hvernig í staðinn fyrir að flýja inn í nýjan heim þá klæddum við raunheiminn inn í okkar heim. Eitt af verkunum sem við erum með er hereftirlitsstöð. En hún er full af blómum og ógeðslega krúttleg og þannig. Það er kall að kasta mólotovkokteil en hann er ógeðslega kjút og mólotovkokteillinn er bara með bleikan eld.“

Í fyrra voru hjónin með sýninguna Nokkuð þægilegt í Gallery Porti og segjast þau hafa pælt mikið í því hvernig hægt sé að finna öryggi og þægindi í hættulegum heimi, fyrst í gegnum Covid og svo stríðið.

Óskar: „Hvað er þægilegt, hvað er það fyrir okkur? Það er ekki bara kósí, það er þessi tilfinning þegar við erum örugg. Það er það sem við erum að sækja í. Við upplifðum okkur örugg þegar við sáum þessar eftirlitsstöðvar. Við vorum ekki hrædd, við hugsuðum: Gott, nú erum við örugg. Tilfinningin með andófi, með því að sjá þjóðina taka sig saman, það er líka öryggi.“

Sýningin Ljómandi þægilegt stendur yfir í Gallery Porti til 31. júlí. Ítarlegra viðtal við Óskar og Mariiku má finna í Helgarblaðinu á síðu 28 og hér á vef Fréttblaðsins.