Í september mun listakonan og dansarinn Ásrún Magnúsdóttir setja upp gjörning í Öskjuhlíðinni. Hún leitar nú að hundrað unglingum til að taka þátt í honum.

Ásrún Magnúsdóttir leitar að hundrað börnum og unglingum, á aldrinum tólf til átján ára, til að taka þátt í gjörningi sem frumsýndur verður á listahátíðinni Plöntutíðni í september.

„Þetta er sem sagt gjörningur sem fólginn er í því að þau standa á víð og dreif um Öskjuhlíðina og flytja ljóðið Unglingurinn í skóginum eftir Halldór Laxness, í þrjátíu mínútur.“

Hún segir Plöntutíðni einstaklega spennandi listahátíð, þar sem öll verkin eru á einhvern hátt tengd gróðri eða plöntum.

„Hugmyndin að baki þessum gjörningi er sú að þau séu að flytja ljóðið fyrir gróðurinn, plönturnar og kanínurnar, fyrir allt sem er í skóginum. En svo geta gestir og gangandi fengið að vera vitni að flutningnum,“ útskýrir hún.

Teenage Choir of Love and Sex er meðal verka eftir Ásrúnu, en það einmitt flutt af unglingum.

Æfingaferlið skemmtilegt

Ásrún hefur verið dugleg að vinna með unglingum í verkum sínum, sem mörg hafa farið víða um heim á listahátíðir. Má þarf á meðal nefna verkið GRRRRRRLS.

„Ég hef alltaf fílað vel að vinna með unglingum. Þeir eru oft opnari. Svo finnst mér svo gaman á æfingum þegar maður vinnur með fólki á þessum aldri, mér finnst æfingaferlið svo ótrúlega skemmtilegt. Það er líka ótrúlega mikil nostalgía fólgin í þessu. Þessi ár eru svo mótandi, mig langar nánast að frysta þau. Þetta eru mótunarárin. En svo bara eru þau svo til í þetta.“

Hún segir Öskjuhlíðina líka vera spennandi skóg.

„Og í raun það sem kemst næst því að vera hreinlega skógur hérna í miðbænum.“

Ásrún vinnur að verki fyrir Borgarleikhúsið með æskuvinkonu sinni, Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur.

„Það fjallar líka um mótunarárin, en í því tilviki okkar eigin. Sýningar á verkinu áttu að hefjast fyrir löngu en þeim var aftur og aftur frestað. Núna er stefnt á að frumsýna það í september,“ segir Ásrún.

Ætti allt að ganga

Covid setti sitt strik í reikninginn þegar kom að listsköpuninni en þó sér í lagi hafði það áhrif á að Ásrún gat lítið sem ekkert ferðast með verkin milli listahátíða, sem hún gerði mikið áður.

„Ég missti alveg áhuga á listinni,“ segir hún kímin og hlær. „Þetta hefur verið svolítið erfitt en ég er að finna kraftinn á ný. Þess vegna er ég spennt fyrir þessum gjörningi. Hundrað unglingar í Öskjuhlíðinni, þetta er alveg smá klikkað. Ég held að þetta muni bæði hjálpa mér að halda áfram í listinni og verði mörgum öðrum innblástur, bæði þátttakendum og þeim sem koma og upplifa gjörninginn.“

Hún segir það ákveðna staðreynd að margir unglingar hafi upplifað mikla vanlíðan og einangrun í faraldrinum.

„Ég vona bara að þetta gangi upp og hjálpi kannski einhverjum. Það verður allavega mun meira en einn metri á milli þannig að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Svo verðum við úti þannig að þetta ætti allt að ganga,“ segir Ásrún.