Cupshe-tískusýningin fór fram á dögunum á Paraiso Miami Beach sundfatavikunni sem haldin er árlega.
Á sundfatavikunni koma saman leiðandi hönnuðir og áhrifafólk í heimi sundtískunnar og kynna nýjar vörulínur fyrir árið 2023 og sækja þess á milli sumarlegar strandveislur.
Sundfatavikan stendur yfir í fjóra daga og á dagskránni má finna 45 viðburði af öllum toga.

Meðstofnandi sundfatavikunnar, Natalija Dedic Stojanovic, sagði í samtali við CBS news að reiknað væri með 30.000 gestum á viðburðinn og að uppbókað væri á hótel og veitingastaði á svæðinu.
Cupshe-fyrirtækið var stofnað árið 2015 af fyrrverandi forstjóra Alibaba-vefverslunarinnar, David Wei, og miðaði í upphafi að framleiðslu á ódýrari sundfatnaði sem seldur var í gegnum vefverslanir á borð við Amazon og ekki síst í gegnum sterkar söluherferðir með áhrifavöldum á Instagram og YouTube. Áætlaður hagnaður á þessu ári hljóðar upp á 250 milljónir Bandaríkjadala.

Fjöldi fyrirsæta gekk pallana og þar á meðal var fyrirsætan Hayley Hasselhoff, dóttir Davids Hasselhoff, sem fór fyrir Strandvörðunum í samnefndum þáttum.
Á sýningunni var sýnt frá vorlínu ársins 2023 sem unnin var í samvinnu við fyrirsætuna Tabriu Majors og áhrifavaldinn Jojo Fletcher.



