Leik­stjórar heimildar­myndarinnar Tiger King: Mur­der, May­hem and Madness, hafna gagn­rýni dýra­verndunar­sinnans Caro­le Baskin, sem meðal annars kemur fram í myndinni, á efnis­tök myndarinnar. E News greinir frá.

Heimildar­myndin er sú allra vin­sælasta á streymis­veitunni Net­flix um þessar mundir. Þættirnir, sem eru í sjö hlutum, fjalla um Joe Exotic, sem átti á tíma­bili hundruð kattar­dýra og bar­áttu áður­nefndrar Caro­le gegn honum.

Í um­fjöllun E News kemur fram að Caro­le hafi sakað leik­stjórana, þau Eric Goode og Rebec­ca Chaiklin, um að hafa blekkt sig þegar þau tóku við­töl við hana. Þau hafi sagt sér að þetta yrði líkt og heimildar­myndin Black­fish, sem fjallaði um slæman að­búnað hvals í SeaWorld. Í staðinn hafi per­sónu­leg efnis­tök verið nýtt.

„Ég full­yrði það að við vorum heiðar­leg við alla sem koma fram í myndinni. Hvað varðar öll verk­efni sem eru í gangi í meira en fimm ár, að þá breytast hlutirnir og þróast. Við fylgdum þessu eftir eins og allir þeir sem segja sögur myndu gera. Við hefðum ekki getað vitað að þetta myndi fara svona,“ segir Chaiklin.

„Caro­le talaði um per­sónu­legt líf sitt. Barn­æsku sína, mis­notkun eigin­manna sinna og hvarf fyrr­verandi eigin­manns hennar, Don Lewis. Hún vissi að þetta væri ekki bara um...að þetta er ekki bara Black­fish vegna hlutanna sem hún talaði um. Hún var ekki neyddd í þetta,“ segir Goode.

„Það sem ég myndi segja um allt þetta fólk er að það vantaði for­vitnina til að reyna að skilja eða sjá þessi dýr í náttúrunni. Caro­le hafði engan á­huga á að sjá dýrin þar...skorturinn á menntuninni var mjög á­huga­verður.“

Í frétt E News kemur fram að Joe Exotic hafi hins vegar verið afar á­nægður með myndina. „Hann hefur hringt í mig nokkrum sinnum síðustu daga og vikur. Hann er mjög á­nægður með seríuna og hug­myndina um frægðina. Hann er í skýjunum,“ segir leik­stjórinn.

„Hann er í búri og auð­vitað segir hann núna að hann viti hvað hann gerði þessum dýrum. Með Joe, að þá vor­kennum við honum, en á sama tíma er hann ein­hver sem veit hvað hann á að segja og hve­nær hann á að segja það. Ég tek þessu með ró þegar hann segist sjá eftir því hvað hann gerði.“

Hér að neðan má sjá myndband sem Carole Baskin gerði með eiginmanni sínum þar sem hún gagnrýnir efnistök myndarinnar.