Sýningin Út frá einu og yfir í annað stendur yfir í Lista­sal Mos­fells­bæjar. Þar sýnir Ás­gerður Arnar­dóttir skúlptúra og tví­víð verk. „Í verkunum á sýningunni er ég að leika mér með endur­tekningar,“ segir Ás­gerður.

„Skúlptúrarnir eru þrír og gerðir úr leir, en auk þeirra sýni ég teikningar og prent­verk sem sýna mis­munandi eigin­leika skúlptúranna. Þannig er ég að sýna fram á hversu margt er hægt að gera við hvern skúlptúr og varpa um leið fram mörgum mis­munandi út­færslum og sjónar­hornum.“

Ólík sjónar­horn Sem dæmi má nefna að hún límir teikningar af skúlptúrunum á sjálfa skúlptúrana. Eins konar sam­bland af ljós­myndum og staf­rænum prent­verkum, sem unnin eru eftir skúlptúrunum, eru einnig uppi á veggjum. Sum verkin eru í ramma en önnur ekki.

„Með þessu er ég að skapa ólík sjónar­horn og sýna hvað sam­hengið skiptir miklu máli. Mynd í ramma verður allt annað en mynd sem er límd á vegg og er ekki í ramma,“ segir Ás­gerður.

Sýningin fjallar sömu­leiðis um í hvaða list­miðil er hægt að stað­setja hvert verk, þar sem sum verkin eru unnin á mörkum ýmissa miðla. Notar sama hlutinn oft Þetta er þriðja einka­sýning Ás­gerðar, sem út­skrifaðist úr Lista­há­skólanum árið 2018.

„Þetta er fyrsta sýningin sem ég held þar sem kon­septið skiptir meira máli en fegurðar­gildið. Þessi sýning þarf ekki að vera fal­leg, á­herslan er á að sýna alls konar út­gáfur af sama skúlptúrnum. Ég nota sama hlutinn oft og reyni að finna eitt­hvað nýtt við hann. Ég er sömu­leiðis að skoða á­ferð og efnis­kennd.“

Ás­gerður segir að list­sköpun gefi sér mikið en hún er líka gagn­rýnin á eigin verk. „Ég er enda­laust að skapa og geri oft verk sem mér líka ekki, en það koma alltaf verk á milli sem ég er hæst­á­nægð með. Ég lifi fyrir þau augna­blik þegar ég sé að eitt­hvað í list­sköpun minni er að virka.“