Animal Crossing: New Horizons kom út fyrir Nintendo Switch leikjatölvuna í mars og hefur notið gríðarlegra vinsælda. Leikurinn býður leikmönnum meðal annars upp á að klæða persónur sínar í alls kyns klæðnað og leikmenn geta líka hannað sín eigin föt. Þetta hefur vakið athygli þeirra sem hafa gaman af tísku og margir hafa fengið útrás fyrir tískuþarfir sínar í gegnum leikinn á meðan þetta sama fólk er lokað inni heima hjá sér vegna COVID-19. Leikurinn hefur líka náð athygli tískuhönnuða, sem eru farnir að bjóða upp á vörur sínar á stafrænu formi innan leiksins.

Sólgleraugu frá vörumerkinu Gentle Monster eru með í þessum leik. MYND @ANIMALCROSSINGFASHIONARCHIVE

Í umfjöllun PAPER um þetta nýja fyrirbrigði kemur fram að leikmenn hafi nýtt sköpunargleðina til að gera ýmislegt í leiknum sem hönnuðir hans sáu líklega ekki fyrir. Þannig hefur fólk endurskapað raunveruleikaþætti á borð við Survivor og Deal or No Deal og Bobby Berk, sem er einn af Queer Eye-genginu, hefur gefið leikmönnum ráð varðandi innanhússhönnun á heimilum þeirra í leiknum.

Stafræn útgáfa af lúxus

Þannig að fólk ver tíma sínum í leiknum á mismunandi hátt og sumir hafa fundið frumlegar og fjölbreyttar leiðir til að skemmta sér. Ein af þeim vinsælustu er að endurskapa þekktar tískuvörur innan leiksins. Töluverður fjöldi leikmanna hefur skemmt sér við þetta og Instagram-reikningar eins og Animal Crossing Fashion Archives, Nook Street Market og Crossing the Runway hafa safnað saman afrakstrinum af þeirri vinnu.

Þar er meðal annars hægt að finna Animal Crossing útgáfur af Prada, Chanel, Dior og Louis Vuitton vörum og þetta hefur vakið athygli tískuheimsins.

Tískuhönnuðir taka þátt

Í apríl hóf tískuhönnuðurinn Sandy Liang og verslunin What Goes Around Comes Around, sem selur klassískar lúxustískuvörur, samstarf sem snerist um að endurskapa bæði nýjar og gamlar flíkur eftir Liang í leiknum, þannig að leikmenn gætu hlaðið þeim niður og notað þær á persónur sínar. Vörurnar voru í boði ókeypis, en leikmenn voru beðnir um að gefa fimm dollara til góðgerðarmála ef þeir gátu.

Hér sést hvernig föt frá Gucci koma út í leiknum. Hún er bara virkilega flott. MYND @CROSSINGTHERUNWAY

„Ég held að Animal Crossing geti verið öflug leið fyrir vörumerki til að halda sambandi við viðskiptavinina sem þykir vænt um þau,“ sagði Paige Rubin, innkaupastjóri What Goes Around Comes Around, í samtali við Women’s Wear Daily. „Á tímaskeiði þar sem svo mörgum fyrirtækjum finnst þau þurfa að vera fullgild lífsstílsmerki til að heilla fólk til lengri tíma getur það verið gagnlegt að gera vörur sínar aðgengilegar á stafrænu formi.“

Fleiri stór nöfn hafa fylgt í kjölfarið, eins og Marc Jacobs, Valentino og GCDS, en þessi merki hafa slegist í lið með umsjónarmönnum Instagram-reikningsins Animal Crossing Fashion Archive til að endurskapa bæði nýjar og eldri flíkur frá þeim inni í leiknum.

Lífið sífellt stafrænna

Í ljósi þess að upp á síðkastið hefur tískuiðnaðurinn þurft að snúa sér að stafrænum tískusýningum, myndatökum sem fara fram inni á heimilum fólks og hönnunarkeppnum milli viðskiptavina er ekki erfitt að skilja hvers vegna Animal Crossing höfðar til vörumerkja sem vilja halda tengslum við viðskiptavini sína.

Það er ótrúlegt úrval af glæsilegum tískufatnaði í boði í leiknum eins og sjá má. MYND @CROSSINGTHERUNWAY

Stór aðdáendahópur leiksins og fjölbreytnin sem boðið er upp á við fatahönnun innan hans gerir það að verkum að hann hentar sérlega vel til að sýna tísku og skapa sniðugar samfélagsmiðlaherferðir. Þar að auki gerir þetta hátísku aðgengilega fyrir fólk sem hefur ekki aðgang að eða efni á henni. Svo mengar þessi tegund af tísku ekkert.

Ef til vill er þetta hluti af stærri þróun sem heimsfaraldurinn hefur hraðað, þar sem líf fólks færist æ meira inn á stafræna sviðið. Fyrir skömmu mættu til dæmis milljónir leikmanna í Fort­nite á tónleika með rapparanum Travis Scott sem fóru fram inni í leiknum sjálfum. Þetta voru ekki fyrstu tónleikarnir innan Fortnite og til stendur að halda fleiri. Vel má hugsa sér að fleiri listamenn eigi eftir að bjóða upp á viðburði inni í tölvuleikjum, sérstaklega í leikjum sem bjóða upp á stafræna veröld sem margir leikmenn deila. Það er heldur ekki ólíklegt að við sjáum tískumerki setja upp tískusýningar innan Animal Crossing eða að þau hanni jafnvel föt sérstaklega fyrir leikinn.