Í kvöld verður sketsasýningin Kanarí frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum. Samnefndur leikhópur stendur að baki sýningunni en henni er leikstýrt af Guðmundi Felixsyni.

Leikhópurinn Kanarí setur upp sketsasýningu undir sama nafni sem verður frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld. Meðlimir leikhópsins hafa þekkst mislengi en hann skipa þau Steiney Skúladóttir, Pálmi Freyr Hauksson, Máni Arnarsson, Eygló Hilmarsdóttir og Guðmundur Felixson, en sá síðastnefndi leikstýrir einnig verkinu.

„Mæður okkar Steineyjar eru bestu vinkonur svo við kynntumst þegar við vorum litlar. Svo vorum við Steiney og Gummi saman í Herranæturstjórn í MR og þar byrjaði okkar leiklistarsamstarf. Síðan kynnumst við öll að lokum í spunanum,“ segir Eygló.

„Já, við hin höfum öll verið í sýningahóp Improv Ísland í nokkur ár. Þar höfum við sýnt spunasýningar og þjálfað grín-vöðvann. Spunasenur eru í raun eins og sketsar sem eru búnir til á staðnum. Við vinnum með rosa svipaða hugmyndafræði í spunasenum og í sketsaskrifum,“ segir Guðmundur.

„Ég man einmitt að eitt það fyrsta sem Gummi sagði við mig á fyrstu spunaæfingunni okkar var: „Ég held að Pálmi sé húmorslaus.“ Ég og Gummi vorum báðir vandræðalegir og ungir menn,“ bætir Pálmi við.

Spuni gott verkfæri í lífinu

En hvernig varð leikhópurinn ­Kanarí til?

„Spuni er nátengdur sketsaforminu, flestir grínistar úti í heimi í dag sem eru að skrifa sketsa, til dæmis Key & Peele og SNL, byrjuðu í spuna. Þannig að okkur sem höfðum verið lengi í spuna langaði að stofna sketsahóp. Guðmundur Einar var að vinna sem framleiðandi á RÚV núll og hóaði saman þessum hóp til að skrifa og leika nokkra sketsa,“ útskýrir Guðmundur.

Eygló segir að það sem maður læri í spuna eigi rosalega vel við í lífinu almennt.

„Að hlusta, segja já við hugmyndum og bæta þær og styðja hvert annað. Þetta eru rosa góðar grunnreglur í samstarfi, hvort sem maður er að búa til leikhús eða gera eitthvað allt annað. Við erum líka með ólíka styrkleika og komum öll með eitthvað að borðinu sem skiptir máli. Máni er til dæmis mjög handlaginn, hann föndraði sitt eigið „props“, flugdreka, sem sparaði okkur að minnsta kosti 2.000 krónur, eða hvað kosta flugdrekar í dag? Það telur allt saman.“

Öll hafa þau reynslu af spuna og voru í Improv Ísland. Þau voru svo fengin til að gera sjónvarpsþætti fyrir Rúv núll sem hétu einfaldlega Kanarí
fréttablaðið/anton

„Já, Máni er sko verkfræðingur og hann var lengi með þá hugmynd að búa til alvöru vélmenni til að vera í sýningunni. Tókst honum það? Tja, fólk þarf bara að koma á sýninguna til að fá svarið við því,“ segir Guðmundur.

Eins og fram hefur komið byrjaði þetta allt þegar Guðmundur Einar safnaði saman þessum hópi fyrir RÚV núll.

„Við vorum svo að vinna saman allan síðasta vetur að sýningunni og sjónvarpsseríu sem átti að koma út á RÚV í byrjun árs 2021. Þetta átti að vera Kanarí-veturinn mikli en svo frestaðist allt út af Covid. Við erum búin að liggja á þessari sjónvarpsseríu og þessu leikriti núna í nokkra mánuði án þess að ná að sýna neitt. En nú loksins getum við sýnt sýninguna og sjónvarpsserían ætti að koma út í byrjun næsta árs,“ segir Pálmi.

„Covid er náttúrulega búið að vera óbærilegt fyrir sviðslistafólk, en núna erum við að springa úr spenningi yfir að geta loksins troðfyllt Þjóðleikhúskjallarann af grínþyrstum áhorfendum. Og við lofum að það er enginn skets sem tengist Covid,“ bætir Guðmundur við.

Styðjast við handrit

Sýningin samanstendur af stuttum sögum.

Er þetta að einhverju leyti spuni eða eru sögurnar nokkuð fullmótaðar?

