Magnús Geir Þórðar­son Þjóð­leik­hús­stjóri er lands­mönnum vel kunnur, en hann hefur stýrt svo gott sem öllum ís­lenskum at­vinnu­leik­húsum á ferli sínum og starfaði sem út­varps­stjóri RÚV um nokkurra ára skeið. Magnús segir komandi leik­ár hjá Þjóð­leik­húsinu vera ó­trú­lega fjöl­breytt og saman­standa af góðri blöndu stór­sýninga, nýrra ís­lenskra verka, form­til­rauna og barna­sýninga.

„Við erum með tvær stór­sýningar sem við frum­sýnum á árinu, annars vegar verð­launa­söng­leikinn Sem á himni, sem er búinn að vera lengi í undir­búningi hjá okkur. Hér er um frum­flutning að ræða á þessum dá­sam­lega söng­leik í metnaðar­fullri upp­setningu.“

Sem á himni er byggt á sam­nefndri sænskri bíó­mynd eftir Carin og Kay Pollak sem vann til Óskars­verð­launa 2004. Unnur Ösp Stefáns­dóttir leik­stýrir ein­vala­liði leikara og söngvara, en með aðal­hlut­verk fara Elmar Gil­berts­son, Salka Sól, Val­gerður Guðna­dóttir, Guð­jón Davíð Karls­son, Hin­rik Ólafs­son og Katrín Hall­dóra Sigurðar­dóttir. Jón Ólafs­son er tón­listar­stjóri og Lee Proud er dans­höfundur.

„Við höfum þá trú og til­finningu að þetta verk sé akkúrat það sem þjóðin vilji og þurfi núna í kjöl­far Co­vid. Þetta verður sann­kölluð veisla,“ segir Magnús Geir.

Við höfum þá trú og til­finningu að þetta verk sé akkúrat það sem þjóðin vilji og þurfi núna í kjöl­far Co­vid. Þetta verður sann­kölluð veisla.

Ekki dæmi­gerð barna­sýning

Hitt stóra verkið sem um ræðir er stór­sýning fyrir börn og fjöl­skyldur sem byggð er á Drauma­þjófinum eftir Gunnar Helga­son, einni vin­sælustu barna­bók síðari ára.

„Þarna erum við að vinna nýja leik­gerð, semja tón­list og skapa sann­kallaða leik­hús­veislu úr þessari sögu sem á alveg ó­trú­lega mikið erindi í dag,“ segir Magnús Geir.

Leik­stjóri verksins er Stefán Jóns­son, leik­gerðin er unnin af Björk Jakobs­dóttur, Þor­valdur Bjarni Þor­valds­son fer með tón­listar­stjórn og Lee Proud er dans­höfundur. Á meðal þeirra sem fara með hlut­verk eru Þuríður Blær Jóhanns­dóttir, Kjartan Darri Kristjáns­son, Almar Blær Sigur­jóns­son, Guð­rún S. Gísla­dóttir og Örn Árna­son.

„Við erum ó­skap­lega spennt fyrir þessu verk­efni enda er hér um mikla frum­sköpun að ræða en það gerist ekki á hverjum degi að sköpuð sé ný barna- og fjöl­skyldu­sýning af þessum metnaði hér á landi. Það er ein­vala hópur list­rænna stjórn­enda sem stýrir verk­efninu og við trúum því að þessi sýning geti heillað börn á öllum aldri og fjöl­skyldur þeirra,“ segir Magnús Geir.

Magnús Geir segir blómlega tíma í vændum í Þjóðleikhúsinu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Síðustu tvö ár krefjandi

Magnús Geir tók við starfi Þjóð­leik­hús­stjóra í byrjun árs 2020, að­eins nokkrum mánuðum áður en Co­vid skall á. Spurður um hvort leik­húsið sé búið að jafna sig eftir síðustu tvö ham­fara­ár segir hann:

„Eins og gefur að skilja, þá grunaði mig ekki hvað fram undan væri þegar ég tók við starfi Þjóð­leik­hús­stjóra í upp­hafi árs 2020. Það sem við tók árin tvö þar á eftir voru sannar­lega krefjandi að­stæður og ekki óska­staða fyrir okkar leik­hús frekar en önnur. Hins vegar þá er ég ó­skap­lega stoltur af því hvernig starfs­fólk Þjóð­leik­hússins tókst á við þessar erfiðu að­stæður og þær metnaðar­fullu sýningar sem okkur tókst að skapa á þessum tíma. Við opnuðum leik­húsið í öllum glufum sem gáfust á milli sam­komu­banna, leituðum nýrra leiða til að hreyfa við á­horf­endum og fórum með leik­húsið til lands­manna þegar þeir máttu ekki koma til okkar.“

Magnús Geir segir sann­kallaðar perlur hafa orðið til í leik­húsinu á síðustu tveimur árum og nefnir meðal annars sýningar á borð við Vertu úlfur með Birni Thors í leik­stjórn Unnar Aspar, fram­úr­stefnu­lega upp­færslu Þor­leifs Arnar Arnars­sonar á Rómeó og Júlíu eftir Willi­am Shakespeare og stór­sýninguna Fram­úr­skarandi vin­kona, byggða á verkum Elenu Ferrante í leik­stjórn suður­afríska verð­launa­leik­stjórans Yaël Far­ber.

