Leikhússtjórar Borgarleikhússins og Þjóðleikhússins bjóða áhorfendur velkomna með nýjum breytingum á samkomutakmörkunum sem taka gildi þann 13. janúar næstkomandi. Öll starfsemi helst í hendur við gildandi takmarkanir og er kappkostað að tryggja öryggi áhorfenda sem og starfsmanna leikhúsanna.

„Mikil tilhlökkun er að taka á móti leikhúsgestum aftur og landsmenn þyrstir í góða skemmtun til að gleyma dagsins amstri,“ segir Brynhildur.

„Við í Þjóðleikhúsinu iðum í skinninu að geta farið að taka á móti áhorfendum á nýjan leik og að fá að hrífa þau með okkur,“ segir Magnús Geir.

Janúar í Borgarleikhúsinu er barnamánuður en um helgina var framsýnt nýtt verk sem heitir Fuglabjargið í samstarfi við sviðslistahópinn CGFC. Í lok mánaðar verður Stúlkan sem stöðvaði heiminn í sýningu á litla sviðinu. Helga Arnalds leikstýrir verkinu en verkið er samið af leikhópnum Tíu fingur. Einnig birtist Gosi á ný á stóra sviðinu en í þetta sinn þreytir ungur leikari, Árni Þór Lárusson sem er nýútskrifaður úr LAMDA, frumraun sína í Borgarleikhúsinu. Hann leysir af Harald Ara Stefánsson, sem hefur verið í tökum fyrir Ófærð.

„Þetta er rosalega spennandi og stóri salurinn okkar er með 547 sæti en við erum búin að raða samkvæmt núverandi sóttvarnarreglum,“ segir Brynhildur. Hún segir að allt þeirra starf sé í samstarfi við sóttvarnaryfirvöld og að grímuskylda sé í gildi innan veggja leikhúsanna. Aðspurð segir hún frábært ef fengist hlé í barnasýningum. „Blessuð börnin eru þannig að þau þurfa að pissa.“

Fuglabjargið er tónleikverk fyrir börn og foreldra þar sem hljóðfæraleikarar og söngvarar verksins bregða sér í allra fugla líki.
Mynd: Owen Fiene

Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri fagnar því að staðan í samfélaginu sé að batna og að nýrri reglugerð sé leikhúsunum gert auðveldara að byrja að taka á móti gestum. Þjóðleikhúsið ætlar þann 22. janúar að frumsýna nýja sýningu, Vertu úlfur! sem byggir á áhrifaríkri sögu Héðins Unnsteinssonar á Stóra sviðinu.

Jafnframt hefjast barnasýningar í Kúlunni um næstu helgi með frumsýningu Geim-mér-ei í samstarfi við leikhópinn Miðnætti. „Svo vonumst við til að geta hafið sýningar á ný á Upphafi, Kópavogskróníku og Kardemommubænum áður en á löngu líður,“ segir Magnús Geir.

Æfingar hefjast upp úr miðjum mánuði á Nashyrningunum, Ástu og Kafbáti. „Við vonumst til þess að þegar þær verða frumsýndar þá hafi verið slakað enn frekar á samkomutakmörkunum og sýningahald færist svo jafnt og þétt í hefðbundnara og frjálslegra form eftir því sem nær líður vorinu.“

Næstu helgi verður frumsýning á Geim-mér ei í Þjóðleikhúsinu.
Mynd: Leikhópurinn Miðnætti