„Sagan að baki því að við erum að skoða þetta stóra og magnaða viðfangsefni, vináttuna, er sérstaklega falleg,“ segir Kristborg Bóel Steindórsdóttir um sjónvarpsþætti sem þær Álfheiður Marta Kjartansdóttir ætla að gera fyrir Sjónvarp Símans.

„Þegar ég var að vinna að sjónvarpsþáttunum Ást sat ég úti á sólríkum degi í fyrrasumar með Maríu vinkonu minni,“ heldur hún áfram en þáttaröð hennar og Kolbrúnar Pálínu Helgadóttur hefur verið aðgengileg hjá Símanum síðan í haust.

„Ég var þá löngu undirlögð af sjónvarpsbakteríunni eftir að hafa áður fengið frábært tækifæri til að spreyta mig sem þáttarstjórnandi og ritstjóri þáttanna Að austan á N4 og vissi að ég yrði að gera meira.“

Hugljómun yfir kanilsnúðum

„Vegna þess að þarna liggur ástríða mín. Ég fæ fleiri hugmyndir vikulega en ég kæmist nokkurn tímann yfir að framkvæma,“ segir Bóel sem var þó ekki komin með neitt sem henni þótti borðleggjandi framhald eftir að Ást rynni sitt skeið.

„Ég hafði að sjálfsögðu rætt þetta allt saman fram og til baka við Maríu mína og þar sem við sátum úti í sólinni og tróðum í okkur kanilsnúðum komu fjórar uppábúnar vinkonur röltandi,“ segir Bóel en þær vinkonurnar sátu fyrir framan kaffihúsið Brikk.

„Þær voru líklega um áttrætt og sú þeirra sem leiddi hópinn benti hinum á að setjast en fór sjálf inn til að kanna aðstæður. Kom stuttu síðar í gættina og kallaði: „Stelpur, viljið þið kannski hvítvínsglas?“

Við María horfðumst í augu og hún sagði: „Þetta! Taktu þetta fyrir. Vináttuna. Ástin getur komið og farið en það sem grípur mann alltaf er vináttan.“

Bara sjö stafa orð?

Skömmu síðar pantaði Bóel fund hjá Símanum og úr varð samningur um sjö þátta seríu sem Sagafilm framleiðir. Þá kom Álfheiður Marta Kjartansdóttir að málum og vinnur þættina með henni sem leikstjóri. Og hún grípur orðið:

„Vináttan hefur verið viðfangsefni vinsælustu sjónvarpsþátta og kvikmynda síðustu áratuga og hún er allt í kringum okkur,“ segir Álfheiður. „En það hefur í rauninni ekki verið kafað ofan í hana sem hugtak í þáttagerð hérlendis áður. Hugmyndin og verkefnið vakti því gríðarlegan áhuga hjá mér frá fyrstu stundu og vinnan hjá okkur Bóel gengur mjög vel.“

Veirustrik í reikninginn

„Við vorum rétt farnar að kafa í efnið þegar COVID-19 ruddist inn í samfélagið og setti sitt mark á allt,“ segir Kristborg Bóel. „Veiran hefur að sjálfsögðu sett okkar plön í uppnám, eins og allra annarra, bæði hvað varðar eðlilega samvinnu sem og áætlanir um viðtöl.“ Hún bætir við að fyrstu tökur hafi verið fyrirhugaðar í vikunni en þær áætlanir standist að sjálfsögðu ekki.

