Sýning Þór­dísar í Lista­safni Ár­nesinga hefur yfir­skriftina Hring­rás/Routine og er inn­setning í Sal 2. „Þetta er dimmur milli­salur sem býður upp á skemmti­lega mögu­leika til að spila með ljós og skugga,“ segir Þór­dís Erla. „Þegar maður kemur inn í salinn sér sýningar­gesturinn vörpun af hring að snúast rang­sælis á stórri strimlagardínu sem hangir í miðju rýmisins. Þegar nánar er litið leynist þar skúlptúr unninn úr hring­laga akrýl­gleri með lit­breytifilmu sem snýst um sjálfan sig í mótor og breytir um lit í snúningnum. Endur­varpið af hringnum ferðast um rýmið og minnir á eins konar sól. Til verður leikur forms, lita og skugga.

Þarna er ég bæði að hugsa um sam­mann­legu rútínuna um allan hnött, það að opna og loka gardínum í takt við sólar­ganginn en einnig að hugsa um gervi­lýsingu sem er alls staðar í kringum okkur. Hér áður fyrr var það sólin sem stjórnaði deginum okkar en nú eru það snjall­tæki sem varpa geislum sem herma eftir dags­ljósi og rugla þannig í líkams­klukkunni. Fólk stjórnast af þessum tækjum og byrjar og endar daginn á að skoða símann eða opna tölvuna.“ Í salnum eru ein­mitt líka ljós­verk unnin úr akrýl­gleri og lit­breytifilmu sem minna á skjái.

Hringrás á sýningunni í Listasafni Árnesinga.
Fréttablaðið/Aðsent

Eitraðar hendur

Þór­dís Erla sýnir the Connection series á sam­sýningunni Nánd/Embrace í Lista­safninu á Akur­eyri en þar eru þátt­tak­endur auk hennar Birgir Snæ­björn Birgis­son, Emil Hol­mer, Heidi Lampenius, Onya Mc­Caus­land og Miikka Vaskola undir sýningar­stjórn Mika Hannula.

„Þarna er ég að vinna með sama efni­við og á sýningunni í Hvera­gerði og var með hendur í huga. ,,Maður tengist fólki með höndunum en í Co­vid urðu hendur það for­boðna, nánast eitraðar. Verkin á sýningunni eru unnin í ýmsa miðla en það sem tengir þau er við­leitnin til að tengjast. Það eru mottur á gólfinu, gerðar úr vínyl­efni með á­prentuðum höndum sem togast í áttina að hvor annarri, hálf­gegn­sær spegill þar sem á­horf­andinn getur sam­einað spegil­mynd sína öðrum gestum og fræst plexí­gler­verk með eins konar tenginga­leið­beiningum unnin úr ein­hvers konar tákn­máli.

Ég sýni líka mál­verk þar sem ég nota blönduð efni, eins og lakk og sprey á holografískt efni og mynd­málið minnir á skjái og fagur­fræði inter­netsins. Öll verkin snúast um tengingar sem eru mi­s­auð­veldar og mis­erfiðar.“

Sýningin í Lista­safni Ár­nesinga stendur til 22. maí og sýningin í Lista­safninu á Akur­eyri stendur einnig til 22. maí.

Frá sýningunni Embrace í Listasafninu á Akureyri.

Vinnur vegg­verk

Þór­dís Erla var ný­lega valin bæjar­lista­maður Sel­tjarnar­nes­bæjar og vinnur nú að vegg­verki fyrir bæinn. Hún hefur sýnt verk í Amsterdam, Stokk­hólmi, Ber­lín, Basel, Tékk­landi og víðar. Hér á landi hefur hún unnið verk fyrir Lista­há­tíð í Reykja­vík, Gerðar­safn, Ís­lenska dans­flokkinn, Konsúlat Hótel, Ca­nopy Hilton hótel og sýnt í D-sal Hafnar­hússins.