„Eftir þessi tvö ár standa minningar leik­hús­gesta um magnaðar sýningar en jafn­framt endur­nýjuðum við allt fram­hús leik­hússins og veitinga­að­stöðu fyrir gesti okkar, Kjallarinn gekk í endur­nýjun líf­daga og okkur gafst tími til að skerpa á list­rænni stefnu hússins og sækja fram í er­lendu sam­starfi. Þannig stendur Þjóð­leik­húsið sterkt, þó þetta hafi að sjálf­sögðu reynt á starfs­fólk og fjár­hag. Við erum hins vegar ó­skap­lega þakk­lát fyrir að hleypa nýju leik­ári af stokkunum án Co­vid-tak­markana,“ segir hann.

Eins og gefur að skilja, þá grunaði mig ekki hvað fram undan væri þegar ég tók við starfi Þjóð­leik­hús­stjóra í upp­hafi árs 2020. Það sem við tók árin tvö þar á eftir voru sannar­lega krefjandi að­stæður og ekki óska­staða fyrir okkar leik­hús frekar en önnur.

Hval­reki fyrir ís­lenskt leik­hús­líf

Eitt af stærstu komandi verk­efnum Þjóð­leik­hússins er heims­frum­sýning á þrí­leik eftir hið heims­þekkta þýska leik­skáld Marius von Mayen­burg. Um stórt og metnaðar­fullt verk­efni er að ræða sem teygir sig yfir árið 2023 með jóla­frum­sýningu á Ellen Babić, Ex sem verður frum­sýnt um vorið og Alveg sama, sem verður frum­sýnt um haustið.

„Það er margt ó­venju­legt og ný­stár­legt í þessu verk­efni. Hér er eitt öflugasta leik­skáld sam­tímans, Marius von Mayen­burg, sem hefur verið sýndur um allan heim og þýddur á yfir þrjá­tíu tungu­mál. Hann skrifar þrí­leik, þrjú ný geggjuð leik­rit, flug­beitt, fyndin og á­huga­verð, sem taka á mjög brýnum málum sem hafa verið ofar­lega í um­ræðunni að undan­förnu,“ segir Magnús Geir.

Al­þjóð­legt list­rænt teymi tekur þátt í upp­setningunni en ástralski leik­stjórinn Bene­dict Andrews mun leik­stýra fyrri tveimur verkunum á meðan Marius von Mayen­burg mun sjálfur leik­stýra því þriðja. Þá mun þýski leik­mynda­hönnuðurinn Nina Wetzel sjá um leik­mynda­hönnun.

„Þetta er því­líkur hval­reki fyrir okkar leik­hús og ís­lenska á­horf­endur. Á sama tíma er þetta nýtt form, þrí­leikur – hvert verk er al­ger­lega sjálf­stætt og alls ekki fram­hald af því sem á undan kom en þau kallast á á skemmti­legan hátt. Okkur finnst gaman að leita nýrra leiða með form og inni­hald,“ segir Magnús Geir.

Al­þjóð­legt list­rænt teymi tekur þátt í upp­setningunni á þríleik Mariusar von Mayenburg, þar á meðal ástralski leikstjórinn Benedict Andrews og þýski leikmyndahönnuðurinn Nina Wetzel.
Mynd/Þjóðleikhúsið

Blóma­tímar fram­undan

Fjöl­margt annað er á döfinni á Þjóð­leik­húsinu á komandi leik­ári. Í byrjun októ­ber verður Kassinn endur­opnaður eftir breytingar á fram­húsi og veitinga­að­stöðu með frum­sýningu á nýju verki eftir Adolf Smára Unnars­son, Nokkur augna­blik um nótt, í leik­stjórn Ólafs Egils­sonar. Leikarar þar eru Vig­dís Hrefna Páls­dóttir, Björn Thors, Hilmar Guð­jóns­son og Ebba Katrín Finns­dóttir. Í byrjun janúar verður svo frum­sýnd ný leik­gerð í Kassanum af gaman­leiknum As you like it eftir Willi­am Shakespeare, Hvað sem þú vilt, í leik­stjórn Ágústu Skúla­dóttur. Leik­hópurinn saman­stendur af mörgum fremstu gaman­leikurum þjóðarinnar og tón­listar­mönnum.

Þá verður ný­stár­leg út­færsla af Ís­lands­klukkunni eftir Hall­dór Lax­ness frum­sýnd á litla sviðinu í leik­stjórn Þor­leifs Arnar Arnars­sonar í sam­starfi við leik­hópinn Elefant. Fjöl­margar barna­sýningar verða á boð­stólum, má þar nefna Um­skipting og Láru og Ljónsa.

Rómaðar sýningar frá fyrra ári birtast á ný, verð­launa­verkin Sjö ævin­týri um skömm og Vertu úlfur koma á Stóra sviðið í haust, Jóla­boðið mun gleðja á að­ventunni og Prinsinn mun gleðja Reyk­víska leik­hús­gesti eftir ferð um landið í vor. Þá mun Góðan daginn, faggi fara á viða­mikla leik­ferð um landið á haust­dögum. Ný ís­lensk verk verða frum­sýnd í há­degis­leik­húsinu, metnaðar­fullt fræðslu­starf verður í leik­húsinu í allan vetur og boðið verður upp á metnaðar­fullar er­lendar gesta­sýningar.

„Við erum að springa af til­hlökkun og gleði. Við hlökkum til að mæta á­horf­endum með þau metnaðar­fullu verk sem við erum með í pípunum. Eftir ein­veruna og allt Net­flix-glápið erum við minnt á hvað ó­trú­legur galdur felst í því að koma og upp­lifa saman í leik­hússal með fullum sal af fólki. Eftir það rof sem Co­vid leiddi af sér vonum við inni­lega að fólk verði fljótt að tryggja sér kort og verða fastir gestir í leik­húsinu aftur. Ég hef þá til­finningu að það séu miklir blóma­tímar fram undan,“ segir Magnús Geir.