Það er nóg að gera hjá leikhópnum Spindrift: leiklestur, leiksýningar og ópera eftir ljóðum Elísabetar Jökulsdóttur.

Samlestur leikhópsins Spindrift á nýju leikverki verður í streymi á vefsíðu hópsins á morgun, laugardagskvöldið 22. janúar, klukkan 20.00. Samlestrinum verður einnig deilt á samfélagsmiðlum hópsins.

Bergdís Júlía Jóhannsdóttir og Arnar Hauksson eru leikarar í verkinu Við dönsum undir öskufalli endalokanna, eftir ástralska leikskáldið Melissu-Kelly Franklin. Leikstjóri er Sólveig Eva Magnúsdóttir. Tinna Þorvalds Önnudóttir leikles sviðslýsingar og er í hlutverki útvarpskonu.

„Melissa er góð vinkona okkar í leikhópnum. Við kynntumst henni úti í Bretlandi þegar við vorum í leiklistarnámi þar. Hún hefur skrifað bæði fyrir leikhús og kvikmyndir og hefur hlotið lof fyrir verk sín,“ segir Sólveig Eva. „Hún skrifaði þetta leikrit árið 2019 og þar er fjallað um gróðurhúsaáhrif og hvernig verið er að ganga á rétt kvenna víðs vegar í heiminum. Framtíðarsýnin er nokkuð hrollvekjandi en á sama tíma er ástin og vonin ríkjandi.“

Óvænt þungun

Um efni leikritsins segir Bergdís: „Par á átakasvæði tekst á um óvænta þungun og stendur frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort þau geti fætt barn inn í versnandi heim. Þau búa í aðstæðum sem við myndum segja að væru dystópískar. Lítill sem enginn aðgangur er að læknisþjónustu og því er öruggt þungunarrof ekki aðgengilegt. Þau vilja bæði fjölskyldu, en skortir trú á framtíðinni. Í leikritinu er flakkað í tíma og við sjáum atriði úr fortíðinni, hvernig þau kynntust og hvað þau hafa gengið í gegnum. Þau búa yfir mikilli leikgleði, ástríðu og húmor, og reyna saman að endurheimta vonina. Þau koma úr ólíkum áttum. Hún er alin upp í aktívisma en hann kemur úr fastmótaðra umhverfi. Verkið er að hluta til ádeila á stjórnvöld og aðgerðaleysi þeirra í loftslagsmálum.“

Leikritið verður sýnt á Reykjavik Fringe Festival í sumar. Tónlistarmaðurinn Hallvarður Ásgeirsson mun þar leika frumsamda tónlist á gítar.

Þar mun leikhópurinn einnig flytja annað verk eftir Melissu-Kelly, Reclaim the Night. „Það leikrit er 20 mínútna langt og fjallar um konu sem hefur breyst í vampíru af því hún var svo reið vegna þess kynbundna ofbeldis sem konur verða fyrir,“ segir Sólveig. Þriðja verkið sem hópurinn mun sýna á Fringe-hátíðinni er Them, en farið verður með þá sýningu út fyrir landsteinana, til Bretlands, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs.

Ópera byggð á ljóðabók

Leikhópurinn Spindrift var stofnaður árið 2013 og samanstendur af þremur íslenskum konum og þremur finnskum. „Við erum allar búsettar hver í sínu landinu og vinnum mikið í gegnum fjarsamskipti,“ segir Bergdís. Þar sem hópurinn samanstendur af konum eru réttindi og sögur kvenna í forgrunni.

Nokkur verk eru í bígerð. „Við erum að vinna að óperu sem byggð er á ljóðabók Elísabetar Jökuls, Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett. Anna Halldórsdóttir semur tónlistina og Tinna Þorvalds Önnudóttir, sem er í leikhópnum, er einnig óperusöngkona. Hún verður ein á sviðinu og syngur og leikur í bland. Með henni verður sellóleikarinn Júlía Mogensen. Verkið verður vonandi sýnt í haust eða næsta vor,“ segir Bergdís.

Hópurinn hyggst gera verk um ömmu Bergdísar, Hjördísi Pétursdóttur, sem var dægurlagahöfundur og söngkona. „Hún átti virkilega áhugaverða ævi en glímdi við andleg veikindi. Ég kynntist henni ekki en er núna spennt að grúska í ævi hennar,“ segir Bergdís.