„Þetta er með erfiðustu en jafnframt fallegasta verkefni sem ég hef tekist á við,“ segir fjölmiðlamaðurinn þrautreyndi, Freyr Eyjólfsson, um aðkomu sína að þáttaröðinni Missi, sem verður aðgengileg á Sjónvarpi Símans Premium í dag.

„Þetta var mjög mikil þerapía fyrir okkur sem stóðum að þessu en við náttúrlega komum öll að þessu með eitthvað í bakpokanum. Reynir var þarna nýbúinn að missa pabba sinn, ég og konan mín misstum barn á síðustu metrunum í meðgöngu og allur hópurinn var búinn að ganga í gegnum sorg og missi, þegar við komum fyrst saman. Síðan fórum við að hitta annað fólk sem var erfitt en fallegt og mjög uppbyggjandi.“

Þættirnir eru unnir í nánu samstarfi við Sorgarmiðstöð, enda umfjöllunarefnið viðkvæmt og grunnhugmyndin að þeim kviknaði þar. „Ég kem þannig að þessu að þær Ína Lóa og Eva Dís hjá Sorgarmiðstöð hafa samband við mig og biðja mig hreinlega að taka hugmynd sem þær voru með aðeins lengra og gera einhvers konar heimildaseríu um sorg og sorgarmissi,“ segir Reynir Lyngdal. Hann leikstýrir þáttunum sem byggja fyrst og fremst á viðtölum sem Freyr tekur, við fjölda fólks sem hefur misst börn, maka, foreldra eða systkini og talar opinskátt um þessi þungu áföll.

Að elska er að syrgja

„Ég var tiltölulega nýbúinn að missa pabba minn og kveikti svona sterkt á þessu,“ heldur Reynir áfram og bætir við að hann hafi í raun furðað sig á því að ekki væri löngu búið að gera þætti af þessum toga.

„Hvað getur maður sagt? Þetta eru þannig sögur að í þeim gefur raunveruleikinn ímyndunaraflinu á kjaftinn. Þetta eru stórar sögur og merkilegar og magnað fólk,“ segir Freyr og líkir þáttagerðinni við ótrúlegt ferðalag.

„Maður deyr. Það er náttúrlega eina lokaniðurstaðan í lífinu og ef maður ætlar að elska þá verður maður að syrgja. Þannig er bara díllinn. Þær eru systur og fylgjast að, sorgin og ástin,“ heldur Freyr áfram og bætir við að þannig lagað sé lítið við það að athuga.

„Þetta er ekki vond tilfinning, sorgin, en hún er bara viðbragð við missi, sem eins og ég segi, við förum öll í gegnum. Og í þessum þáttum einbeittum við okkur að því að finna fólk sem hefur farið í gegnum þungan og erfiðan missi. Upplifað mikla og djúpa sorg en unnið í henni. Eitthvað sem er ekki endilega sjálfgefið. Vegna þess að sorgin, hún fer aldrei. Ég held nefnilega að það sé stór misskilningur,“ segir Freyr og heldur áfram:

„Hún er alltaf til staðar en þú ferð að lifa með henni og við vildum sérstaklega finna fólk sem hafði unnið markvisst í sinni sorg og það er einhvern veginn ótrúlegt hvað fólkið sem við hittum og tölum við er viturt. Þetta er fólk sem lifir með sorg, en er mjög hamingjusamt þrátt fyrir allt.“

Hamingjan í sorginni

„Það var svona útgangspunkturinn. Að finna von og fegurð í þessu annars dimma efni. Og kannski slá líka á þessa dauðafóbíu sem er svolítið ríkjandi í nútímasamfélagi, þannig að við tölum aldrei um það sem mun á endanum gerast,“ segir Reynir.

„Það er hægt að vera sorgmæddur en hamingjusamur á sama tíma,“ heldur Freyr áfram. „Það er hægt að lifa með sorg en eiga samt bara mjög hamingjusamt og innihaldsríkt líf og það var þannig fólk sem við vorum að leita að og fundum.

Það var einhvern veginn ótrúlegt að setjast niður með þessu fólki. Stundum komum við saman og hlustuðum á sögur í fjóra til fimm tíma og allur hópurinn bara einhvern veginn sat agndofa og grét yfir þessum sögum. Þetta voru mjög magnaðar upptökur og stundir þegar við hittum allt þetta fólk,“ segir Freyr, um bæði þau sem segja frá missi sínum sem og allan þann fjölda sérfræðinga sem rætt er við í þáttunum. „Þannig að þetta er búið að vera mjög magnað og lærdómsríkt ferli.“

Von og fegurð

„Þetta er bara ótrúlegt fólk sem hefur unnið sig í gegnum missi,“ segir Reynir um viðmælendurna í Missi. „Og það merkilega er einhvern veginn hversu mikil von og fegurð er í þessu.“

Reynir segir þetta ekki síst merkilegt í ljósi þess að hann hafi mest fengist við leikið efni, þar sem reynt er að finna einhvern sannleik í einhverju sammannlegu. „En þarna þarf bara ekki annað en að kveikja á myndavélinni og spyrja réttu spurningarinnar og þá er það bara komið. Þetta er svo ótrúlega magnað.“