„Sýningin er ekkert spunnin, við styðjumst við handrit sem breytist lítið sem ekkert kvöld eftir kvöld. Það er svolítið undarlegt fyrir okkur, verandi spunaleikarar sem erum vön því að sýna nýja sýningu kvöld eftir kvöld,“ segir Guðmundur.

„En ekkert undarlegt fyrir mig þar sem ég er jú klassískt menntuð leikkona,“ bætir Eygló við.

„Já, það gleymist oft í umræðunni að Eygló er alvöru leikkona með BA-gráðu. Við hin erum hins vegar bara spunaleikarar. Við Pálmi erum reyndar líka sviðshöfundar,“ segir Guðmundur.

„Þess vegna reyni ég bara að fylgjast með Eygló og apa upp eftir henni,“ segir Pálmi.

„En leikhús er auðvitað lifandi form, þó að sýningin sé fyrir fram skrifuð þá er ekki hægt að gera allt nákvæmlega eins alltaf. Það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis og sýningar geta verið mjög ólíkar eftir viðbrögðum áhorfenda. Það er það sem er svo spennandi í leikhúsinu,“ segir Eygló.

„Svo er reyndar einn skets í sýningunni þar sem Pálmi fær fullt frelsi til að breyta kvöld frá kvöldi. Að margra mati er það besti sketsinn í sýningunni,“ segir Guðmundur.

Áhrifavaldar og tilhugalíf

Hvernig gengur sketsasýning fyrir sig?

„Sketsar eru form sem Íslendingar ættu að þekkja vel úr sjónvarpsþáttum eins og Spaugstofunni, Fóstbræðrum, Stelpunum og Steindanum okkar. En það sem er flókið við að gera sketsasýningu er að það þarf stöðugt að vera að breyta sviðinu, skipta um persónur og flakka á milli heima, þetta þarf allt að gerast innan þess ramma sem leikhúsið er. Ef enginn hlær þá vitum við að okkur hefur mistekist. Það er þetta stefnumót við áhorfendur sem er kannski stærsti munurinn á þessu,“ segir Eygló.

„Það hefur ekki verið mikið um sketsasýningar í íslensku leikhúsi. Veisla í Borgarleikhúsinu er eina dæmið sem manni dettur í hug svona á síðustu árum. Einu sinni var algengt að setja upp svokallaðar revíur í íslensku leikhúsi en munurinn á okkar sketsasýningu og revíuforminu er sá að í revíum er gert grín að málefnum líðandi stundar, þar tíðkast til dæmis að gera grín að stjórnmálamönnum og herma eftir þeim. Við gerum ekkert slíkt og leggjum mikið upp úr því að sketsarnir okkar séu nokkuð tímalausir,“ bætir Guðmundur við.

Guðmundur segir flestar persónurnar í verkinu byggðar á einhverju sem þeim sjálfum finnst fyndið úr þeirra samtíma.

„Það er til dæmis skets um áhrifavalda og tilhugalíf, og einn karakterinn er heilinn hans Mána persónugerður. Oftast dettur manni eitthvað fyndið í hug út frá sinni persónulegu upplifun. Þannig að þó svo að sýningin fjalli alls ekki um okkur þá eru margar af persónunum byggðar á okkur eða okkar upplifun.“

Pálmi segir þau stundum notast við spuna til að búa til hugmyndir eða persónur sem þeim detta í hug.

„Svo förum við oftast hvert í sitt horn og skrifum upp skets. Síðan um hádegisbilið lesum við oftast öll upp sketsana okkar og ræðum þá. Markmiðið var oft að geta notað sirka einn þriðja af efninu sem var skrifað. Skrifa bara ótrúlega mikið af efni og svo nota aðeins það besta. Allir sketsarnir þurfa að komast í gegnum mjög margar síur af skrifum, nótum, endurskrifum aftur og aftur, áður en þeir fóru út á gólf. Þetta er smá eins og Survivor nema í staðinn fyrir keppendur eru þetta sketsar og á endanum standa aðeins þeir bestu eftir. Þessu ferli fylgir gríðarlega mikil höfnun því mest af efninu er ekki notað. Mikið af ferlinu er að lesa upphátt upp efni sem manni finnst fyndið en svo hlær enginn. Það er hræðileg tilfinning.“

„Maður er kannski mjög hrifinn af skets sem maður skrifaði en ef hann fellur ekki í góðan jarðveg hjá hópnum, þarf maður bara annaðhvort að endurskrifa hann eða henda honum. Svo þegar við erum komin með handrit og út á gólf tek ég yfir sem leikstjóri,“ segir Guðmundur.