Kristborg Bóel bendir á að ástandið geri það að verkum að umfjöllun um vináttuna hafi sjaldan átt jafn mikið erindi. „Þetta eru þannig tímar að náungakærleikur og vinátta verða nánast áþreifanleg hugtök í samfélaginu. Vináttan og sambönd okkar við annað fólk eru okkur í raun lífsnauðsynleg. Og við höfum aldrei séð það jafn skýrt og einmitt núna.“

Leita að alls konar vinum

Þær stöllur segjast ætla að skoða vináttu frá öllum mögulegum hliðum í þáttunum með sérfræðingum og öðrum viðmælendum. „Við skoðum grunninn út frá tengslum og tengslamyndun í æsku, ræðum samskipti, einmanaleika,“ segir Bóel og Álfheiður nefnir einnig ólík vinasambönd auk þess sem þær ætli að velta upp upp mikilvægi vináttu í samfélaginu sem heild.“

Kristborg Bóel var kominn með sjónvarpsbakteríuna þegar hún gerði þættina um ástina og heldur nú áfram með vináttuna.

Og þar kemur að leitinni sem er hafin. „Til þess að ramma þetta inn og setja í sem best samhengi þurfum við að fá eins breiðan hóp viðmælenda og hægt er. Við óskum því eftir að fá ábendingar um einstök vinasambönd, hvort sem um er að ræða vinahópa eða milli tveggja einstaklinga.“

„Við tökum fagnandi á móti öllum ábendingum og hlökkum til að sýna afraksturinn á skjánum í haust,“ segir Kristborg Bóel sem fór frá rannsóknum á ástinni yfir í vináttuna.

Hefur þú…?

Leitarspurningar þeirra sýna svo ekki verður um villst að þær horfa á vináttu vítt og breitt: Hefur þú átt sama vininn síðan í leikskóla? Ertu í vinahópi sem gæti talist einstakur? Hefur þú eignast góðan vin gegnum samfélagsmiðla? Þekkir þú einhverja eldri borgara sem eiga í fallegu vinasambandi? Þekkir þú til vinasambanda þar sem mikill aldursmunur er? Þekkir þú vini á fullorðinsaldri sem búa saman? Hvað með systkini, mæðgur, mæðgin, feðga, feðgin sem eru bestu vinir?

„Við viljum fá ykkur til þess að hjálpa okkur að finna allar þessar einstöku sögur,“ segja þær og bæta við að þeim leiki forvitni á að vita hvernig vinir rækti vinskapinn og takast á við ágreining.

„Hvort vinasambönd séu fólki jafn mikilvæg og ástarsambönd, hvort karlkyns vinir tali um tilfinningar og hvað málið sé eiginlega með konur og klósettferðir?“ segir Bóel og leggur áherslu á að þær taki öllum ábendingum fagnandi á netfangið [email protected]

Þráir vinaknús

Eins og óhjákvæmilegt virðist vera þessa undarlegu daga berst talið að veirufárinu og líðan þeirra sjálfra. „Mér finnst þessi vetur búinn að vara í sirka þrjú ár og ég er orðin virkilega langþreytt á honum,“ segir Kristborg Bóel og rekur raunir þjóðar í stuttu máli.

„COVID-19 ofan í stanslausar rauðar viðvaranir, snjóflóð, jarðskjálfta og slæma kaflann hjá handboltalandsliðinu. Ég þrái ekkert heitar en eðlilega rútínu og vina­knús. Samt finnst mér enn svo langt í land enda er Þórólfur okkar allra búinn að lengja samkomubannið út apríl.“

Bóel segir langþreytu hennar segja það sem segja þarf um að hún sé að bugast á ástandinu. „En um leið og ég hugsa um þessa undursamlegu samstöðu í samfélaginu okkar og hugsa til okkar magnaða heilbrigðishers og framvarðarsveita sem standa vaktina um þessar mundir hætti ég að væla.“

Horft á björtu hliðarnar

„Ástandið í samfélaginu setur auðvitað strik í reikninginn og óvissan er mikil,“ segir Álfheiður. „Það sem er jákvætt í þessu er að við Bóel fáum meiri tíma í að liggja yfir handritaskrifum og það hrannast upp fallegar sögur af náungakærleik, vináttu og samstöðu. En þetta er auðvitað óhugnanleg staða og yfirþyrmandi. Ég reyni að tækla þetta bara einn dag í einu, hegða mér skynsamlega og man að vera þakklát fyrir litlu hlutina.“