Bílskúrinn var alveg hrár. Hann er 47 m2, 30 m2 voru notaðir í íbúðina og afgangurinn var nýttur í vinnustofu og geymslu á endanum á vinnustofunni. Geymslan er ekki nema fjórir fermetrar,“ segir Brynja.

Inn í þetta pínulitla rými sem íbúðin er, kom Brynja fyrir eldhúsi, baðherbergi, stofu og svefnherbergi.

„Rýmið er L-laga og það nýtist ágætlega. Eldhúsið er inni í L-inu og þar kom ég fyrir bæði uppþvottavél og þvottavél. Baðherbergið er við hliðina á eldhúsinu og breiddin á því er 80x250 cm. Það er alveg minnsta stærð af baðherbergi, ef þú vilt ekki hafa sturtuna yfir klósettinu. En það er svo sem alveg hægt að hafa það þannig,“ segir Brynja.

Brynja kom eldhúsi, baðherbergi og svefnherbergi fyrir í pínulitlu rými. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Við hliðina á baðherberginu er svefnherbergið þar sem er rétt svo nóg pláss fyrir 160 cm breitt rúm. „Þú skríður bara inn í það,“ segir Brynja. „Með þessu móti gat ég gert stofuna sem stærsta.“

Stofan er við hliðina á svefnherberginu og er rýminu skipt upp með gardínu sem hægt er að draga fyrir rúmið. Hún skiptir svefnherberginu og stofunni líka upp með því að hafa sitthvorn litinn á veggnum sem er sameiginlegur með stofunni og svefnherberginu.

Brynja hefur gaman af að leika sér með liti til að stækka eða minnka rými.

„Litir eru svolítið í tísku núna, sem er skemmtilegt því það er hægt að nota liti til að leika sér svolítið með arkitektúrinn. Þú getur falið eða dregið fram arkitektúrinn. Þú getur stækkað rými og minnkað rými með litum,“ útskýrir Brynja.

Gerir mikið úr litlu

„Núna er fasteignaverð og leiguverð hátt og fólk vill þá kannski gera meira úr litlum rýmum. Leigja út frá sér eða gera íbúð handa börnunum sínum í bílskúrnum. Í litlum rýmum er ekkert endilega best að mála allt hvítt, það getur verið kuldalegt. Það skiptir kannski meira máli að nota liti sem gera umhverfið hlýlegra, en sumir kaldir litir stækka rýmið svo þetta er svolítið samspil.“

Brynja segir að þegar hún hannaði bílskúrsíbúðina hafi hún hugsað mikið um litina. „Það er pínu hátt til lofts í stofunni og þar notaði ég bleikan lit sem gefur hlýju. Ég hugsaði líka mikið um lýsinguna. Lýsing skiptir mjög miklu máli upp á stemningu. Svefnherbergið er grænt og ég passaði líka að hafa hlýlega lýsingu þar. Maður þarf að hugsa bæði um lit og lýsingu því litur er ekki neitt án lýsingar.“

Svefnherberginu og stofunni er skipt upp með gardínu og sitt hvorum litnum á veggnum. Brynja nota liti til að hólfa og skipta upp rýminu.

Brynja útskýrir að litir hafi líka mjög sálfræðileg áhrif. Grænn sé til dæmis mjög róandi litur og henti þess vegna vel í svefnherbergi. Hún segir að í litlum rýmum sé ekki gott að hafa mjög ólíka liti því þeir leiði hugann að því hvað rýmið sé lítið. „Það er betra að hafa meiri harmoníu. En ég til dæmis notaði ég svolítið liti til að hólfa og skipta upp rýminu í bílskúrsíbúðinni. Það er frekar hátt til lofts þar svo mér fannst það koma vel út. Þetta fer allt eftir aðstæðum.“

Litir tengja rýmin

Brynja segir að þó hún skipti rýmunum í bílskúrnum upp með ólíkum litum þá noti hún líka svipaða liti til að tengja rýmin. „Það er til dæmis bleikur veggur í stofunni og grænir í svefnherberginu. Svo er einn veggur í eldhúsinu líka bleikur og eldhúsinnréttingin er græn Ikea-innrétting. Svo er loftið inni á baði grænt og græn fúga milli flísanna. Það skapar harmoníu að tengja litina í öllum rýmunum.“

Eldhúsinnréttingin er græn og veggurinn bleikur. Brynja notar svipaða liti í eldhúsinu og í stofunni til að tengja rýmin og skapa þannig harmóníu.

Brynja mælir með því að nota ólíka litatóna til að lífga upp á rými sem eru í hlutlausum lit. „Ólíkir tónar hlið við hlið gera rýmið líflegra og oft fallegra. Núna er ég til dæmis í öðru verkefni sem er svolítið skemmtilegt. Ég teiknaði tvær íbúðir í stórum kjallara á einbýlishúsi. Þar er 220 cm loftrými á flestum stöðum en í annarri íbúðinni er sólskáli sem er með fjögurra metra háu lofti. Borðstofan og stofan eru þar en eldhúsið er í ganginum þar sem er mjög lágt til loft. Þetta er gluggalaust rými svo lýsing skiptir miklu máli,“ segir Brynja.

Brynja náði að koma pínulitlu baðherbergi fyrir við hliðina á eldhúsinu.

Hún útskýrir að í rýmum sem þessum sé hægt að nota málningu á skemmtilegan hátt til að láta rýmið virka víðara og hærra. „Eitt ráð er til dæmis að vera með aðeins dekkri lit vel fyrir neðan sjónlínuna, aðeins ljósari lit fyrir ofan þar og hafa loftið svo 25% ljósara en veginn. En ef þú ert með skjannahvítt loft, þá geturðu í raun minnkað rýmið því það dekkir vegginn. Loftið þarf að tóna vel við veggina. Það skiptir máli.“

Brynja bætir að lokum við að fólk sem komið hefur inn í bílskúrsíbúðina trúi því varla að hún sé ekki nema 30 fermetrar. „Vel hannað rými hefur svo mikil áhrif á það hvernig við skynjum það og getur stækkað það og gert það notalegra. Það er mikilvægt að spá í það þegar maður hannar óhefðbundin rými eins og bílskúra eða önnur lítil rými fyrir fólk til að búa í.“