Leikkonan Louise Fletcher er látin 88 ára að aldri. Leikkonan var hvað þekktust fyrir leik sinn í myndinni One Flew Over the Cuckoo’s Nest. Hún fékk óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni árið 1976.

Umboðsmaður Fletcher sagði í samtali við AP að hún hefði dáið í faðmi fjölskyldu sinnar í Frakklandi. Hún lést í gær. Hún glímdi tvisvar við krabbamein en það var ekki það sem dró hana til dauða. Sonur hennar segir hana hafa látist af náttúrulegum orsökum.

Á vef Guardian kemur fram að þegar Fletcher fékk Óskarsverðlaunin hafi hún þakkað foreldrum sínum á táknmáli en þau eru bæði heyrnarlaus. Þá þakkaði hún einnig áhorfendum fyrir að hata sig.

Fletcher giftist framleiðandanum Jerry Bick snemma á sjöunda áratugnum en þau áttu saman tvo syni. Hún skildi við Bick 1977 og lætur því tvo syni sína eftir sig.

Fletcher í hlutverki hjúkrunarfræðingsins Ratched í myndinni One Flew Over the Cuckoo’s Nest.
Fréttablaðið/Getty