Stórleikkonan Margrét Guðmundsdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína í verkinu Marat/Sade eftir Peter Weiss sem er sýnt í Borgarleikhúsinu um þessar mundir í uppsetningu Rúnars Guðbrandssonar. Í sýningunni fer Margrét með hlutverk Charlotte Corday, morðingja byltingarmannsins Jean-Paul Marat, sama hlutverk og hún lék í uppsetningu Þjóðleikhússins á Marat/Sade 1967.

Margrét segir það hafa verið gaman að snúa aftur á leiksviðið en þótti það nokkuð sérstakt að túlka sama hlutverkið rúmri hálfri öld síðar.

„Það var svolítið skrýtið satt að segja. Ég var nú svona til að byrja með svolítið svona hikandi en svo fór ég að hugsa að þetta var náttúrlega fólk á öllum aldri hér áður þegar þetta var sýnt fyrst í gamla daga. Ég var 33 ára þá og nú verð ég níræð á þessu ári. En ég fór nú bara að hugsa að þetta fólk á þessu geðveikrahæli getur náttúrlega alveg verið gamalt fólk að leika, svo þetta er alveg lógískt og getur alveg staðist,“ segir Margrét, en allir sem leika í sýningunni í Borgarleikhúsinu eru komnir yfir sjötugt.

Margrét og Sigurður Skúlason léku saman í upphaflegri uppfærslu Þjóðleikhússins á Marat/Sade árið 1967.
Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Mjög vel lukkuð sýning

Marat/Sade í Þjóðleikhúsinu 1967 leikstýrði ástralski leikstjórinn Kevin Palmer en auk Margrétar léku í henni Gunnar Eyjólfsson, Róbert Arnfinnsson, Herdís Þorvaldsdóttir og Bessi Bjarnason, eiginmaður Margrétar, svo nokkur séu nefnd.

„Þetta var held ég mjög vel lukkuð sýning. Ég var að hugsa að ég man nú ekkert hvernig ég lék þetta þá. Ég man ekkert svo mikið eftir henni þannig séð, ég er náttúrlega búin að leika á annað hundrað sýningar og hlutverk í Þjóðleikhúsinu,“ segir Margrét, en hún var fastráðin sem leikari við Þjóðleikhúsið frá 1955-2003.

Hvernig nálgastu karakterinn Charlotte Corday?

„Ja, ég bara nálgast hana. Á æfingatímabilinu þá læt ég hana bara fæðast eiginlega. Þetta kemur svona smátt og smátt.“

Þetta var held ég mjög vel lukkuð sýning. Ég var að hugsa að ég man nú ekkert hvernig ég lék þetta þá. Ég man ekkert svo mikið eftir henni þannig séð.

Flestir dánir eða hættir

Einn leikari sem lék með Margréti í upphaflegu sýningunni á Marat/Sade í Þjóðleikhúsinu 1967 leikur einnig í sýningunni í Borgarleikhúsinu nú, en það er Sigurður Skúlason sem fer með hlutverk Jean-Paul Marat.

„Annars eru nú bara flest allir dánir sem voru í gömlu sýningunni í Þjóðleikhúsinu. Það eru bara ég og Sigurður Skúlason eftir, held ég. Þeir sem eru lifandi eru þá hættir,“ segir Margrét.

Margrét hætti sjálf í Þjóðleikhúsinu árið 2006 þegar hún var 73 ára og kveðst ekki hafa leikið mikið árin þar á eftir.

„Ég reyndar lék í Tjarnarbíói í leikriti sem Erling Jóhannesson setti upp og svo var ég í nokkrum kvikmyndum. Svoleiðis að ég var eiginlega alveg sátt við það að vera bara hætt, ég var ekkert að hafa mig eftir neinum hlutverkum.

Þangað til í fyrra að Kristín Jóhannesdóttir hringdi í mig og þá lékum við í Ein komst undan, fjórar kerlingar,“ segir Margrét og vísar þar í uppfærslu Borgarleikhússins á verkinu Ein komst undan eftir Caryl Churchill frá 2022. Með Margréti í því verki léku Kristbjörg Kjeld, Margrét Ákadóttir og Edda Björgvinsdóttir.

Margrét Guðmundsdóttir í hlutverki sínu sem Charlotte Corday í Marat/Sade.
Mynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Þakkar fyrir heilsuna


Margrét verður níræð í nóvember næstkomandi. Spurð um hvernig sé að eiga endurkomu í leikhúsið svona á efri árum segir hún:

„Það er bara gaman og maður bara þakkar fyrir að hafa góða heilsu.“

Er eitthvað meira fram undan?

„Ég veit það ekki, það getur vel verið, það er ekki gott að segja. Ekkert allavega sem er í hendi eða er ákveðið.“