Kafbátur í leikstjórn Hörpu Arnardóttur er nýtt íslenskt barnaleikrit eftir Gunnar Eiríksson sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 20. mars. Verkið var valið úr ríflega 150 innsendum verkum í samkeppni Þjóðleikhússins um barnaleikrit.

Höfundurinn Gunnar Eiríksson er leikari og leikstjóri sem býr í Noregi. „Ég er Íslendingur og á norskan pabba og íslenska mömmu. Ég er fæddur í Tromsö, langt í norðri, og á tvö yngri systkini, bróður sem býr í Noregi og systur sem býr í Reykjavík,“ segir Gunnar. Vorið 2011 útskrifaðist hann sem leikari frá Leiklistarháskólanum í Þrændalögum og hefur síðan leikið við flest leikhús í Noregi og í sjónvarpi. „Ég hef fengið tækifæri til að kalla mig bæði Pétur Gaut, Hróa Hött, Ósvald Alving, Gregor Samsa og Jósef frá Nasaret. Ég lék í fyrsta skipti í sjónvarpi árið 2019, þegar ég lék lögreglumanninn Frank Haukeland í sjónvarsþáttunum Twin, sem Kristofer Hivju lék líka í. Þættirnir voru seldir til meðal annars Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands og Íslands.

Sama ár spurði leikhússtjórinn í leikhúsinu í Haugesund, Morten Joachim, hvort ég gæti hugsað mér að leikstýra sýningu þar. Ég hafði unnið með honum sem leikari áður og greinilega blandað mér nógu mikið inn í leikstjórnina til að hann vildi gefa mér tækifæri til að skapa eitthvað sjálfur.

Leikrit Gunnars, Kafbátur, verður frumsýnt á laugardag.

Ég hafði aldrei leikstýrt áður en svaraði já, svolítið taugaóstyrkur, og byrjaði að leita að efni. Eftir að hafa lesið bækur og leikrit fyrir bæði börn og fullorðna fann ég ekkert sem mér fannst henta. Þess vegna spurði ég leikhússtjórann hvort ég mætti skrifa leikritið sjálfur. Sem betur fer fyrir mig svaraði hann: „Ég hélt þú ætlaðir aldrei að spyrja. Það er auðvitað það besta!“

Heillast af kafbátum

En af hverju skrifa verk um kafbát? „Ég hef alltaf heillast af kafbátum og umhverfi þeirra, að innan og utan, og hvernig börn og fullorðnir líta hver á sinn hátt á þá. Þess vegna settist ég niður og skrifaði um fjölskyldu sem býr í kafbát. Á sama tíma og ég var að skrifa þetta leikrit hringdi afi minn á Íslandi í mig og sagði mér frá samkeppni Þjóðleikhússins um efni fyrir börn. Ég sendi inn handritið og vonaði það besta. En þegar ég sá hvesu mörg verk og hugmyndir höfðu verið send inn hugsaði ég ekki svo mikið um það meir. Ég var viss um að Kafbáturinn yrði ekki valinn. Ég varð þess vegna steinhissa þegar Magnús Geir leikhússtjóri hringdi allt í einu einn daginn og sagði mér að mitt handrit hefði orðið fyrir valinu. Kafbátur er frumraun mín sem leikritaskálds og þó að ég hafi tekið þátt í að semja leikrit og leiksýningar áður, er þetta fyrsta verkið sem ég skrifa algerlega sjálfur.“

Fljóta og sökkva samtímis

Spurður um efni leikritsins segir Gunnar: „Kafbátur fjallar um stelpu sem heitir Argentína og býr með pabba sínum og rafmagnsál í kafbáti. Þetta er framtíðarverk þar sem allur heimurinn er hulinn vatni. Argentína veit ekki hvernig heimurinn leit út áður. Pabbi hennar hefur aldrei sagt henni frá því. Nú ferðast þau um í rafkafbátnum sínum, sem er drifinn af rafmagnsálnum, og leita að eldsneyti fyrir tímavélina. Með henni ætla þau síðan að ferðast til baka til kvöldsins sem mamma hvarf, svo Argentína geti eignast mömmu aftur. En í leit þeirra birtast ýmsar skepnur sem breyta öllu.“

Spurður hvort það sé boðskapur í leikritinu segir Gunnar: „Kafbátur fjallar um það að vera hræddur við að segja börnum sannleikann, hversu einfalt það er að taka ákvarðanir án þeirra en hversu mikilvægt það er að leyfa þeim að eiga þátt í þeim. Verkið fjallar um heim okkar og hvert hann stefnir og um vináttu og von. Það fjallar um að fljóta og sökkva samtímis. Þetta hljómar kannski sorglega en er það sannarlega ekki. Þetta er frásögn barnanna, full af gleði og hlýju.

Ég vildi skrifa fyrir börn af því að þau eru svo ótrúlega hreinskilin sem áhorfendur og segja miskunnarlaust hvað þeim finnst. Og með svo hreinskilna áhorfendur gat ég skrifað algerlega hreinskilna sögu nákvæmlega eins og mig langar til að segja þeim hana. Og þegar ég er hreinskilnastur er ég líka barnalegastur.“

Hann er að lokum spurður hvort hann sé með fleiri hugmyndir að leikritum og segir: „Það eru ýmsar hugmyndir á sveimi í kollinum á mér í augnablikinu. Ég er ekki viss um hvort þær enda í bók eða verða að einhverju fyrir sjónvarp. Kannski verða þær aldrei að neinu. Ég vil allra helst að hugmyndir mínar endi í leikhúsi. Fyrir mér er leikhúsið besti sögumaðurinn, með mestan leik, sköpunarkraft og húmor. Svo já, ég hef ýmsar hugmyndir! En ég veit ekki alveg hvert ég ætla næst. Kannski inn í draumalönd? Þar held ég að margt geti gerst.“