Spennutryllirinn Brúðarkjóllinn eftir franska verðlaunahöfundinn Pierre Lemaitre er nýkominn út í þýðingu Friðriks Rafnssonar.

„Pierre Lemaitre er franskur, fæddist í París 1951, sálfræðingur að mennt og starfaði um árabil sem slíkur en einnig við fullorðinsfræðslu, meðal annars fyrir fanga. Hann fór ekki að skrifa fyrr en á miðjum aldri og hann var rúmlega fimmtugur þegar fyrsta bók hans, Irene, kom út árið 2006 og sló í gegn í Frakklandi. Hún er fyrsta bókin í svokölluðum Verhoeven-þríleik hans þar sem rannsóknarlögreglumaðurinn Camille Verhoeven er að aðalpersónan. Alex, bók númer tvö í þeirri seríu, kom honum alþjóðlega á bókmenntakortið og var þýdd og gefin út víða í veröldinni og svo rak hann endahnútinn á þríleikinn með skáldsögunni Camille,“ segir Friðrik.

Frábær stílisti

Brúðarkjólinn er fimmta bókin sem Friðrik þýðir eftir Lemaitre. Hann þýddi hinn rómaða Verhoeven-þríleik hans og skáldsöguna Þrír dagar og eitt líf og hlaut spennusagnaverðlaunin Ísnálina fyrir hana. Langflestar af bókum Lemaitre eru spennubækur og Friðrik er spurður hvort hann hafi ánægju af lestri spennusagna. „Mér finnst góð skáldsaga vera góð skáldsaga,“ segir hann. „Fléttan í bókum Lamaitre er spennandi og eins og allir góðir höfundar vísar hann í allar áttir, til dæmis í Bret Easton Ellis og James Ellroy en ekkert síður í klassíska höfunda á borð við Louis Aragon, Marcel Proust og Boris Pasternak, eða heimspekinginn og táknfræðinginn Roland Barthes. Svo er hann mikill unnandi kvikmynda Hitchcocks og fleiri slíkra meistara. Hann vinnur þannig úr hefðinni á sinn hátt eins og allir góðir höfundar, leikur sér með spennusagnaformið og þróar það með sínum hætti. Svo er hann líka frábær stílisti og þess vegna er mjög gaman og gefandi að þýða bækur eftir hann.“

Sterk og flott kvenpersóna

Lamaitre kom á bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir nokkrum árum og Friðrik hitti hann þá og hefur heimsótt hann og konu hans í París. „Hann er afar viðkunnanlegur maður og það er gaman að spjalla við hann, ekki síst um bækurnar hans. Fáa höfunda hef ég hitt sem eru eins innilega glaðir yfir velgengni bóka sinna og hann ræktar sambandið við þýðendur sína út um allan heim, þar á meðal mig. Það eru viss forréttindi. Auk þess hefur hann tekið þátt í að vinna handrit að kvikmyndum og sjónvarpsmyndum sem gerðar hafa verið eftir bókum hans. Sumar þeirra hafa náð miklum vinsældum og eiga eflaust sin þátt í að hann er einn vinsælasti höfundur hins frönskumælandi heims nú um stundir,“ segir Friðrik.

Friðrik hefur þýtt mikinn fjölda bóka á íslensku og ber þar sérstaklega að nefna verk eftir Milan Kundera og Michel Houellebecq.

Ánægjan af að þýða

Þar sem Brúðarkjólinn er spennutryllir er ekki rétt að segja of mikið um söguþráðinn. „Í stuttu máli fjallar sagan um Sophie og Vincent. Hún er kynningarfulltrúi hjá listaverkauppboðsskrifstofu og hann háttsettur í alþjóðlegu olíuiðnaðarfyrirtæki. Þau eru hamingjusamlega gift og allt gengur þeim í haginn. Allt í einu fer Sophie að verða gleymin og loks er hún komin í þá vægast sagt óþægilegu stöðu að hún virðist hafa framið morð, það það jafnvel fleiri en eitt, án þess að muna eftir því. Meira er varla hægt að segja annað en að smám saman áttar Sophie sig á því að hún er ekki gengin af vitinu heldur er ókunnur maður farinn að blanda sér í líf þeirra hjóna. Hún tekur því til sinna ráða, eða heldur að hún geri það... Sophie er sterk og flott kvenpersóna, ekki óskyld Alex sem margir lesendur þekkja úr samnefndri bók,“ segir Friðrik og bætir við: „Þetta er sálfræðitryllir og um leið þjóðfélagsstúdía. Þarna sýnir Lemaitre á sér aðra hlið en í Verhoeven-seríunni.“

Friðrik hefur þýtt mikinn fjölda bóka á íslensku og ber þar sérstaklega að nefna verk eftir Milan Kundera og Michel Houellebecq. Skáldsögurnar sem hann þýðir eru yfirleitt sérlega góðar: „Ég vona að þær séu það, en það er ekki mér að þakka. Ég reyni þó að taka ekki hvað sem er að mér til þýðingar. Ef ég hef ekki ánægju af verkinu eða ef það höfðar ekki til mín sem þýðanda þá er betra að einhver annar geri það. Maður verður að hafa ánægju af að þýða og finnast viðfangsefnið verðugt og skemmtilegt á einhvern hátt. Þá er líklegra að maður skili af sér sómasamlegu verki til lesenda,“ segir Friðrik.