Búið er að staðfesta að Robbie Coltrane sem er hvað þekktastur fyrir að leika Hagrid í Harry Potter myndunum lést úr fjöllíffærabilun. Hann var 72 ára þegar hann lést.

Coltrane sem var einnig þekktur fyrir hlutverk sín í James Bond myndunum GoldenEye og The World is not enough var vel þekktur í Bretlandi fyrir hlutverk sitt í þáttunum Cracker.

Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Coltrane hafi verið með blóðsýkingu, sýkingu í neðri öndunarvegi, sykursýki, hjartavandamál og ofþyngd þegar hann lést.

Flestir af helstu leikarunum úr Harry Potter myndunum ásamt JK Rowling sem skrifaði bækurnar minntust Coltrone á samskiptamiðlum sínum eftir að fréttir bárust að Coltrane væri látinn.