Ásta Kristín Guð­rúnar­dóttir Páls­dóttir, birti í dag Face­book færslu þar sem hún óskar eftir að­stoð vina og ættingja við að finna líf­fræði­legan föður sinn.

Ásta fæddist í Reykja­vík árið 1987, ólst þar upp og býr þar enn en hún missti móðir sína árið 1991.

„Ég ólst upp hjá góðri fjöl­skyldu og á frá­bæran föður. Mamma mín dó árið 1991 og ég komst að því á full­orðins­árum að ég ætti annan líf­fræði­legan föður. Ég veit hins­vegar ekki hver það er og hef engar upp­lýsingar, en mig myndi langa til að reyna að finna hann,“ skrifar Ásta á Face­book.

Móðir hennar hét Guð­rún Margrét Þor­bergs­dóttir og bjó í Reykja­vík. Hún var mikið í dansi og vann meðal annars á Prikinu og hjá Orku­stofnun.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Ásta að móðir sín hafi ekki skilið eftir neinar vís­bendingar um hver líf­fræði­legur föður hennar væri.

„Hún virðist ekki hafa sagt neinum neitt með það. Ég náttúru­lega bara að hélt að faðir minn væri faðir minn þangað til ég var full­orðin,“ segir Ásta.

Ásta ákvað að óska eftir aðstoð vina og ættingja gegnum Facebook.
Ljósmynd/aðsend

Ásta byrjaði á því að spyrja fólk í kringum sig og hefur einnig farið í er­lenda gena­banka en á­kvað núna að óska eftir að­stoð gegnum Face­book.

Hún settist niður með föður sínum sem ól hana upp og skrifuðu saman færsluna á face­book. Hún segir jafn­framt að það sé góð til­finning að segja frá þessu opin­ber­lega og fá fleiri með sér í lið.

„Ef ein­hver telur sig geta hjálpað mér með þetta eða vill að­stoða mig má vin­sam­legast hafa sam­band við mig á face­book: Ásta Kristín Guð­rúnar­dóttir Páls­dóttir,“ skrifar Ásta að lokum.

Halló kæru vinir, vandamenn, ættingjar og hver sem nennir að deila þessu á vegginn sinn á facebook, fyrirfram þökk fyrir...

Posted by Ásta Kristín Guðrúnardóttir Pálsdóttir on Miðvikudagur, 7. apríl 2021