„Ég er búin að vera að bíða eftir þessu alveg frá því ég byrjaði með keppnina árið 2016,“ segir Manuela Ósk Harðar­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Miss Uni­ver­se Iceland, en hingað til hafa konur ekki verið gjald­gengar í keppninni nema þær væru ó­giftar og barn­lausar. Þetta breytist með keppninni 2023 þegar reglu­breytingarnar taka gildi. Aldurs­tak­markið á milli 18 til 28 ára stendur þó ó­haggað.

„Að mínu mati er þetta það eina sem hefur fengið verð­skuldaða gagn­rýni. Að þetta sé ekki í takti við nú­tímann og mér hefur sjálfri fundist það. Það er auð­vitað verið að taka valið af konum með þessu,“ segir Manuela.

Breytir leiknum

Rökin fyrir reglunum voru þau að gríðar­legt álag er á sigur­vegaranum en að keppninni lokinni flytur Miss Uni­ver­se til New York þar sem hún starfar fyrir Miss Uni­ver­se Organization í heilt ár – og ferðast um heiminn og sinnir alls kyns krefjandi verk­efnum.

„Þótt kona sé gift þá getur hún samt ferðast ein, gert það sem hún vill og sinnt þessu starfi sem er að vera Miss Uni­ver­se. Mér fannst þetta alltaf svaka­lega úr­elt,“ segir Manuela, sem segir þetta þó að­eins flóknara fyrir mæður.

„Auð­vitað er það öðru­vísi en ef það er það sem móðir velur, að keppa í Miss Uni­ver­se og sinna því starfi, þá á það alltaf að vera hennar val. Þannig að ég tek þessu fagnandi,“ segir Manuela. Hún segir breytingarnar sér­stak­lega mikil­vægar fyrir ís­lensku keppnina.

„Af því að við Ís­lendingar erum frekar ungir þegar við byrjum að stofna fjöl­skyldu. Frekar en til dæmis í Banda­ríkjunum þar sem í­halds­semi er meiri og fólk byrjar kannski á að mennta sig, giftir sig og fer svo að eignast börn,“ segir Manuela.

„Það er fullt af ungum mæðrum á Ís­landi sem vilja samt keppa í svona keppni þannig að ég held að þetta breyti alveg leiknum.“

„Þótt kona sé gift þá getur hún samt ferðast ein, gert það sem hún vill og sinnt þessu starfi sem er að vera Miss Uni­ver­se. Mér fannst þetta alltaf svaka­lega úr­elt“

Margar já­kvæðar fyrir­myndir

Margt hefur verið rætt og ritað um gildi fegurðar­sam­keppna. „Ég hef alltaf skilið gagn­rýnina á þessar reglur. En svo er önnur gagn­rýni sem ég skil ekki og ég skrifa hana alltaf á fá­fræði og það er gagn­rýnin að svona keppni eigi yfir­höfuð ekki að við­gangast.“

Manuela segir keppnina ekkert líka þeim sem haldnar voru fyrir nokkrum ára­tugum. „Þetta er búið að breytast rosa­lega og núna er þetta miklu meira um vald­eflingu og sjálf­styrkingu. Svona pínu eins og nám­skeið fyrir konur sem vilja bæta sig og styrkja, sama á hvaða sviði það er. Og eignast vin­konur fyrir lífs­tíð í leiðinni.“

Manuela segist hreykin af því hve margar já­kvæðir fyrir­myndir hafi komið út úr keppninni. „Og nú bætast í hópinn fleiri konur sem geta tekið þátt ef þær vilja, en það fer engin í gegnum þetta ferli án þess að læra heilan helling um sjálfa sig, jafn­vel sigrast á ein­hverjum ótta og getur í leiðinni verið já­kvæð fyrir­mynd fyrir aðrar ungar konur.“

Hún bendir á að kepp­endur í Miss Uni­ver­se Iceland hafi sumar hverjar keppt oftar en einu sinni, þrisvar og jafn­vel fjórum sinnum. „Það er vegna þess að þær fá svo margt já­kvætt út úr keppninni og það skiptir þær ekki einu sinni máli hve langt þær komast. Þetta snýst frekar um veg­ferðina en úr­slitin.“

Elísa Gróa Steinþórsdóttir sigraði í Miss Universe Iceland í fyrra.
Mynd/Aðsend

Æðis­legur hópur

Keppnin í ár fer fram í Gamla bíói þann 24. ágúst.

„Þetta er alltaf sama stressið, ég skil ekki hvernig ég fer að þessu!“ segir Manuela hlæjandi. „En þetta er ó­trú­lega já­kvætt stress, ég er svo spennt. Það er í þessu eins og öllu öðru, það eru alltaf ein­hverjir hnútar sem þarf að leysa á síðustu stundu og ég er í því síðustu dagana,“ út­skýrir Manuela.

„En þessi hópur af stelpum er æðis­legur. Það hefur verið draumur að vinna með þeim og við hvetjum alla til að mæta í Gamla bíó og fylgjast með þessu,“ segir Manuela, sem bætir við að vænta megi frekari breytinga á keppninni að ári.

„Við ætlum að prófa ýmis­legt nýtt að ári og ég hlakka til að til­kynna það þegar þar að kemur.“